Hoppa yfir valmynd

Frétt

15. júní 2017 Heilbrigðisráðuneytið

Heilbrigðisráðherra ávarpaði þing norrænna heimilislækna

Harpa - myndVelferðarráðuneytið

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra ræddi um heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað fólks í heilbrigðiskerfinu og eflingu hennar til að sinna því hlutverki sem best á 20. þingi norrænna heimilislækna í Hörpu í gær. Þetta er stærsta læknaráðstefnan sem haldin hefur verið hér á landi.

Norrænir heimilislæknar halda þing sitt annað hvert ár og skiptast Norðurlandaþjóðirnar á að halda það. Íslenskir heimilislæknar stóður fyrir skipulagningu þingsins að þessu sinni og skráðu um 1.450 læknar sig til þátttöku frá 27 þjóðlöndum sem er metþátttaka. Þingið er haldið dagana 14. – 16. júní.

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra flutti ávarp við upphaf þingsins í gær og gerði þar að umtalsefni vaxandi áherslu undanfarin ár á mikilvægi þverfaglegrar teymisvinnu í heilsugæslu. Það hafi sýnt sig að slík teymisvinna sé árangursríkust, hagkvæmust fyrir samfélagið, þjóni best þörfum sjúklinga, stuðli að samfelldari þjónustu við þá og auki jafnframt starfsánægju þeirra sem þjónustuna veita.

Ráðherra ræddi þær áherslur sem hérlend stjórnvöld hefðu að leiðarljósi við uppbyggingu og eflingu heilsugæslunnar með fjölgun sálfræðinga, sjúkraþjálfara, næringarfræðinga og fleiri fagstétta. Hann nefndi einnig nýtt fyrirkomulag fjármögnunar heilsugæslunnar sem þegar hefur verið innleitt í heilsugæslurekstri á höfuðborgarsvæðinu þar sem markmiðið er að skapa fjárhagslega hvata sem stuðla að betri þjónustu, hagkvæmari rekstri og efli heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað í heilbrigðiskerfinu.

Óttarr talaði einnig um þörfina fyrir að fjölga heimilislæknum sem væri fyrir hendi, jafnt hér á landi sem í nágrannalöndunum. Hér hefði verið lögð aukin áhersla á að fjölga sérnámsstöðum í heimilislækningum sem hefði þegar skilað nokkrum árangri. Hann ræddi um norrænt samstarf í þessu samhengi og hve það væri meðal annars mikilvægt þegar kæmi að menntun og þjálfun heimilislækna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum