Hoppa yfir valmynd

Frétt

15. febrúar 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Tilraun um styttingu vinnuvikunnar lofar góðu

Miðað við upplýsingar sem þegar liggja fyrir hefur stytting vinnuvikunnar jákvæð áhrif á starfsfólk og vinnustaði, skrifar Ásmundur Einar Daðason, félag- og jafnréttismálaráðherra, í blaðagrein um tilraunaverkefni þessa efnis. Hann segir vísbendingarnar nógu skýrar til að skoða verði málið áfram í fullri alvöru.

Grein Ásmundar birtist í Fréttablaðinu í dag. Eins og þar kemur fram stýrir velferðarráðuneytið tilraunaverkefni af hálfu hins opinbera um styttingu vinnuvikunnar en efnt var til þess á grundvelli viljayfirlýsingar stjórnvalda í tengslum við gerð kjarasamninga ríkisins og aðildarfélaga BSRB haustið 2015. Stofnanirnar sem taka þátt í þessu verkefni eru Ríkisskattstjóri, Útlendingastofnun, Þjóðskrá og Lögreglustjórinn á Vestfjörðum.

Tilraunin er til eins árs og hófst síðastliðið vor með fækkun vinnustunda starfsfólks á þessum vinnustöðum úr 40 stundum í 36, án launaskerðingar. Markmiðið er að skoða hvort þetta leiði til gagnkvæms ávinnings starfsmanna og viðkomandi vinnustaða.

Eins og segir í grein ráðherra benda niðurstöður athugana sem þegar hafa verið gerðar til mikillar ánægju með tilraunaverkefnið hjá þátttakendunum. Starfsánægja hafi aukist, líðan á vinnustað batnað, lífsgæði aukist og auðveldara sé fyrir starfsfólkið að samræma vinnu og einkalíf en á vinnustöðunum sem skoðaðir voru til samanburðar og í samanburði við mælingar sem gerðar höfðu verið á stofnununum fjórum áður en verkefnið hófst.

,,Miðað við þær upplýsingar sem þegar liggja fyrir hefur stytting vinnuvikunnar jákvæð áhrif á starfsfólk og vinnustaði. Styttingin veitir fjölskyldum svigrúm til þess að eiga fleiri gæðastundir og slíkt hlýtur að hafa góð áhrif á þjóðfélagið í heild.

Þótt við getum ekki alhæft út frá þessari tilraun virðast þessar vísbendingarnar nógu skýrar til þess að við verðum að halda áfram og skoða möguleikana á styttingu vinnuvikunnar af mikilli alvöru“ segir Ásmundur Einar Daðason félags- og jafnréttismálaráðherra meðal annars í grein sinni.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum