Hoppa yfir valmynd

Frétt

11. apríl 2017 Heilbrigðisráðuneytið

Reglugerð um tilvísanir fyrir börn

Í læknisskoðun
Í læknisskoðun

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra hefur undirritað reglugerð um tilvísanir fyrir börn. Tilvísunum er ætlað að draga úr heilbrigðisútgjöldum barnafjölskyldna, sjá til þess að heilbrigðisþjónusta sé veitt á viðeigandi þjónustustigi og vera liður í því að efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað fólks í heilbrigðiskerfinu.

Reglugerðin tekur gildi um leið og nýtt greiðsluþátttökukerfi fyrir heilbrigðisþjónustu, 1. maí nk. og er innleiðing tilvísananna liður í því.

Miðað er við að heilsugæslulæknar eða heimilislæknar sem starfa samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar Íslands, gefi út tilvísun telji þeir að barn sem kemur til þeirra þurfi á sérhæfðri þjónustu að halda á dag- eða göngudeildum sjúkrahúsa eða hjá sjálfstætt starfandi sérfræðingi.

Endurgjaldslaus þjónusta fyrir börn með tilvísun

Barn með tilvísun þarf ekkert að greiða fyrir þjónustuna. Þetta á jafnt við um þjónustu sérgreinalækna á göngu- og dagdeildum sjúkrahúsa og þjónustu sjálfstætt starfandi sérgreinalækna sem starfa samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar Íslands. Barn með tilvísun þarf heldur ekki að greiða fyrir rannsóknir, geisla- og myndgreiningar sem viðkomandi sérgreinalæknir telur þörf á í tengslum við greiningu þess og meðferð.

Barn með tilvísun fyrir þjálfun, þ.e. sjúkra-, iðju-, eða talþjálfun þarf ekki að greiða fyrir þjónustu þessara aðila ef þeir starfa samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar Íslands.

Komur barna yngri en tveggja ára til sérfræðinga eru án endurgjalds óháð tilvísun.

Tilvísanir geta gilt til langs tíma

Læknir sem gefur út tilvísun ákveður gildistíma hennar í samræmi faglegt mat á heilsufari barnsins. Gildistími tilvísunar getur verið allt að eitt ár og ef um er að ræða börn með langvinna sjúkdóma eða fötlun allt að tíu ár.

Ekki er skylt að vera með tilvísun þegar leitað er með barn til sérfræðings. Án tilvísunar þarf hins vegar að greiða fyrir þjónustuna samkvæmt gjaldskrá, þ.e. fyrir börn á aldrinum 2.ja til 18 ára. Greiðslan verður  þó aldrei hærri en 16.400 kr. á mánuði. Börn yngri en 2.ja ára, börn með umönnunarmat og ungt fólk á aldrinum 18 – 20  ára með umönnunarmat greiða hins vegar ekkert fyrir þjónustuna, óháð tilvísun.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum