Hoppa yfir valmynd

Frétt

25. janúar 2018 Innviðaráðuneytið

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra heimsótti Isavia

Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia. - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, heimsótti Isavia á Keflavíkurflugvelli í gær ásamt fylgdarliði. Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, og nokkrir samstarfsmenn fóru yfir helstu þættina í starfseminni og greindu frá þróunaráætlun og þeirri uppbyggingu sem fyrirsjáanleg er á næstu árum og áratugum vegna aukinna umsvifa í fluginu.

Starfsmenn Isavia á síðasta ári voru alls 1.550 og gert er ráð fyrir að rúmlega 10 milljónir farþega fari um Keflavíkurflugvöll á þessu ári. Fram kom í máli forráðamanna Isavia að framtíðarsýn Isavia sé sú að Keflavíkurflugvöllur verði miðstöð flugs á Norður-Atlantshafi og að gildi Isavia væru öryggi, samvinna og þjónusta. Meðal helstu samkeppnisflugvalla á þessu svæði væri  flugvöllurinn við Dublin þar sem mikil uppbygging sé framundan. Auk þess að reka Keflavíkurflugvöll og Flugstöð Leifs Eiríkssonar sér félagið um rekstur annarra innanlandsflugvalla á Íslandi og annast flugumferðarþjónustu á næst stærsta flugstjórnarsvæði heims sem er 5,4 milljónir ferkílómetra. 

Fulltrúar Isavia greindu frá ýmsum þáttum starfseminnar: Jón Karl Ólafsson, framkvæmdastjóri flugvallasviðs, Hlynur Sigurðsson, framkvæmdastjóri viðskiptasviðs Keflavíkurflugvallar og Björn Óli Hauksson forstjóri. Með ráðherra í för voru meðal annars Ingveldur Sæmundsdóttir aðstoðarmaður og Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri.

 Ingveldur Sæmundsdóttir, aðstoðarmaður ráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson og Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri.

Hlynur Sigurðsson, framkvæmdastjóri viðskiptasviðs Keflavíkurflugvallar og Sigurður Ingi Jóhannsson eru hér í öryggisleitarsvæðinu.

Rólegt var á svæði öryggisleitar á miðjum degi þegar umsvif eru minnst.

Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri tækni- og eignasviðs Keflavíkurflugvallar, greinir ráðherra hér frá umbótunum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Ýmsar framkvæmdir standa yfir í Flugstöð Leifs Eiríkssonar til að geta mætt auknum umsvifum.

 

Þjónustan á íslenska flugstjórnarsvæðinu er umfangsmikið hvað varðar mannafla, tækjabúnað og tekjur en að meðaltali fara um 400 flugvélar um svæðið á hverjum sólarhring. Flestar á leið milli Evrópu og Norður-Ameríku en einnig fara um svæðið flugvélar á leið milli Mið-Austurlanda og Norður-Ameríku og milli Norður-Ameríku og Austurlanda fjær.

Fjallað var nokkuð um innanlandsflugvellina og kom fram að leitast þyrfi við að gera áætlunarflugvellina sem mest sjálfbærar rekstrareiningar og framundan væri að endurskoða rekstrarform þeirra. Í lok heimsóknarinnar var gengið um flugstöðina og litið við í farangursumsjón, öryggisleit og verslunar- og þjónustusvæði flugstöðvarinnar.

Sigurður Ingi Jóhannsson sagði ljóst eftir þessa kynningu að fjölgun farþega síðustu ára og spár um áframhaldandi aukin umsvif kölluðu greinilega á mikla fjárfestingu. Hann sagði þróunaráætlun sem fyrirtækið hefði lagt fram mjög metnaðarfulla og til þess fallna að skapa skilyrði fyrir síaukin verkefni við flug og ferðaþjónustu og raunar fleiri atvinnugreinar sem t.d. byggðu afkomu sína á útflutningi með flugi. Uppbyggingaráform væru byggð á langtímaspám enda væri brýnt að horfa langt fram í tímann og setja fram áætlanir sem tækju mið af þeim og margir aðilar þyrftu að koma að slíkri uppbyggingu.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum