Hoppa yfir valmynd

Frétt

22. september 2017 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra ávarpar allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna

Guðlaugur Þór ávarpar allsherjarþingið - myndUN Photo/Cia Pak

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra ávarpaði í dag allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í New York. Í ræðu sinni gagnrýndi Guðlaugur Þór meðal annars eldflauga- og kjarnavopnatilraunir Norður-Kóreustjórnar og efnavopnaárásir Sýrlandsstjórnar og lýsti áhyggjum af aðstæðum Rohingya í Myanmar. Þá lagði utanríkisráðherra áherslu á virðingu fyrir mannréttindum og valdeflingu kvenna á öllum sviðum samfélagsins. Sagði ráðherra mannréttindi samofin sjálfbærri þróun og undirstöðu friðar og því nauðsynlegt að gefa öllu fólki tækifæri á að lifa mannsæmandi lífi. Minnti ráðherra á framkvæmd Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna í því tilliti.

Utanríkisráðherra gerði einnig áhrif loftslagsbreytinga að umtalsefni og áréttaði skuldbindingar Íslands um að standa við Parísarsamninginn. Sagði ráðherra loftslagsbreytingar mjög sýnilegar á norðurslóðum en minnti á að áhrifin næðu til alls heimsins. Utanríkisráðherra sagði jafnframt að helstu áskoranir okkar tíma væru til komnar af mannavöldum og því væru vandaðir stjórnunarhættir og frjáls viðskipti forsenda framfara. Benti ráðherra á gildi fríverslunar í baráttunni gegn fátækt, og sögu Íslands í því samhengi. "Á hverju ári komum við saman hér í höfuðborg frjálsrar verslunar og ræðum mikilvægi þess að binda endi á fátækt í veröldinni. Við getum endalaust rætt og lofað, en getum við fylgt orðum með gjörðum?", spurði Guðlaugur Þór í ræðu sinni og minnti jafnframt á bágbornar aðstæður flóttafólks.

Utanríkisráðherrar Norðurlandanna funduðu jafnframt fyrr í dag þar sem helstu viðfangsefni alþjóðastjórnmála voru til umræðu, þ.m.t. málefni Norður-Kóreu og Miðausturlanda. Einnig funduðu utanríkisráðherrar Norðurlandanna með utanríkisráðherrum Mið-Ameríkuríkja þar sem Heimsmarkmiðin og loftslagsmál, m.a. með hliðsjón af ofsaveðrum í þessum heimshluta, voru meðal umfjöllunarefna.

Utanríkisráðherra átti tvíhliða fund með starfsbróður sínum frá Singapúr þar sem viðskipti, samgöngur og norðurslóðamál voru á dagskrá. Ráðherra hitti einnig utanríkisráðherra Georgíu og undirrituðu þeir endurviðtökusamning milli ríkjanna, sem auðveldar samstarf vegna hælisleitenda sem þaðan koma. Þá hitti ráðherra fulltrúa UN Women til að ræða áframhaldandi leiðtogahlutverk Íslands í jafnréttismálum og frekari samvinnu, m.a. í gegnum HeForShe-verkefnið.

"Þær áskoranir sem alþjóðasamfélagið stendur frammi fyrir krefjast alþjóðlegrar samvinnu. Það á jafnt við um aðgerðir gegn loftlagsbreytingum og hryðjuverkum og baráttuna fyrir mannréttindum og gegn fátækt. Það hefur því aldrei verið mikilvægara að standa vörð um Sameinuðu þjóðirnar og gildi þeirra, og þar hefur Ísland ávallt hlutverki að gegna", segir Guðlaugur Þór Þórðarson.

Ræða ráðherra

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum