Hoppa yfir valmynd

Frétt

24. október 2017 Heilbrigðisráðuneytið

Rekstur sjúkrahótels á lóð Landspítala

Sjúkrahótel - útlitsmynd - myndNýr Landspítali

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að fela Landspítala ábyrgð á rekstri nýs 70 rýma sjúkrahótels á lóð spítalans við Hringbraut.

Ábyrgð Landspítalans á rekstri sjúkrahótels grundvallast á 20. gr. laga um heilbrigðisþjónustu sem heimilar að kveða megi nánar á um þjónustu spítalans með sérstakri reglugerð.

Gert er ráð fyrir að Landspítali bjóði út rekstur sjúkrahótelsins í samvinnu við Ríkiskaup samkvæmt lögum um opinber innkaup. Er það til að tryggja að rekstraraðili verði með reynslu af hótel- og veitingarekstri.

Helstu markmiðin sem stefnt er að með rekstri sjúkrahótels eru að útvega gistingu fyrir fólk af landsbyggðinni sem þarf á heilbrigðisþjónustu að halda sem ekki er veitt í heimabyggð þeirra, styðja við bataferli sjúklinga í kjölfar meðferðar og enn fremur að bjóða aðstandendum sjúklinga gistingu eftir því sem þörf krefur.

Fyrst og fremst hótelþjónusta

Miðað er við að þeir sem dvelja á sjúkrahótelinu séu sjálfbjarga við athafnir daglegs lífs. Starfsemin mun því fyrst og fremst felast í hótelþjónustu. Dvalargestir eru því innritaðir á hótelinu en ekki á sjúkrahúsi, en nálægð við Landspítala tryggir öryggi dvalargesta. Gestir munu greiða fyrir dvölina samkvæmt gildandi reglum.

Þar sem Landspítalinn hefur ekki reynslu af hótelrekstri er gengið út frá því að spítalinn útvisti rekstrinum til aðila sem hafa reynslu eða þekkingu á þessu sviði. Þetta er til að tryggja að starfsemin hafi ásýnd hótels fremur yfirbragð sjúkrastofnunar.

Markmiðið með því að fela Landspítala ábyrgð á rekstrinum er að stuðla að samfelldri þjónustu við sjúklinga í framhaldi af meðferð á Landspítalanum en reiknað er með að stærstur hluti hótelgesta sæki þjónustu hjá Landspítala eða hafi dvalið þar. Frekari skilgreiningar á kröfum til starfseminnar verða gerðar í samstarfi Landspítala og velferðarráðuneytisins.

Sjúkrahótelið verður opið öðrum gestum, samkvæmt skilyrðum þar um, ef fyrirséð er að herbergi muni standa auð að öðrum kosti og það skerði í engu aðgengi gesta sem þurfa á sjúkrahóteldvöl að halda. Almennir gestir munu greiða fullt gjald fyrir dvölina.

Möguleiki er fyrir Landspítala eða aðra aðila að semja við sjúkrahótelið um dvöl fyrir einstaklinga á þeirra vegum sem þarfnast heilbrigðisþjónustu umfram þá sem sjúkrahótelinu er ætlað að veita. Í slíkum tilvikum ber viðkomandi aðili ábyrgð á að tryggja einstaklingnum sem um ræðir þá heilbrigðisþjónustu sem hann þarfnast og standa straum af kostnaði vegna hennar.

Starfsemin og þjónustan verði þróuð á grundvelli reynslu
Miðað er við að starfsemi og þjónusta sjúkrahótelsins verði þróuð eftir því sem þekking á rekstrinum og þörfum notenda eykst með fenginni reynslu. Því verða samningur, þjónustukröfur, fjárframlög og aðrar forsendur endurskoðaðar reglulega. Til að fylgja þróun starfseminnar, meta þjónustu og nýtingu og styðja Landspítala sem verkkaupa mun velferðarráðuneytið skipa ráðgjafahóp sem starfa mun meðan starfsemin er í mótun.

Áætlað er að stafsemi sjúkrahótelsins geti hafist á fyrri hluta næsta árs.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum