Hoppa yfir valmynd

Frétt

8. janúar 2018 Forsætisráðuneytið

717/2018. Úrskurður frá 3. janúar 2018

Úrskurður

Hinn 3. janúar 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 717/2018 í máli ÚNU 17070003.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 8. júlí 2017, kærði A synjun Matvælastofnunar, dags. 23. júní 2017, á beiðni hennar um aðgang að gögnum um svínabúið að Melum. Beiðni kæranda var í fjórum liðum en Matvælastofnun veitti kæranda aðgang að gögnum undir fyrstu þremur töluliðunum. Eftir stendur beiðni kæranda undir þeim fjórða:

4. Hversu mörgum grísum var slátrað frá búinu á Melum árið 2016?

Matvælastofnun synjaði kæranda um aðgang að gögnunum með vísan til 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Í kæru er farið fram á að úrskurðarnefnd um upplýsingamál hnekki ákvörðun Matvælastofnunar og veiti kæranda aðgang að þeim upplýsingum sem fjórði liður beiðninnar snýr að. Í kærunni segir að samkeppnis- og fjárhagshagsmunir Stjörnugríss hf. geti ekki gengið framar hagsmunum almennings af því að fá aðgang að umbeðnum upplýsingum. 

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 11. júlí 2017, var Matvælastofnun kynnt kæran og gefinn kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrði látið í té í trúnaði afrit af þeim gögnum sem kæran lyti að.

Í umsögn Matvælastofnunar, dags. 24. júlí 2017, segir að í 9. gr. upplýsingalaga komi skýrt fram að stjórnvöldum sé óheimilt að veita aðgang að gögnum er varði mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja. Eina undantekningin frá þessu sé gerð ef hlutaðeigandi fyrirtæki heimilar aðganginn. Matvælastofnun hafi metið það svo að upplýsingar um fjölda sláturgrísa á svínabúi á nýliðnu ári varði mikilvæga viðskiptahagsmuni svínabúsins. Rétt sé að hafa í huga að um samkeppnisframleiðslu sé að ræða. Umsögn Matvælastofnunar var kynnt kæranda með bréfi, dags. 26. júlí 2017, og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Þær bárust þann 7. ágúst 2017. Kærandi telur að almannahagsmunirnir sem 5. gr. upplýsingalaga tryggi gangi að öllu leyti framar þeim sjónarmiðum sem Matvælastofnun hafi teflt fram í málinu. Vísar kærandi til eldri úrskurða úrskurðarnefndarinnar máli sínu til stuðnings og ítrekar kröfu sína um aðgang að fyrirliggjandi gögnum í vörslum Matvælastofnunar.

Með bréfi, dags. 26. júlí 2017, leitaði úrskurðarnefnd um upplýsingamál eftir afstöðu þess aðila sem umbeðin gögn varða, sbr. 2. mgr. 17. gr. upplýsingalaga. Með bréfi, dags. 4. ágúst 2017, tók lögmaður Stjörnugríss hf. undir niðurstöðu Matvælastofnunar. Gögnin varði mikilvæga fjárhags-, rekstrar- og viðskiptahagsmuni sem hvorki eigi erindi við samkeppnisaðila né almenning. Jafnframt segir að það samræmist hvorki markmiðum né gildissviði upplýsingalaga að veita aðgang að upplýsingum sem varði viðkvæma fjárhags- og viðskiptahagsmuni einkaaðila.

Niðurstaða

Mál þetta varðar varðar beiðni kæranda um aðgang að gögnum í vörslum Matvælastofnunar um fjölda grísa sem slátrað var á svínabúinu að Melum árið 2016. Synjun stofnunarinnar á beiðni kæranda byggir á 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 en þar segir orðrétt:

Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.

Í greinargerð með frumvarpi til upplýsingalaga nr. 140/2012 segir að 9. gr. frumvarpsins feli í sér nokkurs konar vísireglu um það hvenær rétt sé að halda leyndum upplýsingum um einkahagsmuni. Þá segir eftirfarandi:

Stjórnvaldi, eða öðrum aðila sem ákvörðun tekur á grundvelli laganna, er með öðrum orðum ætlað að vega og meta umbeðin gögn með tilliti til þess hvort upplýsingar sem þau hafa að geyma séu þess eðlis að rétt sé að undanþiggja þær aðgangi almennings. Við það mat verður að taka mið af því hvort upplýsingarnar séu samkvæmt almennum sjónarmiðum svo viðkvæmar að þær eigi ekkert erindi við allan þorra manna.

Þá er enn fremur tiltekið í greinargerðinni:

Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni. Hér skiptir máli að lagt sé mat á tilvik hverju sinni með hliðsjón af hagsmunum þess lögaðila sem upplýsingar varða.

Úrskurðarnefndin hefur skoðað þau gögn sem Matvælastofnaði synjaði kæranda um aðgang að með hliðsjón af þessum sjónarmiðum. Við matið þykir skipta máli að fyrirtækið Stjörnugrís hf. rekur að minnsta kosti fjögur svínabú til viðbótar búinu að Melum. Þá eru ýmsar upplýsingar um stærð búsins á almannavitorði, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar Íslands frá 26. apríl 2012 í máli nr. 523/2011. Við þessar aðstæður telur nefndin að birting upplýsinga um fjölda grísa sem slátrað var á búinu árið 2016 geti ekki skaðað samkeppnisstöðu fyrirtækisins þannig að þær teljist lúta að mikilvægum fjárhags- eða viðskiptahagsmunum þess í skilningi 9. gr. upplýsingalaga. Í þessu sambandi leggur úrskurðarnefndin áherslu á að ákvæðið er undantekningarregla frá meginreglunni í 5. gr. upplýsingalaga um rétt almennings til aðgangs að gögnum hjá stjórnvöldum. Ber því að skýra fyrrnefnda ákvæðið þröngri lögskýringu. Þá verður að líta til þess markmiðs upplýsingalaga er lýtur að því að styrkja aðhald fjölmiðla og almennings að stjórnvöldum og möguleika þeirra til að miðla upplýsingum um opinber málefni, sbr. 3. gr. og 4. tölul. 1. mgr. 1. gr. upplýsingalaga. Með hliðsjón af framangreindu ber að veita kæranda aðgang að gögnum hjá Matvælastofnun er lýtur að fjölda grísa sem var slátrað á búinu á Melum árið 2016.

Úrskurðarorð:

Matvælastofnun ber að veita A aðgang að upplýsingum um fjölda grísa sem slátrað var á búinu á Melum árið 2016.

 

Hafsteinn Þór Hauksson

formaður

 

 

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                     Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum