Hoppa yfir valmynd

Frétt

16. febrúar 2018 Utanríkisráðuneytið

Réttindi borgara eftir Brexit rædd við embættismenn í London

Embættismenn frá EFTA-ríkjunum innan EES (Íslandi, Liechtenstein og Noregi) funduðu með embættismönnum frá Bretlandi fyrr í vikunni í þeim tilgangi að ræða samkomulagið sem náðist á milli Bretlands og Evrópusambandsins (ESB) í desember 2017 varðandi réttindi borgara til áframhaldandi búsetu eftir útgöngu Bretlands úr ESB (Brexit). Á fundinum áttu sér stað jákvæðar umræður um málefni á borð við búseturétt, réttinn til almannatrygginga og gagnkvæma viðurkenningu á starfsréttindum. Lýstu aðilar yfir vilja sínum til þess að tryggja stöðu og réttindi breskra ríkisborgara sem búa á Íslandi, í Noregi og Liechtenstein, sem og réttindi ríkisborgara EFTA-ríkjanna þriggja innan EES sem búsettir eru í Bretlandi.

„Brexit er og verður forgangsmál hjá okkur í utanríkisráðuneytinu og mikil vinna fer nú fram í ráðuneytum hér á landi við að vernda hagsmuni okkar vegna útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Sem fyrr höfum við orðið vör við mikinn og jákvæðan vilja breskra stjórnvalda að tryggja að réttindi íslenskra borgara séu virt og að þeir sitji við sama borð og aðrir,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. „Stjórnsýslan vinnur hörðum höndum að því að gæta hagsmuna Íslands til skemmri tíma í útgönguferlinu en ekki síður þegar litið er til framtíðarinnar,“ segir Guðlaugur Þór.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum