Hoppa yfir valmynd

Frétt

30. desember 2017 Forsætisráðuneytið, Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fjárlög samþykkt á Alþingi

Fjárlög fyrir árið 2018 voru samþykkt á Alþingi í gærkvöldi. Í nýsamþykktu fjárlagafrumvarpi koma fram áherslur nýrrar ríkisstjórnar á ýmis lykilverkefni sem kveðið er á um í stjórnarsáttmálanum. Þar má einkum nefna fjármögnun heilbrigðiskerfisins, eflingu menntakerfisins og máltækniverkefni, útgjöld til samgöngumála og úrbætur í málefnum brotaþola kynferðisofbeldis.

Fjárlög voru samþykkt með tæpum 33 ma.kr. afgangi, eða um 1,2% af landsframleiðslu. 55,3 ma.kr. aukin fjárframlög voru samþykkt ef miðað er við fjárlög fyrra árs, en um er að ræða 19 ma.kr. aukningu frá því fjárlagafrumvarpi sem lagt var fram í haust. Fjárlögin endurspegla sterka stöðu efnahagsmála með áformum um skuldalækkun ríkissjóðs á sama tíma og brugðist er við ákalli um auknar fjárveitingar í mikilvæga samfélagslega innviði.

Með samþykkt fjárlaga eru stigin fyrstu skrefin í langtímastefnu ríkisstjórnarinnar þar sem lögð er megináhersla á að varðveita efnahagslegan stöðugleika, styrkja innviði s.s. samgöngur og heilbrigðiskerfið, renna stoðum undir samkeppnishæfni Íslands til framtíðar og auka stuðning við menntun og nýsköpun.

Skýr langtímasýn í öllum málaflokkum ríkisstjórnarinnar mun síðan birtast í fjármálaáætlun sem lögð verður fram í vor.

Heildaraukning til heilbrigðismála frá síðustu fjárlögum er 22 ma.kr. sem skiptist m.a. þannig að til heilsugæslunnar rennur 2,3 ma.kr., í sjúkrahúsþjónustu 8,8 ma.kr., í lyf: 5,4 ma.kr. og í tannlækningar: 500 m.kr.

Aukning frá síðasta fjárlagafrumvarpi í heilbrigðismálum eru 8 ma.kr. og skiptist þannig að til sjúkrahúsþjónustu er veitt 3 ma.kr., í heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa (þ.m.t. heilsugæsla) 1,3 ma.kr., í hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu 360 m.kr., í lyf og lækningavörur 3 ma.kr. og í lýðheilsu og stjórnsýslu velferðarmála fara 270 m.kr.

Viðmiðunarfjárhæðir barnabóta hækka um 8,5% og tekjuviðmiðunarmörk um 7,4%. Þannig munu greiðslur til einstæðs tveggja barna foreldris á lágmarkslaunum hækka um rúmlega 12% á ári. Frítekjumark fyrir aldraða verður þegar hækkað úr 25 þúsund kr. í 100 þúsund kr. um áramótin.

Aukning í menntamálum frá síðustu fjárlögum nemur 4,1 ma.kr. Af þeim fer 2,9 ma.kr. til háskólastigsins og 1,0 ma.kr. til framhaldsskólastigsins.

Til úrbóta í málefnum brotaþola kynferðisofbeldis renna samtals 376 m.kr. til nokkurra málefnasviða, m.a. innan löggæslu, heilbrigðiskerfisins og réttarkerfisins.

Í eflingu Alþingis er veitt 22,5 m.kr. framlag til þess að styrkja löggjafar, fjárstjórnar- og eftirlitshlutverk þingsins. Aukið framlag til þingflokka nemur 20 m.kr.

Varðandi eflingu löggæslu er tímabundið 400 m.kr. framlag, sem samþykkt var við afgreiðslu fjárlaga yfirstandandi árs, gert varanlegt. Þá er veitt 298 m.kr. framlag til innleiðingar aðgerðaáætlunar um úrbætur í meðferð kynferðisbrota. Framlagið skiptist í 178 m.kr. framlag til að styrkja innviði lögreglu á sviði rannsóknar kynferðisbrotamála og í öllum þáttum málsmeðferðar, 80 m.kr. framlag til uppbyggingar upplýsingatæknikerfis fyrir réttarvörslukerfið og 40 m.kr. tímabundið framlag til uppfærslu rannsóknarhugbúnaðar, upplýsinga og gæðastaðla lögreglu.

Framlag til héraðssaksóknara er aukið um 38 m.kr. sem ein fjölmargra aðgerða til innleiðingar aðgerðaáætlunar um úrbætur í meðferð kynferðisbrota. Framlaginu er ætlað að styrkja innviði embættisins til að bæta ákærumeðferð kynferðisbrota í samræmi við áherslur sem fram koma í aðgerðaáætluninni.

Framlag til aðalskrifstofu dómsmálaráðuneytisins er aukið um 20 m.kr. til að styrkja framkvæmd aðgerðaáætlunar um úrbætur í meðferð kynferðisbrota og vinnu við fullgildingu Istanbúl-samningsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnar.

Í samgöngumálum leggur ríkisstjórnin áherslu á að hraða uppbyggingu í vegamálum þannig að á árinu 2018 verði 2,3 ma.kr. varið til viðbótar í framkvæmdir á vegum, þ.e. umfram það sem gert var ráð fyrir í frumvarpi fráfarandi ríkisstjórnar. Um er að ræða níu framkvæmdir sem snúa fyrst og fremst að umferðaröryggismálum en einnig aðgerðum til að greiða úr umferð og minnka tafir. Framlag til hafnaframkvæmda (hafnabótasjóðs) hækkar um 500 m.kr. frá gildandi fjárlögum.

Fjárheimild á sviði sjávarútvegsmála hækkar um 90 m.kr. vegna framlags til vöktunar vegna mögulegrar erfðablöndunar frá laxeldi í sjókvíum.

Aukið fjárframlag til umhverfismála, frá frumvarpinu sem lagt var fram í september sl., nemur 334 milljónum kr. Til náttúruverndar verður varið 296 m.kr. 260 m.kr. verður veitt í landsáætlun um uppbyggingu innviða og 36 m.kr. til friðlýsinga. Einnig var 150 m.kr. tímabundið framlag til þjóðgarðsmiðstöðar á Hellissandi framlengt. Framkvæmdakostnaður er áætlaður 380 m.kr. og ófjármagnað af því eru um 180 m.kr.

Til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fara 18 m.kr. og 20 m.kr. í stofnun nýs loftslagsráðs.

Til mennta- og menningarmála verða veittar 290 m.kr. vegna sýningarhalds Náttúruminjasafns Íslands. Þá verða 250 m.kr. veittar vegna efniskostnaðar framhaldsskóla og 450 m.kr. til máltækniverkefnis til þess að stuðla að því að íslenska verði gjaldgeng í stafrænum heimi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum