Hoppa yfir valmynd

Frétt

21. júlí 2017 Innviðaráðuneytið

Drög að reglugerð um réttindi áhafna á vinnuskipum fyrir sjókvíaeldi til umsagnar

Drög að reglugerð um áhafnir vinnuskipa sjókvíaeldisstöðva eru nú til umsagnar hjá ráðuneytinu. Unnt er að senda umsagnir um reglugerðardrögin til og með 4. ágúst og skulu þær sendar á netfangið [email protected].

Reglugerðardrögin eru samin í framhaldi af breytingum sem umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis lagði til á lögum um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa, með síðari breytingum, nr. 30/2007. Fólust þær meðal annars í breytingu á kröfum sem gerðar eru til mönnunar vinnuskipa sjókvíaeldisstöðva. Eftir breytinguna hljóða 3. mgr. 19. greinar laganna þannig (skáletrun og yfirstrikun sýnir breytingar eftir gildistöku laganna)

Þrátt fyrir ákvæði laga þessara skal ráðherra setja með reglugerð nánari ákvæði um lágmarksréttindi til skipstjórnar og vélgæslu á björgunarskipum og vinnuskipum sjókvíaeldisstöðva sem gegna sérhæfðu hlutverki. Björgunarskip Skip samkvæmt þessari málsgrein skulu mönnuð skipstjórnarmönnum sem hafi að lágmarki 30 brúttórúmlesta réttindi eða önnur sambærileg réttindi og sem hlotið hafa þjálfun á sérstökum námskeiðum Slysavarnafélagsins Landsbjargar og Slysavarnaskóla sjómanna. Ráðherra skal mæla fyrir um farsvið vinnuskipa sjókvíaeldisstöðva í reglugerðinni. (Skáletrun og yfirstrikun sýnir breytingar eftir gildistöku laganna):

Í greinargerðinni með frumvarpi nefndarinnar segir:

Undanfarin ár hafa stærri hafnir keypt öflugri lóðs- og dráttarskip en áður voru notuð í flestum höfnum landsins. Sú breyting hefur haft í för með sér að vélar skipanna eru mun stærri en áður þekktist. Engin sérákvæði eru í áhafnalögum um mönnun slíkra skipa þannig að gerðar eru sömu kröfur til þessara skipa og fiskiskipa. Með góðum rökum má halda því fram að lóðs- og dráttarskip séu vinnuskip frekar en farskip. Farsvið er jafnan lítið, fartími er stuttur og hlutverk einhæft.

Áhafnalög gera ráð fyrir að ef um tvær aðalvélar er að ræða í skipi, eins og er í mörgum tilfellum lóðs- og dráttarskipa, sökum eðlis þeirra, þá er vélarafl þeirra lagt saman. Að hafa tvær vélar með tveimur skrúfum er æskilegt fyrir stjórnhæfi þessara skipa og er til mikilla bóta við vinnu þeirra, eykur verulega öryggi enda skiptir stjórnhæfi og snerpa öllu máli í vinnu lóðs- og dráttarskipa. Þá segir að um sé að ræða skip sem sinna afmörkuðum verkefnum um stuttar vegalengdir á takmörkuðu farsviði. Í starfi skipstjóra á slíkum vinnuskipum felst að sigla til og frá kvíum, viðhald myndavélabúnaðar, viðhald fóðurlagna, eftirlit með festingum og að sinna almennum öryggismálum stöðvanna og starfsmanna þeirra. Fyrirtækjunum hefur reynst erfitt að manna vinnuskip eins og um úthafsskip væri að ræða.

Fram kemur í reglugerðardrögunum að málsmeðferð er hliðstæð og gildandi reglugerð um björgunarskip, þ.e. að sækja þarf um heimild Samgöngustofu um mönnun vinnuskipa og skal Samgöngustofa skrá upplýsingar um skipin í lögskráningarkerfi.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum