Hoppa yfir valmynd

Frétt

6. apríl 2017 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á opnum fundi Hafsins

 

Björt Ólafsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra flutti eftirfarandi ávarp á opnum fundi Hafsins um loftslagsmál, áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi, sem haldinn var 6. apríl 2017.

 

 

Ágætu fundargestir,

Mig langar að hefja mál mitt á að tala um hafið – stærsta vistkerfi jarðarinnar. Loftslagsbreytingar og mengun af mannavöldum hafa nú þegar haft neikvæð áhrif á  vistkerfi hafsins og ef við grípum ekki duglega í taumana mun ástandi hafsins hnigna hratt á komandi árum. Við þurfum að hægja á og helst koma í veg fyrir frekari yfirborðshlýnun og súrnun sjávar og uppræta plastmengun í hafi með öllum tiltækum ráðum.

Umhverfissamtök hérlendis og erlendis hafa unnið ötullega að aukinni verndun hafsins síðustu áratugina og vakið athygli á hversu illa við förum með hafið. Það þarf samt meira til og smáríki eins og Ísland sem byggir afkomu sína að miklu leyti á auðlindum hafsins getur hæglega verið í leiðandi hlutverki, heima fyrir og á alþjóðavettvangi, í að vernda hafið sjálft.

Ísland hafði jú forgöngu um verndun hafsins á ráðstefnunni í Ríó árið 1992. Í kjölfarið var samþykkt að gerður skyldi alþjóðlegur, lagalega bindandi samningur um losun þrávirkra, lífrænna eiturefna frá landstöðvum. Stokkhólmssamningurinn var samþykktur árið 2001 og varð að alþjóðalögum árið 2004. Stundum er vilji allt sem þarf.

Í því samhengi vil ég nefna að mitt ráðuneyti er að vinna í því að fjórði viðauki Marpol-samningsins verði fullgiltur af Alþingi á þessu ári.  Fullgilding hans mun styðja við loftslagsmarkmið okkar. Það veitir líklega ekki af því samkvæmt nýlegri skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um loftslagsmál megum við að óbreyttu vænta talsverðrar aukningar í losun gróðurhúsalofttegunda á komandi árum.

Góðir gestir,

Í skýrslunni segir líka að óbreyttu muni Ísland ekki ná að standa við skuldbindingar sínar gagnvart alþjóðlegum samningum. Hvorki innan Kýótó-bókunarinnar sem gildir til ársins 2020, né Parísarsamningsins til ársins 2030.

Við því þarf að bregðast af festu. Það eru innan við 3 ár til stefnu til að uppfylla skuldbindingar Kýótó-bókunarinnar og þó við sláum duglega í núna, er ekki víst að það dugi til, tíminn er svo skammur. Við munum engu að síður gera hvað við getum til þess að það gangi eftir.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að gera skuli aðgerðaáætlun í loftslagsmálum með mælanlegum markmiðum – um hvernig við sem þjóð ætlum að standa við skuldbindingar Íslands innan Parísarsamningsins til 2030. Það er mikið verk að gera slíka aðgerðaáætlun, sem þarf ekki síst að byggja á góðu samráði. Ég og mitt ráðuneyti ætlum okkur því að taka næstu mánuðina í að vinna hana í nánu samstarfi við hlutaðeigandi ráðuneyti, Alþingi, sveitarfélög, fyrirtæki og almenning í landinu.

Hvar kemur Hafið inn í þá vinnu? Ég hef mikla trú á þessum vettvangi og tel að Hafið geti að mörgu leyti verið fyrirmynd að samstarfi ólíkra aðila. Við að móta sýn í loftslagsmálum, finna lausnir og vinna markvisst að því að hrinda þeim í framkvæmd. Ég er ekki viss um að besta lausnin í loftslagsmálum séu boð og bönn. Vissulega eru þau hluti af lausnunum en ég held að margir hafi hag af árangri í loftslagsmálum. Við náum líka oft ekki síðri og jafnvel betri langtímaárangri með samvinnu og lausnamiðuðu samtali.

Eitt stærsta málið í starfi Hafsins er gerð vegvísis um minni losun frá sjávarútvegi. Vinna af slíku tagi skiptir miklu máli í loftslagsmálum og ekki síður að hún sé unnin með vitund og aðkomu margra. Stjórnvöld setja almennan ramma og lög og reglur um loftslagsmál í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar. Þekkingin á þeim margvíslegu tæknilausnum sem þarf að virkja til árangurs liggur þó ekki þar. Með aðkomu atvinnulífs og háskólasamfélags er hins vegar hægt að kortleggja raunhæfar lausnir á leið til grænni framtíðar.

Ágætt dæmi um árangur í loftslagsmálum að frumkvæði atvinnulífsins er rafvæðing fiskimjölsverksmiðja. Þar hafði greinin sjálf frumkvæði að því að skipta úr olíu í rafmagn. Allir munu vera sammála um ágæti þess, auk loftslagsávinningsins minnkar loftmengun og starfsskilyrði batna við rafvæðingu. Það hafa hins vegar verið blikur á lofti vegna hækkaðs raforkuverðs. Ég fagna þess vegna nýgerðri viljayfirlýsingu Landsvirkjunar og Félags íslenskra fiskimjölsframleiðenda um að auka hlut endurnýjanlegrar orku við fiskimjölsframleiðslu.

Framtak af því tagi er afar vel séð. Sumir virðast telja að loftslagsmálin gefi stjórnlyndum ráðamönnum kærkomið tilefni til íhlutunar á sem flestum sviðum þjóðlífsins. Ég sé málin ekki þannig. Ég tel loftslagsmálin vera stórt samfélagslegt verkefni sem varðar framtíð jarðar og afkomenda okkar. Ég fagna hverjum sem kemur að lausnum þar og vona að verkefni stjórnvalda verði sem minnst.

En stjórnvöld bera vissulega hina endanlegu ábyrgð – bæði gagnvart alþjóðasamningum og þjóðinni – og við þurfum að hafa yfirsýn yfir verkefnið og grípa til aðgerða eins og þarf. En margar hendur vinna létt verk – og það verður því léttara sem skilningurinn er ríkari og viljinn meiri.

Hvað fiskveiðar varðar, þá hefur dregið úr losun þar á undanförnum árum. Það er ánægjuleg þróun. Ég tel þó víst að þar eigum við frekari tækifæri. Skýrsla Hagfræðistofnunar styður það. Á heimsvísu horfa mun færri til skipa en bifreiða þegar kemur að losun og tækniþróun er þar hægari. Það er jú auðveldara að kaupa rafmagnsbíl en rafmagnstogara.

Þó eru ýmsir að huga að lausnum og gera skip og fiskveiðar loftslagsvænni. Nokkur íslensk fyrirtæki hafa unnið að grænum lausnum í hafgeiranum. Það væri ánægjulegt að sjá þá þróun halda áfram. Það fellur vel að stefnu stjórnvalda um að efla stuðning við nýsköpun. Ég held að það geti líka verið sóknarfæri fyrir íslenskar útgerðir að sækja í þessa átt. Við gerum út á hreinleika íslensks sjávarfangs og það er ekki verra að geta lækkað kolefnisfótspor þess.

Góðir gestir,

Ég ítreka ánægju mína með samstarfsvettvanginn Hafið. Ég vil stuðla að aukinni verndun hafsins sjálfs og auðlinda þess. Ég vil takmarka alla mengun sem rýrir gæði auðlindarinnar. Ég vil efla starf í loftslagsmálum og virkja sem flesta. Ég vil sækja í ykkar þekkingu og áskil mér rétt að leita hér ráða. Ég óska ykkur velfarnaðar – framtíðin er ekki bara björt heldur líka græn og það er gott að eiga öfluga liðsmenn í að skapa hana.

Takk fyrir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum