Hoppa yfir valmynd

Frétt

20. febrúar 2017 Forsætisráðuneytið

667/2017. Úrskurður frá 30. janúar 2017

Úrskurður

Hinn 30. janúar 2017 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 667/2017 í máli ÚNU 16050017.  

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 25. maí 2016, kærði A synjun vísindasiðanefndar, dags. 18. maí 2016, á beiðni sinni um aðgang að rannsóknaráætlun um skimun fyrir góðkynja einstofna mótefnahækkun. Jafnframt var óskað eftir umfjöllun og afgreiðslu vísindasiðanefndar á rannsókninni. Gögn málsins bera með sér að vísindasiðanefnd fjallaði um rannsóknina dagana 8. og 26. apríl og gaf út leyfi fyrir henni í samræmi við 12. gr. laga um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði nr. 44/2014. 

Beiðni kæranda var synjað með þeim röksemdum að Háskóli Íslands og B, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands og ábyrgðarmaður rannsóknarinnar, hefðu fjárhagslega hagsmuni af því hvort veittur yrði aðgangur að rannsóknaráætluninni. Þau hugverk sem til yrðu í rannsókninni verði eign Háskóla Íslands, B og styrkveitanda. Jafnframt kom fram að rannsóknin byggði á hugviti ábyrgðarmanns rannsóknarinnar, aðferðum og tilgátum um meðhöndlun á mergæxlum og skyldum sjúkdómum sem kynnu síðar að njóta einkaleyfisverndar og höfundarverndar. Vísindasiðanefnd taldi rannsóknaráætlunina því njóta verndar 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 vegna fjárhagslegra hagsmuna B, Háskóla Íslands og styrkveitanda.  

Jafnframt vísaði nefndin til samkeppnisstöðu Háskóla Íslands. Á grundvelli 4. tölul. 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 væri réttlætanlegt að víkja frá upplýsingarétti almennings samkvæmt 5. gr. laganna þar sem rannsóknaráætlunin innihéldi ekki upplýsingar um hvernig opinberum fjármunum væri varið heldur upplýsingar sem gætu skaðað samkeppnisstöðu Háskóla Íslands.  

Í kæru kemur fram að kærandi telur sig hugsanlega eiga rétt á aðgangi að gögnunum á grundvelli 14. gr. laga nr. 140/2012 sem aðili máls þar sem kærandi sé nokkuð örugglega meðal þeirra sem fyrirhugað er að gera rannsókn á. Einnig er óskað eftir aðgangi á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.  

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 30. maí 2016, var vísindasiðanefnd kynnt kæran og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrði í trúnaði látið í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að. Í umsögn vísindasiðanefndar, dags. 13. júní 2016, kemur fram að nefndin hafi leitað eftir afstöðu B til afhendingar gagnanna og fylgdu athugasemdir hans umsögninni. 

Vísindasiðanefnd áréttaði sjónarmið sem fram komu í hinni kærðu ákvörðun um fjárhagslega hagsmuni og fjallaði um stöðu Háskóla Íslands sem styrkþega á Íslandi og alþjóðavettvangi. Hagsmunirnir séu það veigamiklir að þeir réttlæti undanþágu frá upplýsingarétti almennings skv. 5. gr. upplýsingalaga. Háskóli Íslands sé í samkeppni við einkaaðila sem almennt séu ekki skyldaðir til sambærilegrar upplýsingagjafar. Vísindasiðanefnd benti á að á vef rannsóknarinnar væri að finna upplýsingar er varði framkvæmd rannsóknarinnar og hagsmuni þátttakenda.  

Vísindasiðanefnd telur að beiðni kæranda beri hvorki að afgreiða á grundvelli 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 né 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Gögnin varði kæranda ekki sérstaklega og verulega umfram aðra einstaklinga. Þá segi í 2. tölul. 2. mgr. 14. gr. laganna að ákvæðið gildi ekki um gögn sem hafa að geyma upplýsingar um mikilvæga almannahagsmuni sem leynt eiga að fara samkvæmt 10. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.  

Loks taldi vísindasiðanefnd að ekki myndi þjóna neinum tilgangi að veita kæranda aðgang að hluta umbeðinna gagna í samræmi við 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Þá gæti það skaðað hagsmuni sem nefndin fjallaði um ef tilteknir hlutar rannsóknaráætlunarinnar yrðu gerðir opinberir. Það gæti boðið heim mistúlkun og enn fremur skaðað þá hagsmuni sem þeir fjalla um. Umsögn vísindasiðanefndar var kynnt kæranda með bréfi dags. 28. júní 2016 og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Ekki bárust athugasemdir frá kæranda. 

Niðurstaða

1.

Í máli þessu reynir á rétt kæranda til aðgangs að gögnum sem varða rannsókn sem vísindasiðanefnd fjallaði um og veitti leyfi fyrir á grundvelli laga nr. 44/2014. Af hálfu kæranda er vísað til 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 en samkvæmt ákvæðinu er skylt, sé þess óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að fyrirliggjandi gögnum ef þau hafa að geyma upplýsingar um hann. 

Ákvæði 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, áður 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, hefur verið skýrt svo að undir greinina falli ekki einvörðungu þau tilvik þegar maður óskar eftir aðgangi að gögnum með upplýsingum um sig sjálfan, heldur taki hún einnig til þess þegar upplýsingarnar varða hann með þeim hætti að hann hafi sérstaka hagsmuni af því, umfram aðra, að fá aðgang að gögnunum. 

Engar upplýsingar er að finna um kæranda í umbeðnum gögnum. Þá liggur fyrir að þátttaka í rannsókninni er valkvæð og fyrirhugað er að hún taki til mikils fjölda manna, eða um það bil 140.000 einstaklinga. Eins og hér stendur á er það mat úrskurðarnefndar um upplýsingamál að umbeðin gögn hafi ekki að geyma upplýsingar um kæranda sjálfan í skilningi 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.  

2.

Réttur kæranda til aðgangs að umbeðnum gögnum ákvarðast á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að sé þess óskað sé skylt að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum með þeim takmörkunum sem greinir í 6.-10. gr. laganna. Vísindasiðanefnd byggir á því að heimilt hafi verið að takmarka aðgang kæranda að umbeðnum gögnum á grundvelli 9. gr. og 4. tl. 10. gr. laganna. 

Í 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 segir að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á og að sömu takmarkanir gildi um aðgang að gögnum er varði mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Vísindasiðanefnd leitaði álits Háskóla Íslands og ábyrgðarmanns rannsóknarinnar, sem lögðust gegn birtingu gagna um rannsóknina.  

Eins og áður segir afhenti vísindasiðanefnd úrskurðarnefnd um upplýsingamál afrit af gögnum sem nefndin taldi falla undir beiðni kæranda. Um er að ræða eftirfarandi gögn: 

  • Almenn umsókn til vísindasiðanefndar fyrir rannsóknina „Skimun fyrir góðkynja einstofna mótefnahækkun“, dags. 2. febrúar 2016

  • Bréf vísindasiðanefndar til Háskóla Íslands og B, dags. 8. mars 2016

  • Bréf B til vísindasiðanefndar, dags. 8. apríl 2016

  • Bréf vísindasiðanefndar til Háskóla Íslands og B, dags. 26. apríl 2016 

Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér efni gagnanna. Almenn umsókn til vísindasiðanefndar hefur að geyma tiltölulega ítarlega lýsingu á fyrirhugaðri rannsókn, tilgangi hennar og framkvæmd. Þar er einnig að finna nöfn meðrannsakenda, samstarfsaðila og styrktaraðila, fjallað um siðfræðileg sjónarmið og öflun samþykkis þátttakenda. Enda þótt fallast megi á það með vísindasiðanefnd að rannsóknaráætlanir af þessu tagi geti hugsanlega að hluta talist til gagna um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni þeirra sem standa að rannsókninni þá er enn óljóst hverjir þeir kunna að vera. Vera má að þeir komi síðar í ljós og þá verður það mál þess tíma. Þá er og hér til þess að líta að umfangsmikil gögn hafa verið birt opinberlega um rannsóknina, til að mynda á vef hennar. Þar er meðal annars að finna skjal sem er nefnt rannsóknaráætlun. Könnun úrskurðarnefndar um upplýsingamál leiddi í ljós að skjalið er að stórum hluta sama efnis og almenn umsókn til vísindasiðanefndar, sem kærandi hefur óskað aðgangs að. Ekki verður séð að þær upplýsingar sem er að finna í umsókninni, en ekki áætluninni sem birt er á vef rannsóknarinnar, geti talist lúta að einka- eða fjárhagsmálefnum B eða fjárhags- eða viðskiptahagsmunum Háskóla Íslands þannig að hagsmunir þeirra réttlæti að vikið verði frá meginreglu 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 um rétt almennings til aðgangs að gögnum í vörslum stjórnvalda. Samkvæmt framansögðu ber að veita kæranda aðgang að framangreindri umsókn. 

Bréfaskipti vísindasiðanefndar og aðstandenda rannsóknarinnar á tímabilinu 8. mars til 26. apríl 2016 voru í tilefni af athugasemdum nefndarinnar við nokkra þætti umsóknarinnar. Athugasemdirnar er að finna í fyrsta bréfinu, dags. 8. mars 2016, og viðbrögð rannsakenda bárust með bréfi sem er dags. 8. apríl 2016. Ferlinu lyktaði þannig að vísindasiðanefnd samþykkti rannsóknaráætlun með bréfi dags. 26. apríl 2016 og veitti aðstandendum rannsóknarinnar heimild til aðgangs að tilteknum upplýsingum úr gagnagrunnum á heilbrigðissviði.  

Rétt er að taka fram að í framangreindum bréfum er ekkert að finna sem talist getur varða einka- eða fjárhagsmálefni B eða fjárhags- eða viðskiptahagsmuni Háskóla Íslands. Ljóst er að heildaryfirsýn yfir rannsóknaráætlunina eins og vísindasiðanefnd samþykkti hana í bréfi sínu frá 26. apríl 2016 verður ekki fengin nema með því að lesa saman umsóknina til nefndarinnar, athugasemdir nefndarinnar og viðbrögð umsækjanda við þeim. Í umsókninni kemur fram að bjóða eigi öllum Íslendingum sem eldri eru en 40 ára að taka þátt í skimunarrannsókn á góðkynja einstofna mótefnahækkun (MUGUS). Í gögnum málsins kemur hins vegar ekki skýrlega fram hvaða upplýsingar um rannsóknina muni fylgja boði um þátttöku í henni. Úrskurðarnefndin lítur svo á eins og mál þetta er vaxið og hvers efnis það er eigi almenningur rétt á því á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga að kynna sér á hvaða forsendum rannsóknin hvílir, hvernig ætlunin sé að standa að henni. Þá koma engin undantekningarákvæði frá greininni í veg fyrir þennan rétt, þar með talið undantekningarákvæði 4. tl. 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga.  Niðurstaða nefndarinnar er því sú að kærandi eigi rétt á aðgangi að þeim þremur bréfum sem um er fjallað hér að framan svo og umsókninni til vísindasiðanefndar, dags. 2. febrúar 2016, eins og fyrr er greint frá. 

Úrskurðarorð:

Vísindasiðanefnd ber að veita kæranda, A, aðgang að eftirfarandi gögnum: 

  • Almenn umsókn til vísindasiðanefndar fyrir rannsóknina „Skimun fyrir góðkynja einstofna mótefnahækkun“, dags. 2. febrúar 2016

  • Bréf vísindasiðanefndar til Háskóla Íslands og B, dags. 8. mars 2016

  • Bréf B til vísindasiðanefndar, dags. 8. apríl 2016

  • Bréf vísindasiðanefndar til Háskóla Íslands og B, dags. 26. apríl 2016

  

Þorgeir Ingi Njálsson

varaformaður

 

 

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                     Friðgeir Björnsson

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum