Hoppa yfir valmynd

Frétt

19. febrúar 2018 Forsætisráðuneytið

721/2018. Úrskurður frá 9. febrúar 2018

Úrskurður

Hinn 9. febrúar 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 721/2018 í máli ÚNU 17020008.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 20. febrúar 2017, kærði A afgreiðslu Vestmannaeyjabæjar á beiðni um afhendingu gagna er varða landamerkjadeilu húseigenda í Vestmannaeyjum. Í kærunni segir að beiðni kæranda, dags. 9. febrúar 2017, hafi ekki verið svarað af hálfu sveitarfélagsins.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 10. mars 2017, óskaði ritari úrskurðarnefndar um upplýsingamál eftir upplýsingum um stöðu málsins hjá sveitarfélaginu. Í svari sveitarfélagsins, dags. 14. mars 2017, kemur fram að sveitarfélagið sé ekki aðili að málinu að svo stöddu heldur sé það einungis að gæta sinna hagsmuna í málinu. Málið sé til meðferðar hjá dómstólum og því geti sveitarfélagið ekki látið af hendi tölvupósta sem farið hafi á milli lögfræðings og starfsmanna, enda ekki um opinber gögn að ræða.

Með bréfi, dags. 18. mars 2017, beindi ritari úrskurðarnefndarinnar þeirri fyrirspurn til sveitarfélagsins hvort kæranda hefði verið tilkynnt um þá aðstöðu í málinu sem sveitarfélagið teldi koma í veg fyrir aðgang hans að gögnunum. Í svari sveitarfélagsins, dags. 20. mars 2017, kemur fram að það hafi ekki verið ítarlega kynnt fyrir kæranda hvaða gögn liggi fyrir, enda séu engin formleg gögn til. Sveitarfélagið hafi fengið tölvupósta og afrit af bréfum milli deiluaðila þar sem það sé eigandi lóðanna. Við þær aðstæður eigi sveitarfélagið ekki hlut að málaferlunum heldur sé það einungis að fylgjast með og muni gæta hagsmuna sinna ef á þurfi að halda.

Niðurstaða

Mál þetta varðar afgreiðslu Vestmannaeyjabæjar á beiðni kæranda um aðgang að gögnum hjá sveitarfélaginu er varða deilur húseigenda í Vestmannaeyjum. Í svari sveitarfélagsins til kæranda, dags. 2. febrúar 2017, kemur fram að engin gögn liggi fyrir varðandi beiðni kæranda. Af skýringum þess fyrir úrskurðarnefndinni verður hins vegar ráðið að sveitarfélagið hafi gögn um málið undir höndum. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál áréttar að upplýsingalög nr. 140/2012 taka til allra fyrirliggjandi gagna hjá aðilum sem falla undir lögin með ákveðnum takmörkunum, sbr. 1. mgr. 5. gr. laganna. Þeirri aðstöðu, sem lýst er í umsögn sveitarfélagsins og varðar stöðu þess gagnvart deilu húseigendanna, verður ekki jafnað til þess að engin gögn liggi fyrir um deiluna.

Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál samræmdist málsmeðferð sveitarfélagsins við töku hinnar kærðu ákvörðunar ekki ákvæðum upplýsingalaga nr. 140/2012. Eins og hér stendur á verður að telja að beiðni kæranda hafi ekki fengið þá efnislegu meðferð á lægra stjórnsýslustigi sem úrskurðarnefndinni sé fært að endurskoða. Hin kærða ákvörðun er þannig haldin efnislegum annmörkum sem eru að mati nefndarinnar svo verulegir að ekki verður hjá því komist að fella hana úr gildi og leggja fyrir sveitarfélagið að taka málið til nýrrar og lögmætrar meðferðar.

Úrskurðarorð:

Beiðni A, dags. 9. febrúar 2017, er vísað til Vestmannaeyjabæjar til nýrrar meðferðar og afgreiðslu.

 

Hafsteinn Þór Hauksson

formaður

 

 

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                     Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum