Hoppa yfir valmynd

Frétt

1. desember 2017 Dómsmálaráðuneytið

Dómarar og ákærendur setja sér siðareglur

Dómarar og ákærendur hér á landi hafa sett sér siðareglur þar sem lögð er áhersla á að styrkja enn frekar fagleg vinnubrögð og sjálfstæði þeirra. Reglurnar eru einnig í samræmi við tilmæli alþjóðlegra stofnana um að ýta undir heilindi og styrkja varnir gegn hagsmunaárekstrum og spillingu.

Dómarafélag Íslands samþykkti siðareglur fyrir dómara á aðalfundi félagsins þann 24. nóvember s.l. á grundvelli tillagna sérstaks starfshóps, umræðu innan félagsins og alþjóðasamþykkta um siðareglur dómara. Rauði þráðurinn í siðareglunum eru sex grundvallargildi sem snúa að sjálfstæði sérhvers dómara og dómsvaldsins í heild, óhlutdrægni dómara, heilindum, velsæmi, jafnrétti og kostgæfni. Siðareglurnar kveða m.a. á um dómarar þiggi ekki gjafir eða annan viðurgjörning sem gæti tengst störfum þeirra, taki ekki að sér aukastörf sem geti haft áhrif á starfsskyldur þeirra, samrýmast ekki hlutverki dómstóla eða geti leitt til vanhæfis. Þá verður komið á fót siðaráði sem kynni siðareglur dómara og standi fyrir umræðu á meðal þeirra um siðferðileg viðfangsefni.

Siðareglur fyrir ákærendur tóku gildi 8. nóvember síðastliðinn en þar er lögð áhersla á að óhlutdrægni, sjálfstæði og heilindi séu einkunnarorð ákæruvaldsins og mikilvægt sé að ákærendur standi undir trausti og virðingu almennings. Siðareglurnar eru í átta liðum og kveða meðal annars á um að ákærendur gæti réttaröryggis, vandi málsmeðferð og framkomu sína utan starfs. Reglurnar eru afrakstur af starfi vinnuhóps undir forystu ríkissaksóknara þar sem einnig áttu sæti fulltrúar Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og héraðssaksóknara.

Í samræmi við tilmæli GRECO

GRECO, Samtök ríkja innan Evrópuráðsins gegn spillingu, hafa lagt áherslu á það við íslensk stjórnvöld að dómarar og ákærendur setji sér siðareglur og efli fræðslu um gott siðferði og heilindi í sínum röðum. Með þessum nýju siðareglum og fleiri aðgerðum hefur nú verið brugðist við þeim tilmælum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum