Hoppa yfir valmynd

Frétt

4. apríl 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Frumvarp um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna

Fjölmenning
Fjölmenning

Félags- og jafnréttismálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp að heildarlöggjöf um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna.  Með því er kveðið á um meginregluna um jafna meðferð á öllum sviðum samfélagsins utan vinnumarkaðar, en sérstakt frumvarp hefur einnig verið lagt fram á Alþingi þar að lútandi.

Kveðið er á um að öll mismunun vegna kynþáttar eða þjóðernisuppruna sé óheimil, hvort sem hún er bein eða óbein. Sama á við um áreitni tengist hún kynþætti eða þjóðernisuppruna.

Með skýru banni við allri mismunun óháð kynþætti og þjóðernisuppruna sem kveðið er á um í frumvarpinu, er horft til þess  að stuðla að virkri þátttöku sem flestra í íslensku samfélagi óháð kynþætti og þjóðernisuppruna og koma í veg fyrir félagslega einangrun einstaklinga af sömu ástæðum. Frumvarpinu er jafnframt ætlað að vera liður í að hindra að skoðanir á mismunandi verðleikum kynþátta festi hér rætur.

Frumvarpið nær til félagslegrar verndar, s.s. á sviði almannatrygginga og heilbrigðisþjónustu, félagslegra gæða, menntun og aðgangi að eða afhendingu á vöru og þjónustu.

Gert er ráð fyrir að yfirstjórn og stjórnsýsla mála samkvæmt frumvarpi þessu sé hin sama og gildir á sviði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Ráðherra jafnréttismála fari þannig með yfirstjórn mála sem frumvarpið tekur til og Jafnréttisstofa annist stjórnsýslu í tengslum við framkvæmd frumvarpsins, verði það að lögum. Auk þess er lagt til að unnt verði að leita atbeina kærunefndar jafnréttismála ef talið er að ákvæðin hafi verið brotin og er gert ráð fyrir að hlutaðeigandi ákvæði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla gildi í því sambandi eftir því sem við getur átt.

Með frumvarpinu er verið að veita einstaklingum sem telja sér mismunað á grundvelli kynþáttar og þjóðernisuppruna aukna réttarvernd en nýlegar rannsóknir og kannanir benda til að fólk af erlendum uppruna upplifi fordóma og mismunun í daglegu lífi hér á landi. Enn fremur er með frumvarpinu verið að veita í fyrsta skiptið hér á landi einstaklingum sem telja sér mismunað á grundvelli kynþáttar eða þjóðernisuppruna utan vinnumarkaðar heimild til að leita réttar síns til úrskurðarnefndar innan stjórnsýslunnar. Þannig er frumvarpinu ætlað að stuðla að auknu jafnrétti í samfélaginu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum