Hoppa yfir valmynd

Frétt

16. mars 2017 Forsætisráðuneytið

Ræða félags- og jafnréttismálaráðherra á fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna

Félags- og jafnréttismálaráðherra á fundi kvennanefndar Sþ. - mynd

Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, flutti í gær ræðu Íslands í almennum umræðum á 61. fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna (CSW) í New York. Hann sagði að stefna þyrfti að því að ná kynjajafnrétti fyrir 2030 enda væri aukið kynjajafnrétti og valdefling kvenna forsenda þess að nýjum heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna yrði náð.

Ráðherra lagði í ræðu sinni áherslu á aðgerðir í þágu jafnréttis á vinnumarkaði og mikivægi þess að ríki heims næðu árangri í þeirri viðleitni að greiða jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf. Ríkisstjórnir hefðu í alþjóðasamþykktum skuldbundið sig til að uppræta launamun kynjanna. Hann benti á að stjórnunarstaðall um jöfn laun og jafnlaunavottun væru verkfæri til að ná árangri í þeim efnum. Að auki væri mikilvægt að afnema kerfisbundnar hindranir fyrir valdeflingu kvenna og þátttöku þeirra við stjórn atvinnulífsins. Á Íslandi hefði menntunarbylting og mikil atvinnuþátttaka kvenna verið undirstaða velferðar og efnahagslegrar hagsældar.

Í máli Þorsteins kom fram að virðing fyrir réttindum kvenna til kyn- og frjósemisheilbrigðs sé forsenda valdeflingar og þátttöku kvenna á vinnumarkaði og að íslensk stjórnvöld hafi á grundvelli þessa aukið fjárframlög til Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNFPA), í tengslum við She Decides átakið.

Hann lagði sérstaka áherslu á mikilvægi þátttöku karla í jafnréttisumræðunni og sagði það á ábyrgð allra að tryggja árangur og að koma í veg fyrir frekari bakslög í baráttunni. Raunhæft væri að ná fullu kynjajafnrrétti ef allir leggjast á árarnar til að ná því markmiði.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum