Hoppa yfir valmynd

Frétt

10. mars 2017 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á ráðstefnu um rafbílavæðingu á Íslandi

 

Björt Ólafsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra flutti eftirfarandi ávarp á ráðstefnu sem Samtök rafverktaka hélt í samvinnu við Samtök iðnaðarins þann 10. mars 2017 undir yfirskriftinni Rafbílavæðingin - framtíðarsýn, tækifæri og hindranir.

 

Ágæta samkoma,

Það er mér heiður að fá að vera með ykkur hér í dag. Rafbílavæðing Íslands er mál sem ég hef mikinn áhuga á og verulega ánægjulegt að sjá að í dag verður rætt hér, meðal annars, hvernig innleiðingarferlið þarf að vera svo rafbílavæðingin verði að veruleika sem fyrst.

Í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, sem kom út nú fyrir skömmu, er lagt mat á þá möguleika sem við Íslendingar höfum þegar kemur að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda og þar með möguleika okkar til að standa við skuldbindingar okkar í loftslagsmálum. Í henni kemur skýrt fram að það sé þjóðhagslega hagkvæmt að ráðast í að rafbílavæða Ísland og lagt til að verkefnið verði sett í forgang sem aðgerð til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Í skýrslunni er sett fram sviðsmynd sem gerir ráð fyrir því að rafmagnsbílar komi að stórum hluta í stað bensín- og dísilbíla á næstu áratugum. Þar er gert ráð fyrir því að sala á rafmagnsfólksbílum muni halda áfram að aukast á kostnað hefðbundinna bensín- og dísilsbíla. Einnig er gert ráð fyrir sambærilegri rafvæðingarþróun millistórra flutningabíla frá árinu 2020 og frá og með árinu 2030 eigi það sama við um stóra flutningabíla.

Þróunin verði þannig að árið 2050 verði hlutfall rafdrifinna fólksbíla komið yfir 80% og á sama tíma muni rúmlega 70% millistórra flutningabíla og um 50% stórra flutningabíla ganga fyrir rafmangi.

Ef við fylgjum þessu plani bendir allt til þess að rafbílavæðing bílaflotans geti dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda frá vegasamgöngum um ríflega 23% miðað við spá um afskiptalausa þróun fyrir árið 2030.

Vissulega hefur ýmislegt verið gert nú þegar til að ýta þróuninni í þessa átt; svo sem með lækkun gjalda og skatta á loftslagsvæna bíla og eldsneyti og með styrkingu á innviðakerfi fyrir rafbíla. Í því samhengi má nefna að í lok síðasta árs var úthlutað úr Orkusjóði vilyrði fyrir um 200 milljónum, mest megnis til uppsetningar hleðslustöðva víðsvegar um landið.

Nær öll okkar raforka er framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum og því erum við í ótrúlega góðri aðstöðu til að rafvæða bílaflotann. Ábati rafvæðingarinnar verður líka margþættur. Til að mynda mun breytingin úr bensín- og dísilbílum yfir í rafmagnsbíla draga úr heilsuspillandi mengun um leið og losun gróðurhúsalofttegunda dregst saman. Og – með því að nýta okkar græna rafmagn til að knýja samgöngukerfið, spörum við einnig verðmætan gjaldeyri, sem ella færi í innkaup á innfluttu jarðefnaeldsneyti. Það er í raun ótækt að fullnýta ekki okkar eigin auðlindir á þann hátt að samfélagslegur ábati verði sem mestur.

Við þurfum að einhenda okkur í þetta verkefni með orkusjálfbærni Íslands að leiðarljósi. Við eigum líka að setja okkur það markmið að vera leiðandi ríki í orkuskiptum í samgöngum og sjávarútvegi, ef út í það er farið.

Það er óhætt að segja að mikil þróun hefur orðið í framleiðslu rafbíla á undanförnum árum og þeir að verða æ samkeppnishæfari í verði. Ég tel samt mikilvægt að við höldum áfram að hvetja fólk til að fjárfesta í loftslagsvænum bílum umfram aðra, til dæmis með beinum hagrænum hvötum. Þróun í Danmörku hefur m.a. sýnt að um leið og ívilnanir til kaupa á loftslagsvænum bílum lækka þá dregst salan strax saman.

Margir líkja rafvæðingarátakinu framundan við orkuskiptin úr kolum og olíu yfir í jarðvarma til húshitunar á sínum tíma. Og það er alveg rétt að líkja þessu saman – það er nauðsynlegt að skoða orkuskipti í samgöngum sem stórt samfélagslegt verkefni, rétt eins og innleiðing hitaveitunnar var. Kostnaður við innviðauppbyggingu fyrir rafbíla ætti þó að vera hlutfallslega mun lægri en hann var við hitaveituvæðinguna og hægt er að ná skjótum árangri því orkan er til staðar í kerfinu þó skorti á innviðina.

Hvað varðar uppbygginu innviða þá eru ýmsir, bæði tæknilegir og praktískir, hlutir sem hafa þarf í huga og mikilvægt að taka þá alla með í reikninginn, þar með talda ýmsa kerfislæga þætti sem gæti þurft að breyta

Í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu er til dæmis verið að skoða hvort eitthvað sé í regluverkinu sem geti verið til hindrunar þegar kemur að uppbyggingu innviða vegna rafbílavæðingar. Það er til dæmis ljóst að ekkert er fjallað um innviði fyrir rafbíla í skipulagslöggjöf né heldur í byggingarreglugerð.

Einnig er vert að skoða hvort sveitarfélög þurfi að setja sér stefnumörkun varðandi þessi mál; svo sem varðandi stærð heimtauga í götur og að fjölbýlishúsum, svo tryggt sé að raforkan sé aðgengileg til að hlaða bílana. Sérstaklega er mikilvægt að huga að þessum þáttum varðandi skipulag nýrra byggingarsvæða og hönnun nýbygginga.

Það þarf sömuleiðis að liðka eftir bestu getu fyrir möguleikum stofnana og fyrirtækja til að setja upp hleðslustöðvar. Margt bendir nefnilega til þess að aðgengi að hleðslustöðum við vinnustaði geti orðið lykilatriði til að tryggja almenna eign rafbíla, því það geti gengið hraðar en uppbygging slíkrar aðstöðu við öll heimili, sérstaklega við eldri fjölbýli.

Einnig eru tæknilegir þættir sem þarf að rýna í; eins og það hver má og getur selt raforku? Þetta þarf allt að skoða betur og helst hratt. Þarna þarf stjórnsýslan að bæta í svo hugsanlegir óleystir tæknilegir þættir verði ekki hamlandi fyrir uppbygginguna.

Að lokum langar mig til að ítreka hversu mikilvægt mér finnst að þeir aðilar sem að þessum málum koma starfi saman. Við höfum ekki efni á því hér á þessu litla landi að það spretti upp mörg kerfi, mismunandi innstungur, snúrur og þess háttar. Auðvitað þarf að gæta að samkeppni, en ég tel það samt sem áður mikilvægt að lágmarka flækjustigið eins og kostur er.

Kæru ráðstefnugestir, rafbílavæðing Íslands er spennandi verkefni frá öllum bæjardyrum séð og ég hlakka til að taka þátt í því með ykkur og landsmönnum öllum að láta það verða að veruleika.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum