Hoppa yfir valmynd

Frétt

31. desember 2017 Forsætisráðuneytið

Áramótagrein Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra

Horft til framtíðar


Árið 2017 var róstusamt í íslenskum stjórnmálum enda pólitísk ólga verið viðvarandi allt frá efnahagshruninu 2008. Ríkisstjórn tók til starfa í upphafi árs eftir langar stjórnarmyndunarviðræður. Þrír flokkar mynduðu eins manns meirihluta en fjórir flokkar sátu í stjórnarandstöðu á tiltölulega tíðindalitlu þingi. Stærsta deiluefnið var fjármálaáætlun sem stjórnarandstaðan lagðist einróma gegn og þótti ekki nægjanlega sótt fram í mikilvægum uppbyggingarmálum.

Starfstími þeirrar ríkisstjórnar reyndist skammur þar sem Alþingi var ekki fyrr komið saman að loknu sumarhléi en hún sprakk. Ástæðan var ágreiningur um meðferð mála sem komist höfðu í hámæli fyrr um sumarið og lutu að uppreist æru dæmdra barnaníðinga.

Aftur var efnt til kosninga og enn voru sömu mál í brennidepli og árið áður. Uppbygging heilbrigðiskerfis og menntakerfis, framtíðarsýn í samgöngumálum, bætt staða eldri borgara og örorkulífeyrisþega. Við í Vinstri-grænum lögðum áherslu á þessi mál og settum það á oddinn að vera í forystu í nýrri ríkisstjórn sem tæki á þessum málum af alvöru, tryggði ákveðinn pólitískan stöðugleika, virkt samtal við vinnumarkaðinn og setti umfram allt loftslagsmál og jafnréttismál á oddinn.
Að loknum kosningum var engin augljós vinstri- eða hægristjórn í kortunum og stjórnmálaflokkum á Alþingi hafði enn fjölgað. Við vildum láta reyna á fjögurra flokka samstarf fyrrverandi stjórnarandstöðuflokka en eftir skammar viðræður lýsti Framsóknarflokkurinn því yfir að þau treystu sér ekki í slíkt samstarf. Eftir samtöl og símtöl allra forystumanna þar sem ýmsir kostir voru útilokaðir var það niðurstaða þingflokks Vinstri-grænna að láta reyna á samstarf með Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki og úr varð sú ríkisstjórn sem nú situr.
Slíkt samstarf á sér fá fordæmi enda flokkarnir ólíkir. Það er hins vegar bjargföst sannfæring mín að á meðan slíkt samstarf byggi á heilindum sé hægt að brúa gjár á milli, einbeita sér að stóru verkefnunum og vera stundum sammála um að vera ósammála. Það mun reyna á þessa flokka innan ríkisstjórnar en líka á Alþingi því hluti af verkefni allra stjórnmálaflokka þyrfti að vera að bæta starfið á þingi. Ekki með því að leggja af heilbrigðan málefnalegan ágreining heldur með því að leggja okkur fram um að skapa samstöðu um stór mál með því að kalla eftir sjónarmiðum ólíkra flokka við undirbúning þeirra og vera reiðubúin að gera málamiðlanir til að ná árangri.
Eins og áður segir litast staða stjórnmálanna enn af þeim kafla Íslandssögunnar sem liðinn er frá hruni. Sá kafli hlýtur ávallt að verða viðkvæmur enda margir sem áttu um sárt að binda eftir það. En einmitt vegna þessa kafla þarf að halda ferðinni áfram. Við skulum líta til framtíðar og horfa með uppbyggilegum hætti til þess hvernig við viljum byggja samfélagið í heild. Þar þurfum við að horfa til þeirra sem eiga að erfa landið og hvernig við getum byggt upp samfélag tækifæra fyrir þau. Þess vegna leggur ríkisstjórnin áherslu á að stórefla menntakerfið bæði til að reisa traustar undirstöður fyrir þekkingarsamfélag framtíðarinnar og tryggja jöfn tækifæri allra til menntunar og þekkingarsköpunar.

Uppbygging innviða

Samfélagið á eftir að taka stórstígum breytingum á næstu árum. Tæknin mun þróast á margföldum hraða og börnin okkar eru nú þegar flest orðin kunnugri tölvutækninni en við hin fullorðnu. Ef til vill mun dýrmætasta þekking barnanna okkar þó ekki felast í hinum tæknilegu lausnum heldur því að geta metið, greint, valið og hafnað. Geta staldrað við, verið gagnrýnin, spurt spurninga; siðferðilegra, heimspekilegra, menningarlegra og tæknilegra. Kannski verður mikilvægast að við hvetjum börnin til þess að flýta sér ekki um of heldur staldra við og njóta varanlegra verðmæta. Njóta umhverfisins, náttúrunnar, samferðafólksins, fjölbreytts mannlífs og þeirra sem í auknum mæli sækja okkur heim hér á Íslandi til lengri eða skemmri tíma. Kannski snúast dýrmætustu hæfileikar framtíðarinnar um gagnrýna hugsun og færnina til að takast á við lífið af ígrundun og dýpt. Menntun mun í öllu falli vera eitt mikilvægasta tækið til að allir fái að rækta hæfileika sína og skapa sér sín eigin tækifæri.

Aðgerðir nýrrar ríkisstjórnar síðustu vikurnar hafa allar miðað í þá átt að styrkja innviði. Áður var hér nefnd efling menntakerfisins en í nýsamþykktum fjárlögum er mest áhersla á heilbrigðismál sem landsmenn hafa forgangsraðað efst á lista í könnunum undanfarin ár. Framlög hins opinbera eru nú orðin 8,5% af vergri landsframleiðslu sem er veruleg aukning frá fyrri arum. Dregið er úr kostnaði aldraðra og öryrkja við tannlækningar sem er löngu tímabær breyting sem lengi hefur verið kallað eftir. Þá er einnig lögð áhersla á uppbyggingu í samgöngumálum. Framundan eru svo stór verkefni. Þar má nefna samráð við öryrkja um einföldun á kerfinu til að hvetja til aukinnar samfélagsþátttöku og tryggja mannsæmandi kjör, endurskoðun á húsnæðisstuðningi þannig að hann nýtist sem best tekjulágum og ungu fólki sem þarf að komast inn á húsnæðismarkað og samtal við aðila vinnumarkaðarins til að bæta enn aðstæður fjölskyldufólks, meðal annars endurbótum á fæðingarorlofskerfinu.

Langtímasýn fyrir Ísland

Öll okkar verk eiga að hverfast um langtímasýn. Þar ber hæst umhverfismálin en þar setur ný ríkisstjórn metnaðarfull markmið um kolefnishlutlaust Ísland ekki seinna en árið 2040. Til þess að ná því markmiði þarf samstillt átak margra; stjórnvalda, sveitarstjórna, stofnana, aðila vinnumarkaðarins, háskólasamfélagsins og almennings og ljóst er að hvorttveggja þarf til; að draga verulega úr losun gróðarhúsalofttegunda og breytta landnotkun til að auka kolefnisbindingu.

Annað framtíðarmál er jafnrétti kynjanna. Þar hafa byltingar orðið á árinu þar sem konur úr ólíkum geirum hafa stigið fram og rofið aldalanga þögn um kynferðislega áreitni og kynbundna áreitni. Miklu skiptir að við nýtum þessa vitundarvakningu til varanlegra viðhorfsbreytinga. Þá skiptir miklu að við nýtum færið og bætum réttarstöðu brotaþola kynferðisbrota nú þegar.

Það er okkar – allra kynslóða – að skapa framtíðina hér á landi. Við þurfum að takast á við áskoranir og tækifæri sem tengjast hinni svonefndu fjórðu iðnbyltingu. Eins þarf að tryggja mannréttindi og jöfnuð samfara þeirri hröðu tækniþróun sem við vitum að framundan er með stóraukinni sjálfvirkni. Í sáttmála ríkisstjórnarinnar er lagt til að sett verði á fót á vettvangi Alþingis og með aðkomu stjórnvalda sérstök framtíðarnefnd sem ætlað er að fjalla um þær áskoranir sem framundan eru og gera tillögur um viðbrögð við þeim. Þetta er aðeins hluti af þeirri sýn stjórnarflokkanna að efla beri Alþingi og það eigi að taka sér stærra rými við mótun framtíðarsýnar fyrir samfélagið allt.

Fyrir tæpum hundrað árum varð Ísland fullvalda ríki. Framundan er afmælisár sem við skulum nýta til þess að horfa í senn um öxl og framávið. Við skulum læra af reynslunni og nýta okkur hana. En ekki síður skulum við nota þessi tímamót með markvissum hætti til þess að horfa til framtíðar og móta okkur sameiginlega, skýra framtíðarsýn. Mín sýn er sú að á Íslandi getum við byggt upp samfélag jafnréttis og jöfnuðar þar sem við öll fáum tækifæri til að þroska hæfileika okkar, njóta okkar og lifa mannsæmandi lífi. Við getum byggt hér upp menntun og rannsóknir fyrir þekkingarsamfélagið Ísland, öflugt heilbrigðiskerfi þar sem öllum landsmönnum er tryggð framúrskarandi heilbrigðisþjónusta og tekist af festu á við áskoranir í umhverfismálum og barist gegn loftslagsbreytingum. Saman getum við gert okkar góða samfélag enn betra.

Katrín Jakobsdóttir

Höfundur er forsætisráðherra og formaður Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs








Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum