Hoppa yfir valmynd

Frétt

28. nóvember 2017 Heilbrigðisráðuneytið

„Þjónusta við aldraða þarf að vera samfelld og byggjast á samvinnu“

Málefni aldraðra - mynd

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra ræddi um öldrunarmál og eflingu öldrunarþjónustu í víðu samhengi þegar hann ávarpaði ráðstefnu Sjómannadagsráðs um Lífsgæði aldraðra 21. nóvember síðastliðinn.

 

Ráðherra ræddi um  hvernig með forvörnum og heilsueflingu aukist tækifærin til að njóta lífsgæða og góðrar heilsu fram á efri ár. Þessi markmið væru mikilvæg en á sama tíma þyrfti að tryggja aðgang að þjónustu eins og þörf er fyrir  hverju sinni:  „Mikilvægt er að efla enn frekar þjónustu hjúkrunarheimila og ekki síður að halda áfram að efla heilsugæslu aldraðra, heimahjúkrun og heimaþjónustu ásamt því að tryggja aðgang að dagdvöl. Góð samvinna og samfella í þjónustunni er lykilorð og gerir okkur kleift að gera enn betur og að nýta sem best þau úrræði sem eru til staðar“ sagði ráðherra meðal annars í ræðu sinni.

Ráðherra rifjaði upp að eitt af hans fyrstu embættisverkum sem heilbrigðisráðherra hefði verið formleg opnun nýrrar deildar við hjúkrunarheimilið á Hellu og eitt af síðustu verkunum hefði verið kynning á niðurstöðum hönnunarsamkeppni um nýtt hjúkrunarheimili í Árborg: „Fjölgun hjúkrunarrýma og endurbætur á eldri heimilum með bættan aðbúnað að markmiði er stórt mál og mikilvægt. En það er ekki síður mikilvægt að auka og efla þjónustu við aldraða sem gerir þeim kleift að búa sem lengst á eigin heimili við góðar aðstæður“ sagði ráðherra meðal annars. Því hefði verið ánægjulegt að geta ráðstafað 250 milljónum króna af safnlið heilsugæslustöðva til að efla heimahjúkrun og heimaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu, líkt og hann tilkynnti þann 26. október síðastliðinn.

„Miðað er við að fjölga heilbrigðisstéttum sem koma að þjónustunni og verður auknum fjármunum varið til að ráða sjúkraþjálfara, iðjuþjálfa og aðrar heilbrigðisstéttir til að efla getu fólks og færni.

Fólk vill búa heima ef það mögulega getur og góð þjónusta við fólk í heimahúsum sem dregur úr þörf þess fyrir sjúkrahúsþjónustu eða varanlega dvöl á hjúkrunarheimili er ómetanleg fyrir þá sem eiga í hlut. Ráðstöfun fjármuna sem stuðlar að þessu er því bæði réttmæt og skynsamleg.“

Ráðherra fór í lokin nokkrum orðum um nýlegar alþjóðlegar skýrslur þar sem fjallað er um heilbrigðismál frá ýmsum hliðum og heilsufar þjóða. Ánægulegt væri að sjá hvað Ísland komi þar vel út í mörgum efnum: „Hér er mikilvægt að standa vörð um góðan árangur, halda áfram að gera betur og huga að öllum þáttum sem hafa áhrif á heilsu og lífsgæði á efri árum“ sagði ráðherra meðal annars í ræðu sinni.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum