Hoppa yfir valmynd

Frétt

15. nóvember 2017 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Ísland í efsta sæti meðal þjóða heims í þróun upplýsingasamfélagsins

Ísland er komið í efsta sæti meðal þjóða heims á lista Alþjóðafjarskiptasambandsins um stöðuna í upplýsingatækni og fjarskiptum. Á síðasta ári var Ísland í öðru sæti listans en hefur nú skotist upp fyrir Suður-Kóreu sem hefur verið í efsta sætinu síðustu ár. Sviss skipar þriðja sætið og Danmörk er í því fjórða.

Skýrsla Alþjóðafjarskiptasambandsins, Measuring the Information Society Report 2017, var birt í dag. Þar er 176 ríkjum um allan heim raðað í einkunnaröð og staðan borin saman við niðurstöður frá síðasta ári.

Við mat á stöðu landanna er byggt á 11 mælikvörðum þar sem m.a. eru mældir ýmsir þættir sem varða aðgengi að fjarskiptatengingum, fjarskiptaþjónustu, tölvum og upplýsingatækni ásamt færni og notkun tækninnar.

Að mati Alþjóðafjarskiptasambandsins einkenna nokkrir þættir þau lönd sem raðast í efstu sæti listans. Í þessum löndum ríkir samkeppni á fjarskipta- og upplýsingatæknimarkaði, fjárfestingar á þessum mörkuðum hafa verið miklar og nýsköpun umtalsverð. Góður efnahagur, læsi og almenn menntun í löndunum stuðla svo að því að almenningur geti nýtt upplýsinga- og fjarskiptatækni til fulls í eigin þágu.

Meðal hlutverka Alþjóðafjarskiptasambandsins er að fylgjast með stöðu og þróun fjarskipta í ríkjum heims og frá árinu 2009 hefur sambandið gefið út árlega skýrslu þar sem metin er staða upplýsingasamfélagsins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum