Hoppa yfir valmynd

Frétt

22. febrúar 2018 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið, Matvælaráðuneytið

Ráðherrar funda með Dr. Robert Costanza

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra ásamt dr. Robert Costanza umhverfishagfræðingi - mynd

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, funduðu í dag með dr. Robert Costanza, þekktum umhverfishagfræðingi.

Costanza er einn af þekktustu fræðimönnum samtímans á sviði umhverfismála en hann hefur m.a. lagt áherslu á þverfræðilegar rannsóknir tengdar visthagfræði og þeim fjárhagslegu verðmætum sem felast í þjónustu vistkerfa. Costanza er prófessor í opinberri stefnumótun við Crawford School of Public Policy við Australian National University en starfar einnig fyrir þjóðarráð Bandaríkjanna á sviði vísinda og umhverfis (National Council on Science and the Environment) og ýmsar vísinda- og rannsóknastofnanir í Bandaríkjunum, Evrópu og Asíu.

Á fundinum var m.a. rætt um hvernig beita má aðferðum hagfræðinnar til að reikna út virði náttúrusvæða út frá ólíkri nýtingu þeirra og þeirri þjónustu sem þau veita.

Síðar í dag var Costanza með fyrirlestur í Háskóla Íslands þar sem hann fjallaði m.a. um hvernig samfélög dagsins í dag eru orðin fíkin í stöðugan hagvöxt, sem ekki fer alltaf saman við sjálfbærni og velferð samfélaga. Meðal annars sagði hann frá nýrri hreyfingu, Wellbeing Economy Alliance (WE-All), sem hefur sett þessi mál á oddinn en að henni koma ríkisstjórnir, samfélög, félagasamtök og fræðimenn víða um heim.  

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum