Hoppa yfir valmynd

Frétt

10. febrúar 2017 Forsætisráðuneytið

Yfirlýsing forsætisráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar

Yfirlýsing forsætisráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar vegna skýrslu nefndar samkvæmt lögum nr. 26/2007 – könnun á vistun barna á Kópavogshæli 1952–1993

Skýrsla vistheimilanefndar um vistun barna á Kópavogshælinu var rædd á fundi ríkisstjórnarinnar í dag. Það er erfitt, en nauðsynlegt, að horfast í augu við það hversu slæmar aðstæður fatlaðra einstaklinga, barna og fullorðinna, voru á Kópavogshælinu. Eins og lesa má í skýrslu nefndarinnar hafði Kópavogshælið ákveðna sérstöðu en önnur vistheimili áttu þó margt sammerkt með hælinu. Ljóst er að af rannsókn nefndarinnar má draga ýmsan lærdóm um stöðu fatlaðra barna og foreldra þeirra og almennt um aðbúnað fatlaðs fólks á stofnunum.

Ég er afar þakklátur fyrir að þessu máli hafi verið gerð svo vönduð og góð skil og tel það mikilvægan hluta af uppgjöri við þetta tímabil í sögu þjóðarinnar.

Ég tala í dag til allra þeirra sem vistuð voru sem börn á Kópavogshælinu og fjölskyldna þeirra:

Fyrir hönd ríkisstjórnarinnar bið ég ykkur afsökunar á þeirri ómannúðlegu meðferð og margháttuðu vanrækslu sem börn bjuggu við á Kópavogshælinu. Sömuleiðis bið ég afsökunar allt fatlað fólk, börn og fullorðna, sem hefur verið vistað á stofnunum hér á landi og sætt þar ofbeldi eða illri meðferð.

Sár reynsla verður aldrei bætt að fullu, en á grundvelli laga um sanngirnisbætur verður nú unnið að því að bæta þeim sem urðu fyrir ofbeldi eða illri meðferð þann skaða sem af því hefur hlotist, að því marki sem það er unnt. Þá eru ráðherrar nú að fara yfir tillögur sem settar eru fram í skýrslunni og meta til hvaða ráðstafana verður gripið í því skyni að standa vörð um mannréttindi fatlaðs fólks í íslensku samfélagi.

Reykjavík, 10. febrúar 2017 

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum