Hoppa yfir valmynd

Frétt

4. janúar 2018 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Þórunn Egilsdóttir formaður samgönguráðs

Þórunn Egilsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson. - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hefur skipað Þórunni Egilsdóttur alþingismann formann samgönguráðs. Í samgönguráði sitja einnig forstöðumenn Vegagerðarinnar, Samgöngustofu og Isavia.

Þórunn Egilsdóttir var kjörin til setu á Alþingi 2013 fyrir Framsóknarflokkinn og varð formaður þingflokks hans 2015 og aftur frá 2016. Hún hefur setið í atvinnuveganefnd, velferðarnefnd, allsherjar- og menntamálanefnd, kjörbréfanefnd og stjórnskipunar- og eftiritsnefnd auk forsætisnefndar.

Unnið er nú að gerð fjögurra ára samgönguáætlunar 2018 til 2021 og er stefnt að því að leggja hana fram á Alþingi á næstu vikum. Einnig verður lögð fram tólf ára áætlun fyrir árin 2018 til 2029.

Við gerð samgönguáætlunar verður horft til markmiða í stjórnarsáttmálanum, að hraðauppbyggingu í vegamálum og öðrum samgönguinnviðum, hvorttveggja nýframkvæmdum og viðhaldi. Við forgangröðun verður sérstaklega tekið tillit til ólíkra stöðu svæða, ferðaþjónustu og öryggissjónarmiða.

Um samgönguáætlun

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra leggur tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir Alþingi á fjögurra ára fresti. Er þar mótuð stefna og sett fram markmið fyrir allar greinar samgangna næstu tólf árin. Einnig skal leggja fram fjögurra ára áætlun um framkvæmdir sem er hluti af tólf ára áætluninni og skal endurskoðuð á tveggja ára fresti.

Samgönguáætlun tekur til fjáröflunar og útgjalda til flugmála, vegamála og siglingamála, þ.m.t. almenningssamgangna, hafnamála, sjóvarna, öryggismála og umhverfismála samgöngugreina. Við gerð samgönguáætlunar skal m.a. byggja á þeim meginmarkmiðum að samgöngur séu greiðar, hagkvæmar, öruggar og umhverfislega sjálfbærar auk þess sem þær stuðli að jákvæðri byggðaþróun.

Við gerð samgönguáætlunar skal einnig tekið mið af eftirfarandi markmiðum:

  • Að ná fram samræmdri forgangsröð og stefnumótun.
  • Að ná fram hagkvæmri notkun fjármagns og mannafla.
  • Að ná fram samræmdu skipulagi samgöngugreina og samstarfi stofnana ráðuneytisins og fyrirtækja á vegum þess.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira