Hoppa yfir valmynd

Frétt

5. janúar 2017 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Drög að reglugerð um varfærniskröfur vegna starfsemi lánastofnana og fjárfestingarfyrirtækja til umsagnar

Fjármála- og efnahagsráðuneytið óskar eftir umsögnum um drög að reglugerð um varfærniskröfur vegna starfsemi lánastofnana og fjárfestingarfyrirtækja.

Ráðuneytið hefur á undanförnum árum unnið að innleiðingu CRD IV/CRR regluverksins svonefnda hér á landi. CRD IV/CRR regluverkið samanstendur af tilskipun 2013/36/ESB um stofnun og starfsemi fjármálafyrirtækja og varfærniseftirlit með þeim annars vegar og reglugerð (ESB) nr. 575/2013 um varfærniskröfur vegna starfsemi lánastofnana og fjárfestingarfyrirtækja hins vegar (CRR eða CRR-reglugerðin). Meginefni tilskipunarinnar hefur verið innleitt hér á landi með lögum nr. 57/2015 og nr. 96/2016, sem breyttu lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Lög nr. 58/2015, sem breyttu m.a. lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, innleiddu hluta af viðurlagaákvæðum tilskipunar 2013/36/ESB í íslenskan rétt. CRD IV/CRR regluverkið er hluti af endurskoðun Evrópusambandsins á reglum á sviði fjármálamarkaðar og innleiðir m.a. Basel III staðalinn í reglur Evrópuréttar.

Með lögum nr. 57/2015, um breytingu á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki bættist við heimild í 117. gr. a laganna til að taka upp CRR-reglugerðina hér á landi með reglugerð sem fjármála- og efnahagsráðherra setur. CRR-reglugerðin telur 337 blaðsíður og inniheldur yfir 520 efnisákvæði. Þar sem ekki var búið að þýða efni reglugerðarinnar yfir á íslensku þegar lög nr. 57/2015 tóku gildi bættist við heimild í bráðabirgðaákvæði I við lög nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, til að vísa til birtingar á reglugerð (ESB) nr. 575/2013 í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins á ensku. Ennþá er unnið að þýðingu reglugerðarinnar og er heimildin því  nýtt í reglugerð sem ráðherra mun setja á grundvelli 117. gr. a laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Búast má við því að þýðingunni verði lokið á árinu 2017 og verður reglugerðin þá birt á íslensku hér á landi og birt í EES-viðbæti Stjórnartíðinda Evrópusambandsins.

Reglugerðardrögin sem nú eru birt til umsagnar innihalda helstu reglur CRR reglugerðarinnar á íslensku en reglugerðin vísar einnig til enskrar útgáfu CRR-reglugerðarinnar og skal túlka hinn íslenska texta til samræmis við enska textann sbr. 3. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar. Þess skal getið að CRR-reglugerðin er innleidd í heild með hinni íslensku reglugerð þrátt fyrir að ýmis ákvæði hennar komi ekki fram í hinni íslensku reglugerð sbr. 3. mgr. 1. og 91. gr. reglugerðarinnar. Uppbygging hinnar íslensku reglugerðar er í samræmi við uppbyggingu CRR-reglugerðarinnar þ.e. efni sem kemur t.d. fram í I bálki, II. hluta íslensku reglugerðarinnar er að finna í „Title I, Part Two“ í enskri útgáfu. Þá er vakin athygli á 91. gr. hinnar íslensku reglugerðar sem inniheldur sérstök ákvæði um aðlögun CRR-reglugerðarinnar í íslenskan rétt.

Umsagnafrestur er til og með 16 janúar nk.

Umsagnir og athugasemdir skulu berast á tölvupóstfangið [email protected]

Bakgrunnsgögn:

1.      CRR-reglugerðin á ensku

2.      Frumvarp til laga nr. 57/2015 (sjá almennar athugasemdir)

3.      Frumvarp til laga nr. 96/2016 (sjá almennar athugasemdir)

4.      Upplýsingasíða ESB varðandi CRD IV/CRR regluverkið  

5.      Upplýsingar á vefsíðu Fjármálaeftirlitisins um CRD IV/CRR 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum