Hoppa yfir valmynd

Frétt

27. febrúar 2018 Innviðaráðuneytið

Drög að lagafrumvarpi til nýrra umferðarlaga birt í samráðsgátt

Drög að frumvarpi til nýrra umferðarlaga hafa verið birt á samráðsgátt stjórnvalda við almenning og er unnt að senda þar umsagnir um frumvarpið til 16. mars næstkomandi. Unnið hefur verið að endurskoðuninni undanfarin ár og hefur frumvarp verið lagt fram fjórum sinnum en ekki hlotið afgreiðslu.

Markmið með heildarendurskoðun umferðarlaga er að stuðla enn frekar að umferðaröryggi með því að bregðast við þeirri þróun sem orðið hefur á samgöngum og samfélaginu í heild á undanförum árum. Umtalsverður árangur hefur náðst í baráttunni gegn umferðarslysum hér á landi en betur má ef duga skal. Mjög brýnt var orðið að endurskoða umferðarlög nr. 50/1987, með síðari breytingum. Töluvert af ábendingum og athugasemdum hafa borist ráðuneytinu vegna umferðarlaga og nauðsynlegra breytinga á þeim. Snúa athugasemdirnar m.a. að hjólreiðum og breyttum samgönguháttum, aukinni sjálfvirkni bíla, eru ákall um skýrari ákvæði um ljósaskyldu ökutækja í ljósi tækniþróunar, stöðubrotum og sektarheimildum lögreglu og stöðuvarða, vegaeftirliti, notkun farsíma- og snjalltækja við akstur og skorti á hlutlægri refsiábyrgð eigenda og umráðamanna bifreiða á hraðasektum og akstri gegn rauðu ljósi, þ.e. brot sem næst á löggæslumyndavél.

Unnið hefur verið að endurskoðun á umferðarlögum undanfarinn áratug. Frumvarp til umferðarlaga hefur fjórum sinnum verið lagt fram á Alþingi, síðast á 141. löggjafarþingi (2012-2013). Upphaflegt frumvarp var unnið af átta manna nefnd sem falið var að taka umferðarlög til heildarendurskoðunar og semja frumvarp til nýrra laga umferðarlaga á grundvelli tillagna nefndarinnar. Á milli löggjafarþinga tók frumvarpið nokkuð miklum breytingum í samræmi við fram komnar athugasemdir umsagnaraðila, umræðna á Alþingi og í umhverfis- og samgöngunefnd.

Í maí 2017 var ákveðið að hefja að nýju heildarendurskoðun á umferðarlögum. Fyrsta skrefið var að senda eldra frumvarp, sem lagt var fram á 141. löggjafarþingi (2012-2013), til umsagnar aðila í fagráði um umferðarmál. Var óskað eftir sjónarmiðum þeirra og athugasemdum við frumvarpið í ljósi þessarar fyrirhugaðrar heildarendurskoðunar. Athugasemdir sem bárust hafa nýst við gerð nýs frumvarps sem byggist á grunni fyrri vinnu.

Í janúar sl. birti ráðuneytið á vef stjórnarráðsins áform um þessa lagasetningu og frummat á áhrifum hennar í samræmi við nýtt verklag við gerð lagafrumvarpa. Var kallað eftir sjónarmiðum stofnana, hagsmunaaðila og einstaklinga á þeim áformum og áhrifamati. Margar ábendingar og athugasemdir bárust ráðuneytinu í kjölfarið og hefur mið verið tekið af þeim við frumvarpssmíðina. Meðal helstu breytinga sem finna má í frumvarpinu eru:

  • Nýtt markmiðsákvæði umferðarlaga.
  • Nýr kafli um hjólreiðar.
  • Ákvæði um neyðarakstur gerð ítarlegri.
  • Ákvæði um bann við stöðvun og lagningu ökutækis eru færð til nútímalegra horfs.
  • Ávana- og fíkniefni skulu mæld í blóði ökumanns en ekki blóði eða þvagi.
  • Reglur um framkvæmd öndunarprófs og sýnatöku vegna gruns um ölvunarakstur eða akstur undiáhrifum ávana- og fíkniefna gerð fyllri.
  • Hámarkssekt vegna umferðarlagabrota hækkuð úr 300.000 krónum í 500.000 krónur.
  • Hámark leyfilegs áfengismagns í blóði ökumanns lækkað úr 0,5‰ eða 0,2‰.
  • Skýr regla um sérreinar og heimild til að kveða á um hvers konar ökutæki eru heimil á slíkum reinum.
  • Skýrara ákvæði um ljósaskyldu og nauðsyn þess að hafa þar með ávallt kveikt á afturvísandi stöðuljósum.
  • Hlutlæg ábyrgð á sektum vegna brota sem numin eru af löggæslumyndavélum og varða ekki punktum.

Drög umferðarlaganna eru birt í töflu á samráðsgáttinni, þ.e. finna má í skjalinu lagagreinar frumvarpsins og athugasemdir um hverja grein úr greinargerð í dálki til hliðar. Er þess óskað að umsagnaraðilar riti athugasemdir og ábendingar við einstakar greinar í þriðja dálkinn. Jafnframt er umsagnaraðilum frjálst að gera tillögu að breytingu á einstökum greinum með breytingarham. Umsagnir skulu berast eigi síðar en 16. mars næstkomandi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum