Hoppa yfir valmynd

Frétt

7. febrúar 2018 Innviðaráðuneytið

Flugvallarskilyrði í Hvassahrauni verði fullrannsökuð

Starfshópur um framtíð Reykjavíkurflugvallar skilaði Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, nýverið áfangaskýrslu sinni. Jón Gunnarsson, fyrrverandi ráðherra, skipaði hópinn í september síðastliðnum.

Tillögur starfshópsins eru að flugvallarskilyrði í Hvassahrauni verði fullkönnuð svo fljótt sem verða má með nauðsynlegum rannsóknum er varða flug á svæðinu áður en ákvörðun yrði tekin um að byggja nýjan flugvöll þar. Einnig yrðu tryggðar greiðar samgöngur milli borgarinnar og hins mögulega nýja flugvallar. Þá leggur hópurinn áherslu á að tryggja verði rekstraröryggi flugvallarins í Vatnsmýri og að brautir verði ekki styttar eða þeim lokað fyrr en nýr flugvöllur er tilbúinn til notkunar og bent er á að hraðað verði sem kostur er ákvarðanatöku vegna málsins.

Hópnum var falið það hlutverk að leiða viðræður samgönguyfirvalda, heilbrigðisyfirvalda, Reykjavíkurborgar og annarra sveitarfélaga og hagsmunaaðila til að finna viðunandi lausn á framtíð Reykjavíkurflugvallar. Skyldi hópurinn leita lausna sem geti sætt ólík sjónarmið um hlutverk flugvallarins í dag og til framtíðar. Hópnum var falið að taka mið af eftirfarandi skilyrðum í viðræðum sínum:

  • Flugvellir á suðvesturhorni landsins uppfylli skilyrði um að allir landsmenn komist til og frá höfuðborgarsvæðinu innan 3,5 klst. ferðatíma. Þjónustan verði sambærileg við núverandi flugvöll í getu og afköstum.
  • Af öryggissjónarmiðum þurfi tvo flugvelli á suðvesturhorni landsins sem þjónað geti millilandaflugi með góðu móti.
  • Stjórnvöld geti ekki skuldbundið sig við dagsetningar til þess að opna nýjan flugvöll fyrr en staðsetning og hönnun liggur fyrir og að öll skilyrði um þjónustu flugvallarins og fjármögnun af fjárlögum eru uppfyllt.
  • Flugvellir á suðvesturhluta landsins uppfylli öryggishlutverk gagnvart íbúum landsins, þar með talið almannavarnahlutverk. Jafnframt sé mikilvægt að góð aðstaða fyrir kennslu- og þjálfunarflug sé á slíkum flugvelli.

Auk þessa skyldi starfshópurinn hafa til hliðsjónar skýrslu Þorgeirs Pálssonar um öryggishlutverk Reykjavíkurflugvallar, samkomulag Reykjavíkurborgar og ríkisins bæði í apríl og október 2013, taka tillit til markmiða samgönguáætlunar og niðurstöðu svokallaðrar  Rögnunefndar frá júní 2015 um flugvallakosti á höfuðborgarsvæðinu.

Starfshópurinn hefur haldið sjö fundi og segir í skýrslunni að í gögnum komi fram að horft sé til Hvassahrauns sem líklegasta kosts fyrir nýjan flugvöll á höfuðborgarsvæðinu verði flugvöllur í Vatnsmýri aflagður. Hafi því verið ákveðið að skoða þann kost og ræða fyrst við aðila sem gerst þekkja aðstæður þar. Þá fór hópurinn yfir aðalskipulag Reykjavíkur fyrir árin 2010 til 2030.

Í hópnum sátu Hreinn Loftsson, lögmaður, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir ráðgjafi, Linda Gunnarsdóttir flugstjóri, Róbert Guðfinnsson athafnamaður og Sveinn Magnússon, skrifstofustjóri í velferðarráðuneytinu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum