Hoppa yfir valmynd

Frétt

27. desember 2017 Heilbrigðisráðuneytið

Upplýsingar um biðtíma eftir hjúkrunarrými

Biðtími fólks eftir búsetu á hjúkrunarheimili hefur lengst á undanförnum árum. Um 30% karla bíða að jafnaði lengur en 90 daga eftir hjúkrunarrými og um 40% kvenna þurfa að bíða 90 daga eða lengur. Embætti landlæknis birtir upplýsingar um bið eftir hjúkrunarrými í nýjum Talnabrunni.

Einstaklingar sem hyggjast sækja um búsetu á hjúkrunarheimili þurfa fyrst að gangast undir færni- og heilsumat þar sem lagt er mat á þörf þeirra fyrir varanlega búsetu á hjúkrunarheimili. Í nýjasta tölublaði Talnabrunns Embættis landlæknis (11. árgangur, 9. tbl.) kemur fram að í nóvember sl. hafi samtals 365 einstaklingar á landinu öllu verið á biðlista eftir hjúkrunarrými. Um þrír af hverjum fjórum sem setjast að á hjúkrunarheimili eru 80 ára eða eldri.

Þegar fjallað er um biðtíma í upplýsingum Embættis landlæknis eru birt miðgildi. Fram kemur að árið 2014 var miðgildi biðtíma að jafnaði 46 dagar á landinu öllu á móti 69 dögum árið 2017 (tímabilið janúar til loka nóvember). Konur bíða að jafnaði lengur eftir búsetu á hjúkrunarrými en karlar. Í Talnabrunninum eru birtar ýtarlegar upplýsingar um bið eftir hjúkrunarrýmum ásamt tölfræði og skýringamyndum, greint eftir heilbrigðisumdæmum og kyni umsækjenda á árabilinu 2014 – 2017.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum