Hoppa yfir valmynd

Frétt

5. febrúar 2018 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ávarp flutt á skattadegi Félags löggiltra endurskoðenda 19. janúar 2018

Talað orð gildir

Ágæta fundarfólk

Hér eru skattar, skattkerfið og skattbreytingar til umræðu og ánægjulegt að fá tækifæri, í annað sinn í þessari viku til að ræða þessi mál. Þið hafið ef til vill orðið vör við eftir fyrri skattadaginn að talsverð umræða fór af stað um áherslur í skattmálum og skattalækkanir - sem hafa margar orðið á síðustu árum, öfugt við það sem hefur verið haldið fram að hér hafi skattar ekkert lækkað sem heitið geti.

Ég vil því taka nokkur dæmi af skattalækkunum og breytingum undanfarinna ára.
Fyrst: Tekjuskattur einstaklinga. Þar hefur þrepum verið fækkað og skatthlutfall á tekjur upp að tæplega 900 þúsund krónum lækkað um 3,28%.

Hér höfum við gert miklar breytinga á skatterfinu. Við þekkjum öll afnám tolla og vörugjalda og þær gríðarlegu breytingar á samkeppnisumhverfi verslunar á Íslandi sem þær hafa haft í för með sér.

Almennt þrep virðisaukaskatts lækkaði úr 25,5% í 24% árið 2015, en neðra þrepið hækkaði úr 7 í 11. Ýmis ferðatengd þjónusta sem áður var undanskilin virðisaukaskatti var felld undir neðra þrepið frá og með árinu 2016. Samanlagt voru þessar breytingar til lækkunar á vísitölu neysluverðs.

Við höfum lækkað tryggingagjald, sem fór hæst í 8,65% en er nú 6,85%. 

Ýmsir hér í salnum hafa eflaust þurft að aðstoða fólk við að ráða fram úr auðlegðarskattinum sem líka heyrir sögunni til. Krónutölugjöldin voru fryst árið 2014 og 2015. Orkuskattur á rafmagn féll brott 1. janúar 2016.

Stuðningur við kaup á fyrstu íbúð var lögfestur og gekk í gildi 1. júlí 2017: Nú er heimilt að taka út og nýta skattfrjálst iðgjald vegna séreignar­sparnaðar í allt að tíu ár til kaupa á fyrstu íbúð. Fyrra ívilnunarkerfið, sem tengdist leiðréttingunni, var framlengt í tvö ár.

Við höfum gert ýmsar breytingar til að styðja við fjármögnun og rekstur nýsköpunarfyrirtækja og smærri fyrirtækja í vexti. Þannig er nú veittur skattafsláttur vegna hlutabréfakaupa einstaklinga í litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Hámark frádráttarbærs kostnaðar vegna rannsókna og þróunar var hækkað úr 100 m.kr. árlega í 300 m.kr. Næsta skref er að afnema þak á endurgreiðslu vegna rannsókna og þróunar. Jafnframt höfum við tekið upp frádráttarheimild fyrir erlenda sérfræðinga þannig að 25% tekna þeirra verða skattfrjáls og undanþegin staðgreiðslu fyrstu þrjú árin í starfi.

Að síðustu má svo nefna að frítekjumark fjármagnstekjuskatts af leigutekjum af íbúðarhúsnæði hækkaði á árinu 2016 úr 30% í 50%. Skattbyrði leigutekna lækkaði þar með úr 14% í 10%.

En hver eru markmið yfirvalda í skattamálum?

Að skattkerfið sé réttlátt og skilvirkt og skili því sem til er ætlast.

Að við sköpum rétta hvata fyrir öflugt og skapandi atvinnulíf og gott mannlíf.

Þess vegna þarf skattkerfið að vera í stöðugri endurskoðun, til að halda í við breytingar og þróun í umhverfi okkar.

Og þótt hlutir hafi alltaf verið gerðir á einhvern hátt og jafnvel að framkvæmd sé með ákveðnum hætti víðast hvar í heiminum, þýðir það ekki að við getum ekki verið öðruvísi.

Þannig tölum við í stjórnarsáttmálanum um að við viljum huga að breytingum hvað varðar skattlagningu á tónlist, íslenskt ritmál og fjölmiðla. Vera má að þar verði um skapandi skattframkvæmd að ræða, sem á vel við í þessum greinum.

En við segjum fleira í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um skattamál. Við þurfum að taka tillit til þess sem er að gerast í hagkerfinu og hvernig vinnumarkaðurinn tekur á sínum málum í kjarasamningagerð, en að því sögðu leggur ríkisstjórnin áherslu á að lækka frekar tekjuskatt einstaklinga í neðra skattþrepi og það er forgangsmál að lækka tryggingagjald. Ég tel að það þurfi að ná einhverju jafnvægi þar, sem verður ekki raskað þótt eitthvað láti undan í efnahagsmálunum.

Við stefnum að endurskoðun skattstofns fjármagnstekjuskattsins, enda lýstum við því yfir þegar hann var hækkaður nú um áramótin að skoða yrði raunskattlagningu á fjármagnstekjur.

Við höfum lagt til hliðar áform um hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustuna, en eins og kunnugt er munu aðrir gjaldamöguleikar verða kannaðir. Gistináttagjaldinu verður breytt á kjörtímabilinu þannig að það verði ekki lengur ákveðin krónutala, heldur hlutfall.

Og síðast en ekki síst - er lögð á það áhersla í sáttmálanum að efla skattrannsóknir.

En hvernig getum við gert enn betur?

Við getum haft skýrar skattareglur og leikreglur sem draga úr árekstrum við skattyfirvöld vegna mismunandi túlkunar. Þetta er verkefni sem við vinnum stöðugt að. Nýleg lagaákvæði um milliverðlagningarreglur eru dæmi um þetta. Aukin viðskipti yfir landamæri auka þörfina fyrir slíkt og kalla á aukið samstarf skattyfirvalda á alþjóðavettvangi og meiri samræmingu skattareglna milli landa.

Það er í okkar verkahring að tryggja sanngjörn viðurlög gagnvart þeim sem brjóta leikreglur og skekkja þannig samkeppnisstöðu milli fyrirtækja og atvinnugreina og auka skattbyrði þeirra skilvísu. Sporna þarf gegn skattundanskotum og skattsvikum. Aðgerðir gegn kennitöluflakki eru hluti af þessu.

Við getum innleitt einfaldari og minna íþyngjandi reglur gagnvart litlum fyrirtækjum, þ.m.t. sprotafyrirtækjum. Aðgerð ráðherra atvinnumála um einfaldari ársreikninga er dæmi um slíkt. Huga þarf að fleiri slíkum skrefum. Einfalda gjaldakerfi hins opinbera. Fara yfir öll gjöld sem ríkið innheimtir og kanna hvar megi einfalda, draga úr eða fella niður og taka tillit til umfangs rekstrar.

Svo verð ég að nefna að öflugt og viðvarandi samráð og samstarf milli löggiltra endurskoðenda og skattyfirvalda er afar mikilvægt.

RSK hefur lagt mikla áherslu á þetta atriði sem hefur skilað frábærum árangri, m.a. í fækkun áætlana sem bæta ætti skattskil til muna. Þetta atriði skiptir líka miklu máli varðandi flýtingu álagningar og einfaldari skattframkvæmdar af hvers konar tagi.

Að lokum er ánægjulegt að geta kynnt nokkrar nýjungar í skattframkvæmd á þessu ári:

  1. Álagningu einstaklinga verður flýtt í annað sinn á þremur árum. Í ár lýkur henni þann 31. maí í stað 31. júlí svo sem var í áratugi. Þá ættu flestir að hafa fengið niðurstöður og endurgreiðslur áður en sumarleyfi hefst.
  2. Álagningu lögaðila er flýtt til 28. september í stað 31. október. Þetta er nauðsynlegt til að hagstjórnin fái upplýsingar fyrr en verið hefur. Það er ótækt að fiskveiðigjöld séu til dæmis ákvörðuð á grundvelli tveggja ára gamalla upplýsinga og stefna ber að meiri flýtingu á næstu árum.
  3. Uppi eru áform um mánaðarleg skil virðisaukaskatts í stað skila á tveggja mánaða fresti. Þetta ætti að draga úr vanskilum og minnka tjón vegna kennitöluflakks. Einnig er mikilvægt að fá betri upplýsingar með meiri sundurliðunum á innskatti, hvort virðisaukaskatturinn sé vegna birgðasöfnunar og þar fram eftir götunum. Þetta mun gefa miklu betri hagstjórnarlegar upplýsingar og verkfæri fyrir efnahagsstjórnina. 

Þessara breytinga má vænta árið 2019, en Skúli Eggert sem talar hér á eftir mun vafalaust fara betur yfir þessi mál með ykkur.

Ég vona að dagskráin framundan verði ánægjuleg og fræðandi og ítreka þau skilaboð frá okkur hérna megin við borðið að góð samskipti við endurskoðendur eru ómetanleg og ábendingar um það sem betur má fara eru afar vel þegnar. Það er okkar allra hagur að skattframkvæmdin sé lipur, skilvirk og sanngjörn.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum