Hoppa yfir valmynd

Frétt

25. október 2017 Utanríkisráðuneytið

Ísland framarlega í fríverslun

Viðskiptastefna Íslands hefur, hvað varðar álagningu tolla og vörugjalda, þróast mjög í frjálsræðisátt á síðustu árum, eins og fram kemur í stöðuskýrslu utanríkisráðuneytisins um fríverslun. Þá kemur einnig fram að mikilvægt sé að styrkja þátttöku Íslands í fríverslunarviðræðum EFTA.

ESB er tollabandalag, aðildarríkin hafa sameiginlega viðskiptastefnu og ekki er mögulegt fyrir einstök ríki sambandsins að gera fríverslunarsamninga. EFTA eru á hinn bóginn fríverslunarsamtök og þar sem hvert EFTA-ríki hefur eigin tollskrá og sjálfstæða viðskiptastefnu er ekkert því til fyrirstöðu að einstök ríki samtakanna geri tvíhliða fríverslunarsamninga við þriðju ríki.

Viðskiptastefna Íslands hefur, hvað varðar álagningu tolla og vörugjalda, þróast mjög í frjálsræðisátt á síðustu árum. Þannig voru almennir tollar felldir niður af fatnaði og skóm í ársbyrjun 2016 og af hvers kyns annarri iðnaðarvöru í byrjun þessa árs. Í dag er hlutfall þeirra tollskrárnúmera sem ekki bera neinn toll rétt tæplega 90% allra tollskrárnúmera, samanborið við um 26% tollskárnúmera í ESB ríkjum. Ísland hefur einnig vinninginn á hin EFTA-ríkin hvað þetta varðar.

Í aðildarviðræðum Íslands og ESB á árunum 2009-2013 var m.a. lagt mat á það hvaða áhrif aðild Íslands að tollabandalagi ESB mundi hafa. Þar kom fram að slík aðild hefði haft í för með sér umfangsmiklar breytingar. Um 75% af innheimtu tolltekna hér á landi myndu renna beint til ESB og breytt tollframkvæmd hefði kallað á umtalsverða fjölgun starfsmanna hjá tollyfirvöldum. Í matinu kom fram að hjá íslenskum tollyfirvöldum störfuðu 168 manns við tollamál, en hjá tollyfirvöldum á Möltu (415.000 íbúar) um 430 manns..

Eðli fríverslunarsamninga hefur breyst mikið í gegnum árin og umfang viðræðna hefur vaxið. Samningalotur standa lengur og fleiri koma að þeim frá báðum hliðum. Samhliða vaxandi umfangi viðræðnanna eykst mikilvægi þess að haldið sé eins miklu gegnsæi og samráði á heimavelli og kostur er á milli ráðuneyta og við hagsmunaaðila. Því er mikilvægt að styrkja þátttöku Íslands í fríverslunarviðræðum EFTA.

EFTA hefur gert 27 fríverslunarsamninga við 38 ríki. Gjarnan er greint á milli annars vegar fyrstu kynslóðar fríverslunarsamninga, sem ná til vöruviðskipta og í flestum tilvikum einnig samkeppnismála og verndunar hugverkaréttinda, og hins vegar annarrar kynslóðar samninga, sem ná einnig til þjónustuviðskipta, fjárfestinga og opinberra innkaupa. Nú er jafnvel farið að tala um þriðju kynslóðina þar sem bæst hafa við ákvæði um t.d. umhverfismálum og vinnuvernd, og hafa slík ákvæði verið tekin upp í fríverslunarsamninga EFTA á síðustu árum.

Markmið Íslands og hinna EFTA-ríkjanna í fríverslunarviðræðum er jafnan að samið verði um fulla fríverslun með hvers kyns iðnaðarvörur og sjávarafurðir. Í gegnum tíðina hefur því markmiði oftast verið náð. Varnarhagsmunir Íslands hafa ávallt verið á sviði landbúnaðar. Afar takmarkaðar tollaívilnanir eru veittar fyrir landbúnaðarvörur sem framleiddar eru hér á landi. Í viðræðum um þjónustuviðskipti hefur af Íslands hálfu verið lögð sérstök áhersla á að bæta markaðsaðgang fyrir íslensk fyrirtæki sem veita þjónustu á sviði endurnýjanlegrar orku. Hvað varðar aðgang erlendra aðila hér á landi þá hefur gildandi takmörkunum á sviði þjónustuviðskipta og fjárfestinga verið haldið til haga og engar skuldbindingar veittar hvað varðar aðgang erlendra þjónustuveitenda á viðkvæmum sviðum þjónustu s.s. menntunar og heilbrigðisþjónustu.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd
Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum