Hoppa yfir valmynd

Frétt

20. febrúar 2017 Forsætisráðuneytið

669/2017. Úrskurður frá 30. janúar 2017

Úrskurður

Hinn 30. janúar 2017 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 669/2017 í máli nr. ÚNU 16070006. 

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 26. júlí 2016, kærði Félag atvinnurekenda f.h. Lyfjavers ehf. synjun Lyfjastofnunar á beiðni um aðgang að gögnum vegna athugunar Lyfjastofnunar á fyrirkomulagi við afhendingu lyfja hjá tilteknum heilbrigðisstofnunum.  

Í kæru kemur fram að kærandi hafi fengið í byrjun maí 2016 upplýsingar um að Lyfjastofnun hafi sent Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Hvammstanga, bréf vegna lyfja sem afgreidd voru samkvæmt lyfseðli frá kæranda. Kærandi óskaði eftir afriti af bréfinu og var afhent afrit þess ásamt öðrum bréfum Lyfjastofnunar til þriggja annarra heilbrigðisstofnana. Í bréfunum eru gerðar athugasemdir við fyrirkomulag afhendingar lyfja samkvæmt lyfseðli frá kæranda og segir að tilefni athugunar Lyfjastofnunar sé ábendingar ónafngreindra aðila og upplýsingaöflun stofnunarinnar. Þá er í bréfunum vísað til þess að það sé mat Lyfjastofnunar að afhending lyfjanna feli í sér brot á 1. mgr. 20. gr. lyfjalaga nr. 93/1994 og 2. mgr. 3. gr. reglugerðar um lyfsöluleyfi og lyfjabúðir nr. 426/1997. Farið er fram á að afhendingu lyfja frá starfstöðvum viðkomandi heilbrigðistofnanna verði tafarlaust hætt. 

Þann 12. maí 2016 óskaði kærandi eftir: (i) upplýsingum um þá sem sendu inn ábendingarnar, (ii) afritum af ábendingum og samskiptum við þá aðila, auk (iii) upplýsinga um það í hverju rannsókn Lyfjastofnunar á ábendingunum fólst og öllum skriflegum samskiptum þeim tengdum. Með tölvubréfi Lyfjastofnunar dags. 27. júní 2016 var kærandi upplýstur um að stofnunin teldi umbeðnar upplýsingar er féllu undir fyrstu tvo liðina varða mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni fyrirtækja og var beiðninni hafnað með vísan til 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Kærandi fékk upplýsingar í tengslum við þriðja liðinn en engin gögn voru afhent. 

Í kæru er málsgrundvelli lýst og kemur þar fram að kærandi telur fara um beiðni sína samkvæmt 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 um upplýsingarétt aðila. Þar sé að finna upplýsingar sem varði kæranda umfram aðra og vísar kærandi í því sambandi til þess að hann hafi verið tilgreindur í  bréfunum sem þegar hafi verið afhent. Þá er gerð grein fyrir þeirri afstöðu kæranda að undanþáguákvæði 6. til 10. gr. laganna eigi ekki við um gögnin.    

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 27. júlí 2016, var Lyfjastofnun kynnt kæran og veittur frestur til 12. ágúst til að koma að umsögn og afritum af gögnum sem kæran lýtur að. Fallist var á að veita stofnuninni viðbótarfrest til 19. ágúst og barst umsögn stofnunarinnar þann dag.  

Í umsögn Lyfjastofnunar, dags. 19. ágúst 2016, kemur fram að stofnunin telur umbeðin gögn falla undir 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Í gögnunum sé að finna upplýsingar um eftirlitsþega stofnunarinnar sem veittu henni upplýsingar í trúnaði. Þeir leggist gegn afhendingu, enda hafi ábendingar þeirra verið veittar í góðri trú um að trúnaður ríkti um hver hefði lagt þær fram. Að auki fjallar Lyfjastofnun ítarlega um það í umsögn sinni að fái kærandi aðgang að upplýsingunum sé jafnvægi á viðkvæmum og erfiðum samkeppnismarkaði raskað, kæranda til hagsbóta.  

Þá kemur fram í umsögninni að í umbeðnum gögnum sé hvergi að finna upplýsingar þar sem fjallað sé um kæranda. Efnislega fjalli gögnin um ákveðna háttsemi sem þeir sem ábendingunum komu til Lyfjastofnunar hafi talið að tilteknar heilbrigðisstofnanir viðhefðu. Kærandi hafi þegar fengið öll gögn þar sem upplýsingar um kæranda sjálfan komi fram, sbr. upplýsingar sem Lyfjastofnun sendi kæranda með tölvupósti, dags. 27. júní 2016. Af þeim sökum telur Lyfjastofnun að ekki komi til greina að afhenda kæranda umbeðnar upplýsingar á grundvelli 14. gr. upplýsingalaga, þar sem greinin eigi einfaldlega ekki við um þær. Jafnframt tiltekur stofnunin að vegna annmarka á meðferð beiðni kæranda hafi stofnunin farið yfir gæðakerfi sitt og bætt úr því er varði synjun beiðni um aðgang að upplýsingum á grundvelli upplýsingalaga. 

Með umsögn Lyfjastofnunar fylgdu bréf þriggja nafngreindra aðila þar sem óskað er upplýsinga um lyfsöluleyfi tiltekinna heilbrigðisstofnana og athugasemdir gerðar við afhendingu og afgreiðslu þeirra á lyfjum.  

Umsögn Lyfjastofnunar var kynnt kæranda með bréfi, dags. 19. ágúst 2016, og kæranda veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum til 5. september. Frekari athugasemdir kæranda bárust ekki. 

Niðurstaða

1.

Mál þetta varðar beiðni um aðgang að tilteknum fyrirliggjandi gögnum vegna athugunar Lyfjastofnunar á fyrirkomulagi afhendingar lyfja hjá tilteknum heilbrigðisstofnunum. Upplýsingabeiðni kæranda er afmörkuð með eftirfarandi hætti í kæru: 

I. Upplýsingar um hvaða aðilar sendu inn ábendingar til Lyfjastofnunar varðandi fyrirkomulag við afhendingu lyfja sem urðu grundvöllur að bréfasamskiptum Lyfjastofnunar við Heilbrigðisstofnun Vesturlands Hvammstanga, Heilbrigðisstofnun Vesturlands Grundarfirði, Heilbrigðisstofnun Austurlands og Heilbrigðisstofnun Norðurlands. 

II. Afrit af viðkomandi ábendingum og öðrum samskiptum Lyfjastofnunar við aðilana sem sendu þær inn. 

III. Öll gögn og upplýsingar sem geta varpað ljósi á hvað fólst í rannsókn Lyfjastofnunar á viðkomandi ábendingum og öllum skriflegum samskiptum þeim tengdum. 

2.

Í tengslum við málið hefur Lyfjastofnun afhent úrskurðarnend um upplýsingamál bréf þriggja nafngreindra aðila þar sem óskað er upplýsinga um lyfsöluleyfi tiltekinna heilbrigðisstofnana og/eða athugasemdir gerðar við afhendingu og afgreiðslu þeirra á lyfjum. Bréfin falla undir liði I. og II. í beiðni kæranda. 

Af gögnum málsins verður ekki ráðið að Lyfjastofnun hafi tekið afstöðu til afhendingar gagna undir III. lið beiðninnar, þ.e. að því er hún varðar „öll gögn og upplýsingar sem geta varpað ljósi á hvað fólst í rannsókn Lyfjastofnunar á viðkomandi ábendingum og öllum skriflegum samskiptum þeim tengdum“. Sama á við um gögn um önnur samskipti Lyfjastofnunar við þá sem sendu inn ábendingar, eins og tilgreint er í lið II. í gagnabeiðni kæranda. Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 skal taka ákvörðun um það hvort orðið verði við beiðni um aðgang að gögnum svo fljótt sem verða má. Lyfjastofnun ber því að taka afstöðu til beiðni kæranda um aðgang að framangreindum gögnum.

3.

Af hálfu Lyfjastofnunar hefur komið fram að ábendingar um fyrirkomulag afhendingar lyfja hafi komið fram í trausti þess að trúnaður ríkti um afhendingu þeirra. Af þessu tilefni tekur úrskurðarnefndin fram að sú meginregla gildir að upplýsingar og gögn stjórnvalda skulu vera aðgengileg almenningi nema takmarkanir á upplýsingarétti sem mælt er fyrir um í upplýsingalögum nr. 140/2012 eða sérlögum eigi við. Stjórnvöld geta ekki án lagaheimildar heitið trúnaði eða samið sig undan skyldum sem á þeim hvíla samkvæmt lögunum. Við mat á því hvort aðgangur að tilteknum upplýsingum skuli veittur getur hins vegar verið að það hafi þýðingu að þær hafi verið gefnar í trúnaði. 

Ljóst er að kærandi er tilgreindur í bréfunum sem um ræðir og þau hafa að geyma upplýsingar um það hvernig kærandi afgreiðir lyf til heilbrigðisstofnana. Með vísan til þessa er ljóst að bréfin innihalda upplýsingar um kæranda sjálfan í skilningi 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 og ber því að taka afstöðu til þess hvort kærandi eigi rétt á afhendingu bréfanna á grundvelli 1. mgr. ákvæðisins. Í 2. til 5. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er tiltekið í hvaða tilvikum unnt er að takmarka upplýsingarétt aðila. Takmörkun á grundvelli 9. gr. laganna um mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarrra lögaðila er ekki þar á meðal. Aftur á móti er unnt, skv. 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga, að takmarka upplýsingarétt aðila hafi þau gögn sem um ræðir að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir, sem mæla með því að upplýsingum sé haldið leyndum, þyngra en hagsmunir þess sem fer fram á aðgang að gögnum. Kjarni reglunnar í 3. mgr. felst í því að vega skuli og meta þessa hagsmuni, en síðarnefndu hagsmunirnir eru að meginstefnu þeir sömu og um ræðir í 9. gr. laganna. 

Kærandi starfar á markaði þar sem fyrirtæki keppa um viðskipti heilbrigðisstofnana um lyfjafræðilega þjónustu. Samkvæmt 2. mgr. 38. gr. lyfjalaga nr. 93/1994 ber stofnunum sem ekki hafa lyfjafræðing í þjónustu sinni, skv. 1. mgr. sama lagaákvæðis, að semja við utanaðkomandi lyfsöluleyfishafa eða sjúkrahúsapótek um lyfjafræðilega þjónustu, svo sem umsjón með öflun lyfja og eftirlit með notkun þeirra. Kærandi hefur gert slíka samninga sem staðfestir hafa verið af Lyfjastofnun. Kærandi hefur því ríka hagsmuni af því umfram aðra að fá afhent gögn er tengjast ábendingum er lúta með beinum hætti að störfum og starfsháttum hans. Verður að telja að hagsmunir hans af aðgangi að slíkum gögnum vegi þyngra en hagsmunir þeirra aðila sem koma á framfæri ábendingum við Lyfjastofnun af því að þau fari leynt. Að mati nefndarinnar hefur ekki verið færð stoð undir þær röksemdir Lyfjastofnunar að afhending ábendinganna til kæranda geti teflt í tvísýnu möguleikum þeirra sem þær rituðu til að koma síðar á viðskiptasambandi við heilbrigðisstofnanir.  

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál að veita beri kæranda aðgang að þeim þremur bréfum sem hér um ræðir. Þá ber Lyfjastofnun að taka án tafar afstöðu til afhendingar annarra gagna sem geta fallið undir beiðni kæranda.  

Úrskurðarorð:

Lyfjastofnun ber að veita kæranda Lyfjaveri ehf. aðgang að bréfum þriggja nafngreindra aðila þar sem óskað er upplýsinga um lyfsöluleyfi tiltekinna heilbrigðisstofnana og athugasemdir gerðar við afhendingu og afgreiðslu þeirra á lyfjum. 

Lyfjastofnun ber að taka afstöðu til beiðni kæranda um aðgang að eftirfarandi gögnum: 

  • Gögn sem geta varpað ljósi á það hvað fólst í rannsókn Lyfjastofnunar á ábendingum varðandi fyrirkomulag við afhendingu lyfja, sem urðu grundvöllur að bréfasamskiptum Lyfjastofnunar við Heilbrigðisstofnun Vesturlands Hvammstanga, Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Grundarfirði, Heilbrigðisstofnun Austurlands og Heilbrigðisstofnun Norðurlands og öllum skriflegum samskiptum þeim tengdum

  • Gögn um önnur samskipti Lyfjastofnunar við aðilana sem sendu ábendingarnar 

 

 

Hafsteinn Þór Hauksson

formaður

 

 

Friðgeir Björnsson                                                                                     Sigurveig Jónsdóttir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum