Hoppa yfir valmynd

Frétt

5. apríl 2018 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra á ársfundi Veðurstofu Íslands 2018

Ágæta starfsfólk Veðurstofu Íslands og aðrir gestir,

Það er ánægjulegt að vera hér með ávarp á ársfundi ykkar. Ég heimsótti Veðurstofuna fyrir skömmu til að kynna mér starfsemi þessarar mikilvægu stofnunar, sem telst til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Veðurstofan er gamalgróin stofnun, sem heldur upp á aldarafmæli sitt bráðum, en það dylst engum sem hingað kemur að stofnunin lifir ekki á fornri frægð, heldur fylgist vel með nýjustu tækni og vísindum og setur markið hátt.

Náttúruvá er þema á þessum ársfundi, enda er það lykilstarfsemi Veðurstofunnar að vakta höfuðskepnurnar og búa íbúa landsins undir duttlunga þeirra. Þar hafa orðið margvíslegar framfarir á undanförnum árum, bæði í tækninni sem er notuð til að vakta vá og í aðferðafræði við mat á hættu. Það þarf ekki að fjölyrða um hversu mikilvægt slíkt er fyrir okkur Íslendinga, sem búum við fjölbreyttari ógnir af hendi náttúrunnar en flestar þjóðir.

Góðir gestir,

Ný ríkisstjórn tók til starfa í lok síðasta árs og sáttmáli flokkanna sem að henni standa er metnaðarfullur hvað umhverfismál varðar. Það á ekki síst við um loftslagsbreytingar af mannavöldum og baráttuna við að halda þeim í skefjum. Megináherslan er á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og markmið sett um kolefnishlutleysi árið 2040. Það er rétt áhersla – það er betra að koma í veg fyrir vandann en að bregðast við afleiðingunum.

Það er þó alveg ljóst að við munum ekki ná að koma í veg fyrir umtalsverða röskun á vistkerfum og samfélögum, eins þótt við náum að standa við markmið Parísarsamningsins. Við þurfum að laga okkur að breyttum aðstæðum. Veðurstofan gegnir þar miklu hlutverki. Hún er lykilstofnun hvað varðar rannsóknir og vöktun á loftslagsbreytingum, aðlögun og fræðslu. Ég vil fá að ræða stuttlega um þessa þætti.

Veðurstofunni hefur verið falið af ráðuneytinu að leiða vinnu við vísindalegar úttektir á afleiðingum loftslagsbreytinga á náttúrufar og samfélag á Íslandi. Nú er 3. skýrslan þess efnis á leiðinni og ég hlakka til að sjá hana síðar í þessum mánuði. Það er mikilvægt að hún fái góða kynningu og umræðu. Ég á von á að hún falli í frjóan jarðveg, þar sem áhugi og skilningur á loftslagsmálum hefur aukist mikið á Íslandi nú á síðustu misserum.

Skýrslan er þó ekki einungis hugsuð til upplýsingar, heldur einnig sem leiðsögn um þörf á frekari rannsóknum og hvernig við getum lagað okkur að breyttu loftslagi. Jöklar hopa, vatnafar breytist, sjávarstaða hækkar, sýrustig hafsins lækkar. Við þurfum að huga að þessum og öðrum þáttum við skipulagningu strandbyggðar, við hönnun hafna og samgöngumannvirkja og í áætlunum um orkuvinnslu og landbúnað. Ekki síst þurfum við að búa okkur undir að lífríki í hafinu kann að breytast verulega á komandi áratugum vegna hlýnunar og súrnunar. Veðurstofan hefur lagt til að svokallað Loftslagssetur innan stofnunarinnar hafi það hlutverk að leiðbeina varðandi aðlögun að loftslagsbreytingum. Ljóst er að í aðlögun felast áskoranir á fleiri sviðum en raungreina og mikilvægt er að taka félagslega þætti líka inn í þá vinnu. Ég tel að skoða þurfi hversu dreifð loftslagsmálin eru í stjórnkerfinu og hvernig megi bregðast við því. Tillaga Veðurstofunnar er afar þarft innlegg í þá umræðu. Ég vil einnig nefna að á næstu vikum mun Loftslagsráð verða stofnað og byggir á þingsályktunartillögu Katrínar Jakobsdóttur o.fl. frá árinu 2016 og stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Fræðsla um loftslagsbreytingar og afleiðingar þeirra er nauðsynleg – við þurfum öll að skilja þessa stærstu áskorun mannkyns á þessari öld og hvernig við getum brugðist við. Fyrir marga eru loftslagsbreytingar óáþreifanleg ógn – við sjáum ekki hæga þróun á meðalhita lofthjúpsins og enn síður súrnun sjávar. Hvert leitar fólk ef það vill sjá loftslagsbreytingar með eigin augum? Francois Hollande, forseti Frakklands, kom til Íslands til þess – hann heimsótti Sólheimajökul í aðdraganda Parísarfundarins 2015 og fékk þar kennslustund um hopun jökulsins. Jöklar Íslands eru lifandi kennslustofa í loftslagsbreytingum – en það er einmitt heiti á fræðsluverkefni sem Veðurstofan vinnur að ásamt Vatnajökulsþjóðgarði og fleirum. Ég vil sjá framhald á því verkefni. Nýr Miðhálendisþjóðgarður sem næði til stærstu jökla landsins gæti orðið einstakur vettvangur ekki aðeins til að njóta víðerna og villtrar náttúru – sem eru hverfandi á heimsvísu – heldur líka til að fræðast um helstu áskorun samtímans.

Góðir gestir,

Eitt helsta viðfangsefni stjórnmálanna og samfélagsins um þessar mundir er að bregðast við miklum straumi ferðamanna. Vöxturinn í ferðaþjónustu hefur verið meiri og hraðari en flestir bjuggust við og er í raun atvinnubylting. Það er forgangsmál ríkisstjórnarinnar að byggja upp innviði til að bregðast við þessari byltingu og styrkja um leið atvinnu, byggð og velferð Íslendinga. Uppbygging ferðamannastaða og aukin landvarsla er hluti af þessu verkefni – sérstök og fögur náttúra landsins er ekki bara arfleifð sem okkur ber skylda til að vernda heldur er hún undirstaða stærsta atvinnuvegar Íslendinga. Náttúruvernd er skynsamleg fjárfesting jafnt sem dyggð.

Þessi þróun skiptir máli varðandi starfsemi Veðurstofunnar og hlutverk hennar í öryggismálum. Hér hefur verið byggt upp gott starf í hættumati og vöktun á ofanflóðum, sem hefur skilað miklum árangri. Við erum langt komin í því starfi að verja byggð gegn ofanflóðum með varnarvirkjum og tímabundnum rýmingum þar sem þau eru enn ekki risin.

En hætta af náttúruhamförum er ekki bundin við byggð. Þúsundir ferðamanna, íslenskra sem erlendra, eru nú á faraldsfæti á öllum tíma árs. Viðbragðsáætlanir vegna eldgosa eða flóða þurfa að taka tillit til þess, ekki síður en að rýma hús á hættusvæðum. Vaxandi krafa er um mat á snjóflóðahættu á útivistarsvæðum. Þessu kynntist ég vel í heimsókn til Veðurstofunnar á Ísafirði í byrjun janúar sl. Hér er skortur á rannsóknum og vöktun, en mikilvægt er að miðla upplýsingum um veður og hættur til erlendra ferðamanna sem þekkja ekki til aðstæðna hér. Við þurfum að bregðast við breyttum aðstæðum hvað þetta varðar – það er ekki hægt að byggja upp undirstöður fyrir ferðaþjónustu án þess að huga að öryggisþættinum. Ég vil fara yfir þessi mál með Veðurstofunni og vinna að úrbótum.

Góðir gestir,

Ég hef dvalið hér við nokkur mál sem eru ofarlega í mínum huga og á verkefnalista ríkisstjórnarinnar og varða starfsemi Veðurstofunnar. Ég hef ekki tæpt á öðrum málum sem brenna á ykkur og ástæða er til að ræða. Tíminn leyfir enda ekki að ræða um öll viðfangsefni í ykkar margþættu starfsemi.

En ég vil ljúka máli mínu með því að þakka Veðurstofunni og starfsfólki hennar fyrir ykkar góða starf og ítreka að ég vil vinna með ykkur að framförum á öllum sviðum. Ég skynja að hér er öflugt starf og hugur í fólki og ég sé mörg færi til framfara. Við skulum nýta þau færi sem best.

Kærar þakkir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum