Hoppa yfir valmynd

Frétt

1. júní 2017 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Samráðsvettvangur vegna aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum kemur saman

Frá fundi samráðsvettvangsins í dag - mynd
Samráðsvettvangur vegna aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum kom saman til síns fyrsta fundar í Ráðherrabústaðnum í dag með Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra og Björt Ólafsdóttur umhverfis- og auðlindaráðherra.

Samráðsvettvangnum er ætlað að vera verkefnisstjórn og faghópum sem vinna að aðgerðaáætluninni til ráðgjafar meðan á vinnunni stendur, en hann skipa fulltrúar hagsmunahópa, sveitarfélaga og Alþingis. Í honum eiga sæti fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands, Bændasamtökum Íslands, Festu – miðstöð um samfélagsábyrgð, Framsóknarflokknum, Landvernd, Náttúruverndarsamtökum Íslands, Neytendasamtökunum, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Pírötum, Samáli, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samfylkingunni, Samorku, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtökum iðnaðarins, Samtökum verslunar og þjónustu, Vinstri Grænum og Vísinda- og tækniráði.

Gert er ráð fyrir að samráðsvettvangurinn hittist mánaðarlega með verkefnisstjórn og faghópsstjórum þar til aðgerðaáætlun í loftslagsmálum liggur fyrir í lok árs og mun hann hafa heildaryfirsýn yfir vinnu og framgang verkefnisins. Þá getur samráðsvettvangurinn komið með tillögur að aðgerðum í loftslagsmálum eða útfærslum á þeim. Markmiðið er að tryggja opið ferli og aðkomu stjórnmálaflokka, sveitarfélaga og helstu hagsmunahópa að gerð aðgerðaáætlunar um loftslagsmál.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum