Hoppa yfir valmynd

Frétt

5. apríl 2018 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Mikilvægasta auðlind þjóðarinnar

Grein eftir Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, sem birtist fyrst í Fréttablaðinu 5. apríl 2018.
Öflugt menntakerfi er ein af undirstöðum kraftmikils og fjölbreytts efnahagslífs og stöðugleika. Sýnt er að menntun og rannsóknir styðja við lýðræði, gagnrýna og skapandi hugsun, sjálfbærni og þar með velferð. Háskólastigið gegnir lykilhlutverki í að efla rannsóknir og þróun í góðu samstarfi við atvinnulífið. Rannsóknir sýna að einni krónu sem fjárfest er í háskólastiginu skilar sér áttfalt til baka.

Starfsemi íslenskra háskóla hefur eflst á undanförnum árum, með auknu framboði náms á öllum skólastigum, aukinni rannsóknarstarfsemi og virku erlendu samstarfi. Auk kennslu og rannsókna innan skólanna styðja þeir við þekkingarstarfsemi af ýmsu tagi, tryggja menntun fagfólks fyrir íslenskt atvinnulíf, styðja við menningu og listir og stuðla að upplýstri samfélagsumræðu og nýsköpun.

Undanfarin ár hafa framlög til háskólastigsins verið aukin töluvert. Framlögin jukust til að mynda um 4,6% milli áranna 2017 og 2018. Nú þegar ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2019-2023 liggur fyrir má sjá að fjárveitingar til háskólastigins munu halda áfram að aukast. Heildarfjárheimildir til háskólastigsins hafa vaxið úr rúmlega 42,3 milljörðum kr. árið 2017 í 44,2 milljarða kr. á þessu ári. Áætlað er að fjárheimildirnar verði 47,2 milljarða kr. árið 2023, það er vöxtur upp á tæp 12% á tímabilinu.

Markmiðið með þessum auknu fjármunum er m.a. að við færumst nær fjármögnun háskóla í nágrannalöndunum. Innan skólanna fer hluti þessa fjár í að efla rannsóknir og þróun. Öflugt rannsóknarstarf er lykilþáttur í þekkingarsköpun í nútímasamfélagi; með því að ýta undir tengsl rannsókna í háskólum við nýsköpunarstarf og atvinnulíf má auka efnahagsleg áhrif háskólastarfs. Hvetjandi námsumhverfi og fjölbreyttir valkostir í starfs- og verknámi eru einnig mikilvægir.

Annað brýnt verkefni sem íslenskt menntakerfi stendur frammi fyrir nú er að endurskoða og efla kennaramenntun. Öflugt kennaranám í takt við þarfir samfélagsins stuðlar að þróun á öllum skólastigum en tryggja þarf að fjármagn sé til staðar til þess að hægt sé að snúa þar vörn í sókn. Það eru sannarlega spennandi tímar framundan í náms- og starfsþróun kennara, því þeir eru fólkið sem mun móta framtíð okkar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum