Hoppa yfir valmynd

Frétt

19. september 2017 Forsætisráðuneytið

703/2017. Úrskurður frá 11. september 2017

Úrskurður

Hinn 11. september 2017 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 703/2017 í máli ÚNU 17020011.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 4. apríl 2017, kærði A synjun Þjóðskjalasafns Íslands á beiðni um afrit af þremur lögregluskýrslum um föður kæranda. Í kæru rökstyður kærandi að hann hafi hagsmuni af því að fá skýrslurnar afhentar. Kærandi telur mikilvægt að fá að kynna sér efni þeirra til þess að átta sig betur á atburðum sem hafi haft mikil áhrif á fjölskyldulíf hans. Í kæru kemur fram að kærandi telji föður sinn hafa framið kynferðisbrot gagnvart systrum sínum. Kærandi telji líklegt að nöfn systra hans komi fram í skýrslunum. Markmið kæranda með því að fá aðgang að upplýsingum í lögregluskýrslum sé að fá staðfestingu á því sem hafi gerst en það sé hluti af bataferli kæranda sem hafi upplifað erfiða æsku. Tekið er fram að kærandi sé ekki að óska eftir aðgangi að upplýsingum um önnur nöfn sem fram komi í skýrslunni.

Málsmeðferð

Vegna mistaka við skráningu í málaskrá var kæran fyrst kynnt Þjóðskjalasafni með bréfi úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 7. júní 2017, og safninu veittur kostur á að koma á framfæri umsögn og afritum af gögnum sem kæran lýtur að.

Í umsögn Þjóðskjalasafns Íslands, dags. 28. júní 2017, kemur fram að þrjár lögregluskýrslur hafi fundist frá árunum 1965-1973 vegna föður kæranda. Þjóðskjalasafnið hafi afgreitt gagnabeiðni kæranda á grundvelli V. kafla laga um opinber skjalasöfn nr. 77/2014 um aðgang almennings að skjölum opinberra skjalasafna. Að mati Þjóðskjalasafns hafi ekki komið til álita að afgreiða beiðnina á grundvelli VI. kafla laganna um aðgang hins skráða að skjölunum. Ástæðan sé einkum sú að gögnin fjalli ekki með beinum hætti um kæranda, auk þess sem ekki hafi verið talið að kærandi hefði einstaklega hagsmuni af því umfram aðra að fá aðgang að gögnunum, sbr. sjónarmið í úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 658/2016.

Tekið er fram að eðli málsins samkvæmt hafi gögnin að geyma viðkvæmar persónuupplýsingar, sbr. t.d. b.-lið 8. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Í skýrslunum sé að finna upplýsingar um föður kæranda og aðra einstaklinga. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/2014 sé Þjóðskjalasafninu óheimilt að veita almenningi aðgang að gögnum um einkamálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari fyrr en 80 ár eru liðin frá því að gögnin urðu til. Undir það falli t.d. viðkvæmar persónuupplýsingar samkvæmt lögum nr. 77/2000 en einnig upplýsingar um vernd vitna, brotaþola og annarra sem fjallað sé um í skjölum hjá lögreglu. Að virtum þeim upplýsingum sem lögregluskýrslunar geymi  hafi Þjóðskjalasafn Íslands komist að þeirri niðurstöðu að óheimilt væri að veita kæranda aðgang að þeim, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/2014. Þá kæmi ekki til álita að veita aðgang að hluta þeirra á grundvelli 2. mgr. 25. gr. laganna.

Kæranda var kynnt umsögn Þjóðskjalasafns Íslands með bréfi, dags. 3. júlí 2017, og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Engar athugasemdir bárust. 

Niðurstaða

Í málinu reynir á lögmæti synjunar Þjóðskjalasafns Íslands á beiðni um aðgang að þremur lögregluskýrslum sem varða föður kæranda. Skýrslurnar eru frá árunum 1965-1973 og því fer um aðgang að þeim samkvæmt ákvæðum laga nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn með vísan til 4. mgr. 4. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.

Beiðni kæranda var afgreidd á grundvelli V. kafla laga um opinber skjalasöfn þar sem kveðið er á um upplýsingarétt almennings varðandi skjöl opinberra skjalasafna. Í VI. kafla laganna er hins vegar mælt fyrir um rétt aðila til aðgangs að skjölum um hann sjálfan. Sambærilegt ákvæði um rétt aðila til aðgangs að gögnum um sig sjálfan er að finna í 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Í framkvæmd hefur ákvæðið verið skýrt þannig að undir greinina falli ekki einvörðungu þau tilvik þegar maður óskar eftir aðgangi að gögnum um sig sjálfan, heldur taki hún einnig til þess þegar upplýsingar varða hann sjálfan þannig að hann hafi einstaklega hagsmuni af því umfram aðra að fá aðgang að gögnunum.

Það kann að varða einstaklinga nokkru að fá upplýsingar um foreldra sína. Almennt verður þó ekki talið að einstaklingar hafi af því lögvarða hagsmuni umfram aðra að fá aðgang að slíkum upplýsingum, þótt undantekningar kunni vissulega að vera þar á, s.s. vegna erfðaréttar eða annarra sérgreindra og fyrirliggjandi atvika, sbr. t.d. úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. A-283/2008, A-294/2009 og 648/2016. Þarf því að meta hvort sá sem beiðist gagna sem ekki varða hann sjálfan með beinum hætti hafi engu að síður lögvarða hagsmuni af því að um upplýsingarétt hans fari eftir 14. gr. upplýsingalaga og 30. gr. laga nr. 77/2014. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur kynnt sér efni skýrslanna og röksemdir kæranda fyrir aðgang að þeim, í því skyni að meta hvort Þjóðskjalasafn Íslands hafi afgreitt beiðni kæranda á réttum lagagrundvelli. Í lögregluskýrslunum er hvergi vikið að kæranda eða atburðum sem varða hann eða því sem hann tilgreinir sem ástæðu gagnabeiðni sinnar. Þá er það mat nefndarinnar að þær röksemdir sem kærandi hefur sett fram í málinu leiði ekki til þess að hann verði talinn hafa einstaka hagsmuni umfram aðra að fá aðgang að skýrslunum. Var því Þjóðskjalasafni Íslands rétt að leysa úr beiðni kæranda á grundvelli V. kafla laga nr. 77/2014 um upplýsingarétt almennings.

Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga nr. 77/2014 er opinberu skjalasafni skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að skjölum þegar liðin eru 30 ár frá því að þau urðu til enda gildi ekki þær takmarkanir um skjalið sem fram koma í lögunum. Slíka takmörkun er að finna í 1. mgr. 26. gr. þar sem fram kemur að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um fjárhags- og einkamálefni einstaklinga sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari nema sá samþykki sem í hlut á. Sú vernd sem einstaklingar njóta til friðhelgis einkalífs nær einnig til þeirra sem látnir eru, sbr. t.d. úrskurð úrskurðarnefndarinnar nr. 648/2016. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur ljóst að þær upplýsingar sem fram koma í skýrslunni lúti að viðkvæmum einkamálefnum bæði föður kæranda og annarra, sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari. Er það mat nefndarinnar að Þjóðskjalasafninu hafi verið rétt að synja kæranda um aðgang að skýrslunum í heild sinni með vísan til 1. mgr. 26. gr. laganna.

Úrskurðarorð:

Staðfest er synjun Þjóðskjalasafns Íslands, dags. 20. mars 2017, á beiðni kæranda um aðgang að þremur lögregluskýrslum vegna föður hans.

Kjartan Bjarni Björgvinsson

varaformaður

 

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                     Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum