Hoppa yfir valmynd

Frétt

10. mars 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Þátttaka í tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar

Fjórir vinnustaðir hafa verið valdir til að taka þátt í tilraunaverkefni ríkisins og BSRB um styttingu vinnuvikunnar. Markmiðið verkefnisins er að kanna hvort stytting vinnuviku leiði til gagnkvæms ávinnings starfsmanna og viðkomandi vinnustaða.

Mikill áhugi var fyrir þátttöku í verkefninu en niðurstaðan varð sú að þeir vinnustaðir sem hefja tilraunina að þessu sinni eru Lögreglustjórinn á Vestfjörðum, Ríkisskattstjóri, Útlendingastofnun og Þjóðskrá.

Tilraunaverkefnið mun standa í eitt ár, frá 1. apríl næstkomandi til 1. apríl 2018. Vinnustundum starfsmanna verður fækkað úr 40 á viku niður í 36 stundir án þess að til launaskerðingar komi. Rannsakað verður hver áhrif styttingar vinnutímans verða á gæði og hagkvæmni þjónustu sem vinnustaðirnir veita, auk áhrifa á vellíðan starfsmanna og starfsanda. Sambærilegar mælingar verða gerðar á vinnustöðum þar sem vinnuvikan verður óbreytt til að fá samanburð.

Verkefnið kemur í kjölfar viljayfirlýsingar ríkisstjórnarinnar 28. október 2015 í tengslum við gerð kjarasamninga ríkisins við aðildarfélög BSRB. Samkvæmt yfirlýsingunni skal sérstaklega skoðað hvernig megi útfæra styttingu vinnutíma hjá ólíkum tegundum stofnana, þar á meðal þar sem unnin er vaktavinna. Af þeim fjórum stofnunum sem nú hefja þátttöku í verkefninu er einn vaktavinnustaður.  Unnið verður að því að bæta öðrum vaktavinnustað inn í verkefnið til að niðurstöður þess endurspegli fjölbreytni starfa hjá ríkinu.

Starfshópur um tilraunaverkefnið er skipaður fulltrúum velferðarráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og BSRB. Hlutverk hópsins er m.a. að velja vinnustaði til þátttöku í tilraunaverkefninu og meta árangur þess.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum