Hoppa yfir valmynd

Frétt

2. maí 2017 Heilbrigðisráðuneytið

Nýtt greiðsluþátttökukerfi heilbrigðisþjónustu tók gildi 1. maí

Tekið hefur gildi nýtt greiðsluþátttökukerfi fyrir heilbrigðisþjónustu. Markmið þess er að auka jafnræði, verja þá sem mesta heilbrigðisþjónustu þurfa fyrir háum útgjöldum, draga úr útgjöldum barnafjölskyldna og styrkja hlutverk heilsugæslunnar.

Með nýja kerfinu hefur þak verið sett á greiðslur sjúklinga fyrir heilbrigðisþjónustu. Lífeyrisþegar, þ.e. aldraðir og öryrkjar, greiða minna en almennir notendur. Sérstakar reglur gilda um börn og barnafjölskyldur.  Lífeyrisþegi greiðir að hámarki tæplega 46.500 kr. á ári og aldrei meira en 16.400 kr. í sama mánuði. Hámarksgreiðsla almenns notenda er 69.700 kr. á ári og aldrei meira en 24.600 í sama mánuði. Þessar fjárhæðir geta þó verið lægri vegna greiðslna fyrir heilbrigðisþjónustu á síðustu mánuðum.

Heilbrigðisþjónusta sem fellur undir kerfið er þjónusta heilsugæslu, sjúkrahúsa og sjálfstætt starfandi lækna, sjúkraþjálfara, iðjuþjálfa og talmeinafræðinga samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar Íslands. Undir kerfið heyra líka rannsóknir,  geisla- og myndgreiningar og meðferð húðsjúkdóma sem er veitt af öðrum en læknum.

Almenn komugjöld í heilsugæslu verða áfram 1200 kr. Komugjöld aldraðra og öryrkja verða 600 kr. og gildir það einnig um fólk 67 – 69 ára sem áður greiddi meira. Börn greiða ekkert komugjald í heilsugæslu og fái þau tilvísun á þjónustu sérfræðings samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar Íslands er hún einnig án endurgjalds.  Öll heilbrigðisþjónusta barna yngri en 2ja ára er endurgjaldslaus, óháð tilvísun.

Ef barn 2-18 ára fer til sérfræðings án tilvísunar er hámarksgreiðsla á ári tæpar 46.500 kr. og verður mest 16.400 kr. í sama mánuði. Þessi þök  gilda jafnframt fyrir samanlagðar greiðslur barna í sömu fjölskyldu.

Á vef Sjúkratrygginga Íslands, sjukra.is, eru birtar ýtarlegar upplýsingar um kerfið ásamt stuttum kynningarmyndböndum um efni þess.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum