Hoppa yfir valmynd

Frétt

1. mars 2018 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Barnið vex en bókin ekki

Nemendur í Hagaskóla stóðu fyrir opnu málþingi 28. febrúar síðastliðinn með yfirskriftinni „Barnið vex en bókin ekki“ þar sem lestur og bókmenntir fyrir börn og ungmenni voru til umfjöllunar. Málþingið var vel sótt og mátti greina mikla samstöðu fyrirlesara og fundagesta um mikilvægi málefnisins.

Frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands og Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, ávörpuðu fundagesti í upphafi málþingsins. Erindi fluttu Ásta Hlíf Harðardóttir, Eir Ólafsdóttir og Helgi Hrafn Erlendsson, nemendur í Hagaskóla, Dröfn Vilhjálmsdóttir bókasafnsfræðingur, Egill Örn Jóhannsson framkvæmdastjóri Forlagsins og Kristín Helga Gunnarsdóttir, rithöfundur.

Nemendurnir lýstu yfir miklum áhyggjum á takmörkuðu úrvali unglingabóka, bæði íslenskum og þýddum. Það kom fram í máli þeirra að þau teldu áhuga barna og ungmenna vera til staðar en mikilvægt væri að auka úrval bókanna og að allir þyrftu að leggjast á eitt. „Það er okkar allra í þessum sal og á þessu landi að styðja við yndislestur barna og ungmenna“ sagði Helgi Hrafn Erlendsson.

Í ávarpi sínu talaði mennta- og menningarmálaráðherra um mikilvægi læsis og þá áherslu stjórnvalda að styrkja umgjörð tungumálsins okkar.
„Ég finn fyrir vitundarvakningu um þessi mál samhliða aukinni þjóðfélagsumræðu um menntamál. Það er ljóst að það er vilji allra að gera betur í þessum efnum. Læsi barna er samvinnuverkefni samfélagsins alls. Foreldrar og aðstandendur þurfa að vera virkir þátttakendur í námi barna sinna og fylgjast með framvindu og árangri. Lestrarfærni er forsenda virkrar þátttöku í lýðræðissamfélagi og nauðsynleg til að hver og einn geti nýtt hæfileika sína til fulls samfélaginu öllu til góða,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

 

 


  • Barnið vex en bókin ekki - mynd úr myndasafni númer 1
  • Barnið vex en bókin ekki - mynd úr myndasafni númer 2
  • Barnið vex en bókin ekki - mynd úr myndasafni númer 3
  • Barnið vex en bókin ekki - mynd úr myndasafni númer 4
  • Barnið vex en bókin ekki - mynd úr myndasafni númer 5
  • Barnið vex en bókin ekki - mynd úr myndasafni númer 6
  • Barnið vex en bókin ekki - mynd úr myndasafni númer 7

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum