Hoppa yfir valmynd

Frétt

15. mars 2018 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Grunnskólasamfélagið verður upplýst reglubundið um könnunarprófin

Rík áhersla verður lögð á upplýsingagjöf til nemenda, foreldra, kennara, skólastjórnenda, og annarra aðila sem tengjast grunnskólum, um útfærslu og framkvæmd könnunarprófanna sem haldin verða að nýju fyrir nemendur sem nú eru í 9. bekk. Vinna er þegar hafin innan mennta- og menningarmálaráðuneytis og Menntamálastofnunar til þess að fylgja eftir ákvörðun Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, frá því í gær um að veita nemendum val um að þreyta prófin aftur.

Síðdegis upplýsti Menntamálastofnun alla skólastjóra grunnskóla um næstu skref í málinu. Menntamálastofnun mun veita ítarlegar upplýsingar um fyrirkomulag nýrra prófa. Svör við helstu spurningum verða birt á vef og fésbók stofnunarinnar og haldnir verða upplýsingafundir sem aðgengilegir verða á netinu. Einnig mun þjónustuver stofnunarinnar veita upplýsingar í síma 514-7500.

Mennta- og menningarmálaráðuneyti mun einnig miðla upplýsingum um þau lagalegu atriði sem tengjast ákvörðun ráðherra en unnið er að eftirfarandi breytingum á reglugerðum:

  1. Breyting á reglugerð um innritun í framhaldsskóla til þess að niðurstöður úr samræmdum könnunarprófum verði ekki notaðar við mat á umsóknum nemenda um skólavist.
  2. Tímabundin breyting á reglugerð um framkvæmd og fyrirkomulag samræmdra könnunarprófa til að auka svigrúm fyrir val nemenda um próftöku og tímasetningu prófa.

Þá verða birt svör við helstu spurningum á sérstöku svæði á vef ráðuneytisins um réttarstöðu nemenda og lagalega stöðu samræmdra könnunarprófa. Fyrirspurnir um framangreind atriði er hægt að senda á netfangið [email protected].

,,Það er mikilvægt að tryggja markvissa eftirfylgni og upplýsingagjöf til grunnskólasamfélagsins og annarra hagsmunaaðila sem að málinu koma. Markmiðið er að tryggja farsæla framkvæmd könnunarprófanna sem nemendur kjósa að þreyta. Samvinna allra þeirra sem koma að menntamálum er lykilatriði til þess að bæta menntakerfið okkar og tryggja framþróun þess. Góð miðlun upplýsinga er mikilvægur liður í því verkefni,‘‘ sagði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum