Hoppa yfir valmynd

Frétt

5. október 2017 Innviðaráðuneytið

Flutti erindi á fjármálaráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga

Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, flutti í dag erindi á fjármálaráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga. - mynd

Fjármálaráðstefna Sambands íslenskra sveitarfélaga stendur í dag og á morgun í Reykjavík þar sem fjallað er meðal annars um afkomu sveitarfélaga, stöðu og framtíð sveitarfélaga, sameiningar og fleira. Fjallað er um þessi efni í erindm og málstofum.

Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, flutti ræðu á ráðstefnunni og hóf mál sitt á að minnast á fyrirtöku sveitarstjórnarvettvangs Evrópuráðsins í Strasborg snemma á árinu. Sagði hann Ísland hafa fengið góða einkunn, meðal annars fyrir nýmæli í sveitarstjórnarlögum sem tryggðu meiri formfestu í samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Ráðherra sagðist hafa á liðnum mánuðum heimsótt um 40 sveitarfélög um land allt og sagði gleðilegt að hafa fundið fyrir krafti og bjartsýni en ljóst væri einnig að áskoranir væru margar. Tækniþróun gerði það að verkum að sums staðar fækkaði störfum og ekki mætti treysta um of á einhæft atvinnulíf.

Þá ræddi ráðherra um stöðu og framtíð sveitarfélaga og tillögur sem nefnd sem innanríkisráðherra hefði skipað 2015 til að vinna þær. Hann sagði þar kallað eftir stefnumörkun stjórnvalda varðandi sveitarfélög og að stjórnvöld taki markvissari þátt í að styrkja sveitarstjórnarstigið og fjárfesta í því, svo og að starfsemi Jöfnunarsjóðs yrði tekin til gagngerrar endurskoðunar. Sagði hann þessar tillögur nýtast vel í áframhaldandi vinnu.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra ræddi einnig um uppbyggingu innviða samfélagsins og sagði að framfarir létu á sér standa ef þeir væru ekki í lagi. Nefndi hann einkum fjarskiptamál, samgöngumál og raforkumál. Ráðherra sagði varðandi samgöngumál að fyrir lægju tillögur starfshóps um sérstaka fjármögnun framkvæmda við stofnleiðir út frá Reykjavík og voru kynntar á samgönguþingi á dögunum. Sagði hann mikinn ávinning af því að hraða uppbyggingu á þessum leiðum sem yrði ekki gerleg nema með sérstakri fjármögnun en slík fjármögnun kemur þó ekki í staðinn fyrir hefðbundna fjármögnun ríkissjóðs til vegaframkvæmda.

Að lokinni ræðu ráðherra var fjallað um stöðu og framtíð íslenskra sveitarfélaga og greindi Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir frá tillögum starfshóps sem hún fór fyrir. Einnig var fjallað um sameiningar sveitarfélaga og breytingar á reglum um framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. 

  • Fjölmenni situr nú fjármálaráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga í Reykjavík. - mynd
  • Frá fjármálaráðstefnunni. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum