Hoppa yfir valmynd

Frétt

7. mars 2018 Forsætisráðuneytið

Áherslur úr ræðu ráðherra á jafnréttisþingi

Ásmundur Einar Daðason félags- og jafnréttismálaráðherra á jafnréttisþingi 2018 - myndvelferðarráðuneytið

Aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi, endurreisn fæðingarorlofskerfisins, launajafnrétti kynjanna og eftirfylgni með framkvæmd jafnlaunavottunar samkvæmt lögum voru  meðal þeirra efna sem Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra gerði að umtalsefni við upphaf jafnréttisþings í morgun þegar hann kynnti skýrslu sína um þróun jafnréttismála.

Ráðherra ræddi um sláandi frásagnir kvenna undir merkinu #metoo af kynferðislegu, andlegu og líkamlegu ofbeldi sem þær hafa sætt og lagði áherslu á að þeirri umræðu sé ekki lokið. Metoo sögurnar lýstu valdakerfi sem við yrðum öll að sameinast um að breyta: „Samfélagið ber allt tjón af og það tjón má mæla í krónum og aurum. Ofbeldið leiðir samkvæmt rannsóknum til lægri framleiðni á vinnustöðum, aukinnar starfsmannaveltu og þar af leiðandi til lægri vergar þjóðarframleiðslu og aukinna útgjalda vegna velferðarmála, heilsugæslu og lyfjakostnaðar“ sagði ráðherra meðal annars í ræðu sinni. Ráðherra þakkaði sérstaklega þeim erlendu konum sem hafa sýnt kjart til að rísa upp og lýsa kynbundnu ofbeldi, mismunun og niðurlægingu. Frásagnir þeirra væru mikilvæg áminning sem stjórnvöld hlustuðu á.

Ráðherra sagði fagnaðarefni að sjá niðurstöður rannsóknar Hagstofunnar og aðgerðahóps stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti sem sýni að launamunur kynjanna fari minnkandi frá ári til árs. Hann sagði ríkisstjórnina leggja mikla áherslu á jafnréttismál og hefði því skipað sérstaka ráðherranefnd til að tryggja að Ísland verði áfram fyrirmynd á alþjóðavettvangi þegar kemur að kynjajafnrétti. „Framtíðarsýn stjórnvalda er að vinna gegn hvers kyns mismunun og styrkja sérstaklega stöðu þeirra sem höllum fæti standa með því vinna að samþykki löggjafar um jafna meðferð einstaklinga og útvíkkun jafnréttisstarfsins.“ 

Fram kom í ræðu ráðherra að ríkisstjórnin hafi samþykkt tillögu um aukið fé til jafnréttismála svo styðja megi við framfylgni nýrra laga um jafnlaunavottun. Stjórnvöld muni á kjörtímabilinu beita sér fyrir aðgerðum gegn kynbundnu ofbeldi og tryggja að Istanbúlsáttmáli Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn konum og heimilisofbeldi verði fullgiltur.

Í lok ræðu sinnar sagði ráðherra að hann muni beita sér fyrir því að gerðar verði úrbætur á fæðingarorlofskerfinu svo tryggja megi börnum samvistir við báða foreldra sína: „Endurreisn fæðingarorlofsins er að mínu mati í raun stærsta jafnréttismálið á vinnumarkaði dagsins í dag.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum