Hoppa yfir valmynd

Frétt

5. apríl 2018 Forsætisráðuneytið

Ræða Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra á ársfundi Seðlabankans 5. apríl 2018

Ágætu ársfundargestir.

I.

Ég ávarpa ykkur nú í fyrsta sinn sem forsætisráðherra en ég minnist hins vegar vel þeirra ársfunda sem ég sat hér sem mennta- og menningarmálaráðherra á erfiðum tímum eftirhrunsáranna. Það voru alvöruþrungnir fundir eins og vænta mátti en ég skynjaði þó vel þann létti sem mátti greina hér í matsal Seðlabankans þegar forsætisráðherra, formaður bankaráðs og seðlabankastjóri höfðu lokið máli sínu og tilkynnt var um að nú stæði til að þiggja veitingar. Því þegar allt kemur til alls þá er maður manns gaman. Tækifærið til að ræða landsins gagn og nauðsynjar í góðra manna og kvenna hópi er mikilvægt. Nú verður að koma í ljós hversu lengi ég stend á milli ykkar og veitinganna en ég hef þó hug á að gefa ykkur færi á góðum samræðum.

Það hljóta að teljast óróatímar í íslenskum stjórnmálum þegar fjórir forsætisráðherrar hafa setið í embætti á tveimur árum. Við hrunið stóðum við Íslendingar frammi fyrir tveimur meginverkefnum; að endurreisa efnahagslífið og að byggja upp traust. Fyrra verkefnið hefur gengið vonum framar en hið síðara hefur ekki gengið sem skyldi. Traust almennings á stjórnmálum og stofnunum samfélagsins er enn umtalsvert minna en fyrir áratug. Það er alvarleg staða fyrir lýðræðið og eitt af viðfangsefnum stjórnmálanna allra, að bregðast við þessari stöðu með því að læra af reynslunni, líta til alþjóðlegra viðmiðana um hagsmuni og siðareglur og bæta talsamband stjórnvalda og fjölmiðla.

Sáttmáli ríkisstjórnarinnar fjallar um leiðir til að ná fram félagslegum, efnahagslegum og pólitískum stöðugleika sem tryggir góð lífskjör til framtíðar fyrir venjulegt fólk. Heildarsamhengið er þetta. Til að tryggja hagfelld skilyrði þarf að huga að samspili helstu stoða efnahagsumhverfisins; peningastefnu, fjármálastefnu hins opinbera og vinnumarkaði. Hægt er að sýna fram á þetta samspil með einföldum dæmum:

• Árangur af framkvæmd peningastefnu ræðst að miklu leyti af því hvernig tekst til við fjármálastjórn hins opinbera.
• Trúverðug peningastefna gerir hinu opinbera auðveldara að móta og standa við áætlanir um tekjur og gjöld.
• Mikilvægt er að tryggja að hið opinbera og almenni vinnumarkaðurinn séu í virku samtali við kjarasamningagerð.
• Til að almennar væntingar um verðlag haldist stöðugar er nauðsynlegt að miðlægir kjarasamningar taki mið af þróun og horfum í efnahagsmálum.
• Hafi aðilar vinnumarkaðarins ekki trú á skilvirkni peningastefnu og ríkisfjármálastefnu er líklegt að það skapi aukna ólgu á vinnumarkaði.

Allt ber þetta að sama brunni. Það þurfa allir að taka ábyrgð og huga að hinu viðkvæma jafnvægi.

II.

Tökum til dæmis stöðuna á vinnumarkaði. Vinnumarkaðurinn telst ekki til ytri, óbreytanlegra þátta hagstjórnar. Hann er mannanna verk sem við getum haft áhrif á. Hann er mikilvægur hlekkur í þessu flókna samspili peningastefnu Seðlabankans, fjármálastefnu hins opinbera og kjarastefnu á vinnumarkaði sem að lokum ræður miklu um það hvernig okkur reiðir af í efnahagsmálum og hvaða lífskjör, og dreifingu þeirra, þegnar landsins njóta.

Núverandi staða á vinnumarkaði byggist á langvarandi togstreitu og samskiptaleysi, sér í lagi á milli síðustu ríkisstjórna og launþegahreyfingarinnar. Traust hefur skort. Stjórnmálamenn, atvinnurekendur og verkalýðsforystan verða að geta átt hreinskiptin samtöl en jafnframt að þekkja sín mörk. Stjórnmálamenn eru ekki kosnir til að semja um kaup og kjör á almennum vinnumarkaði heldur til að skapa umgjörð og deila opinberum gæðum til þegnanna. Hið öfuga gildir um forystumenn á vinnumarkaði.

Mér er minnisstætt þegar norrænn vinnumarkaðsfræðimaður útskýrði fyrir stjórnmálamönnum og vinnumarkaðnum á fundi fyrir nokkrum árum hina stöðugu umgjörð um kaup og kjör sem Norðurlöndin, að Íslandi frátöldu, hafa að jafnaði búið við á undanförnum áratugum. Spurður að hvernig hægt væri að koma í veg fyrir höfrungahlaup einstakra stétta á vinnumarkaði varð fátt um svör. Hann skildi ekki spurninguna. Sú staða var honum framandi að einstakar stéttir komi hver á fætur annarri með kröfur, sem virðast eðlilegar og njóta almenns stuðnings þegar þær eru skoðaðar einar og sér en skekkja á hinn bóginn hið viðkvæma samband á milli hinna ólíku stoða hagstjórnar og geta til lakari niðurstöðu fyrir heildina.

Það er hins vegar skiljanlegt að ólga ríki meðal félagsmanna verkalýðshreyfingarinnar, sem jafnframt eru meirihluti kjósenda, vegna til að mynda velferðar- og húsnæðiskerfa sem uppfylla ekki miklar væntingar nútímamannsins. Verkalýðsfélög eru og eiga að vera virk lýðræðisöfl þar sem tekist er á um hvaða stefna leiði til framtíðar til mestrar velsældar fyrir félagsmenn. Það er jákvætt og heilbrigt að tekist sé á um hvaða kúrs skuli taka og það er mikilvægt að velta því fyrir sér hvernig við tryggjum sem best sátt í samfélaginu, til dæmis hvernig við tryggjum þann jöfnuð sem þarf til að tryggja þessa sátt. Hversu mikið á launabilið að vera? Og hvaðan sprettur ójöfnuðurinn? Er það frá launamuninum eða mismunandi eignastöðu fólks eins og bent hefur verið á að sé raunveruleg uppspretta ójafnaðar víðast hvar annars staðar? Og hvernig verður best tekist á við ójöfnuð? Er það einkamál stjórnvalda í gegnum velferðarkerfi og skattkerfi eða eiga atvinnurekendur og verkalýðshreyfing að taka þátt í því?

Þess vegna legg ég á það mikla áherslu að launþegahreyfingin taki þátt í samtalinu við stjórnvöld. Kröfur launþegahreyfingarinnar byggjast ekki síður á bættu velferðarkerfi, sem er á forræði stjórnmálanna, en hærri launum. Ríkisstjórnin hefur lýst yfir vilja til að eiga viðræður um breytingar á tekjuskattskerfi, tryggingagjaldi og vinnumarkaðstengdum réttindum í samtali við aðila vinnumarkaðarins. Við viljum hlusta og taka mark á því sem aðilar vinnumarkaðarins segja og finna í sameiningu bestu leiðina.

III.

Góðir áheyrendur.

Það er eðlilegt að það standi styr um skiptingu kökunnar nú þegar kakan hefur stækkað. Kakan hefur ekki síst stækkað út af vexti ferðaþjónustunnar. Samsetning útflutningstekna okkar hefur gjörbreyst með þessari hröðu þróun sem og uppbygging hagkerfisins. Þjónustuútflutningur ferðamennsku yfirgnæfir nú vöruútflutning þeirra tveggja atvinnugreina sem hafa lengi verið meginstoðir hagkerfisins, sjávarútvegs og stóriðju. Hlutfall sjávarútvegs í útflutningi nam aðeins um 16% á síðasta ári en sú grein gnæfði lengstum yfir aðrar atvinnugreinar í útflutningstekjum. Ferðaþjónusta er hins vegar komin á fornar slóðir sjávarútvegs í útflutningstekjum. Þetta eru mikil viðbrigði.

Vöxtur ferðaþjónustunnar kom á besta mögulega tíma fyrir hagkerfið og á stóran þátt í góðum árangri Íslendinga í efnahagsmálum á undanförnum árum. Huga þarf þó að ruðningsáhrifum greinarinnar á aðra atvinnuvegi, líkt og með sjávarútveginn áður. Framleiðsla sjávarafurða takmarkast af sjálfbærni nýtingu fiskistofna og á sama tíma takmarkast útflutt ferðaþjónusta, til lengri tíma, af sjálfbærri nýtingu ferðamannastaða og íslenskrar náttúru.

IV.

Í gær var fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára kynnt. Hún byggir á fjármálastefnu sem samþykkt var á Alþingi í síðasta mánuði. Nýsamþykkt fjármálastefna lýsir góðri stöðu opinberra fjármála. Á sama tíma stöndum við frammi fyrir ákveðnum áskorunum sem felast í því að hagvöxtur hefur gefið hraðar eftir en opinberar spár gerðu ráð fyrir og þá er rétt að ríkið komi með innspýtingu til að skapa viðspyrnu í hagkerfinu. Í áætluninni er gert ráð fyrir að heildarafkoma hins opinbera, að meðtöldum opinberum fyrirtækjum, verði 3% í afgang á hverju ári á fimm ára tímabili stefnunnar. Tekið er mið af ástandi í þjóðarbúskapnum. Þannig er afkoma A-hluta ríkissjóðs best þegar mikil þensla ríkir í þjóðarbúskapnum og fer svo lækkandi enda mikil þörf á að bæta samfélagsinnviði. Það er líka mjög jákvætt að sveitarfélög taka meiri þátt en áður í þessu nýja opinbera fjármálaferli og hafa sem heild skuldbundið sig til að sýna jákvæða afkomu sem svara til 0,2% af landsframleiðslu. Á sama tíma eru áform um umtalsverða lækkun skulda hins opinbera á tímabilinu.

Tillaga til þingsályktunar um fjármálaáætlun er sett fram á grunni hinnar nýju fjármálastefnu. Í henni endurspeglast áherslur ríkisstjórnarinnar eins og þær koma fram í stefnuyfirlýsingu hennar. Þar kemur fram sá ásetningur að samfélagið allt njóti góðs af yfirstandandi hagvaxtarskeiði og að treysta til framtíðar samfélagslegan stöðugleika og lífsgæði.

Fjármálaáætlunin byggist á því að nýta það svigrúm sem hefur skapast vegna lækkunar skulda og vaxtagreiðslna til að byggja upp innviði, sér í lagi í samgöngum og til að auka framlög til rekstrar heilbrigðismála, félags-, húsnæðis- og tryggingamála, mennta- og menningarmála, umhverfismála og almanna- og réttaröryggis. Þessu til viðbótar er gert ráð fyrir lækkun á tekjuskatti og tryggingagjaldi en umhverfisskattar og gjöld á ferðamenn verða hækkuð. Þó að hagvöxtur fari minnkandi er hann áfram góður en minnkandi vöxtur skapar eins og áður segitr tækifæri fyrir hið opinbera til að koma með innspýtingu í opinbera fjárfestingu og rekstur.

Fjármálaáætlun er ætlað að sýna hinar breiðu línur byggðar á fyrirliggjandi forsendum. Hún verður aldrei fullkomin, frekar en önnur mannanna verk, og hún svarar ekki öllum spurningum enda stór verkefni framundan, s.s. samtal við aðila vinnumarkaðarins um breytingar á tekjuskattkerfinu, samtal við örorkulífeyrisþega um hvernig sé best að nýta það svigrúm sem ætlað er til að bæta kjör þeirra og svo mætti áfram telja. Við vitum ekki heldur hvernig ytri aðstæður munu þróast. Það eru viðsjárverðar aðstæður í alþjóðamálum. Við erum mjög háð alþjóðlegum sveiflum og mörkuðum. Við vitum ekki hvaða verð við fáum fyrir afurðir okkar. Það er því svo sannarlega ekki öruggt að við munum búa við gæfuríkar aðstæður í efnahagsmálum á fimm ára tímabili fjármálaáætlunarinnar.

V.

Þriðja stoðin í samspili hinna ólíka þátt í umgjörð hagstjórnar er peningastefnan. Vænta má að seðlabankastjóri láti ekki það tækifæri sér úr greipum ganga að fara vandlega yfir framkvæmd hennar hér á eftir. Það sem að mér og stjórnmálunum snýr er hins vegar ramminn utan um peningastefnuna.

Nefnd um endurskoðun á ramma peningastefnunnar hefur verið að störfum í um eitt ár. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að nefndin muni ljúka störfum og í kjölfarið gerðar nauðsynlegar breytingar á ramma stefnunnar. Vinna nefndarinnar verður kynnt í byrjun júní.

Markmið endurskoðunarinnar er að finna þann ramma peninga- og gengisstefnu sem til lengri tíma litið er heppilegastur til að styðja við efnahagslegan og fjármálalegan stöðugleika. Endurskoðunin gengur út frá þeirri forsendu að krónan verði í næstu framtíð gjaldmiðill Íslendinga. Miðað verður við að fjármagnshreyfingar til og frá landinu verði eins frjálsar og kostur er og í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar.

Það er góður tímapunktur að fara í þessa vinnu nú og hugleiða hvað megi betur fara. Verðbólgumarkmiðið er jafngamalt öldinni og lítill tími hefur gefist í hamagangi síðasta áratugar að velta vöngum yfir peningastefnu til lengri tíma.

Rétt er þó að hafa í huga að það er engin töfraformúla til sem jafnar sveiflur og viðheldur stöðugleika. Mögulegar lausnir á hluta vandans skapa nýjar áskoranir og ógnanir á öðrum sviðum.

Ég hyggst taka niðurstöður nefndarinnar til gaumgæfilegrar skoðunar í sumar og vonast eftir frjórri umræðu um peningastefnu í kjölfar tillagna hennar. Jafnframt hyggst ég vinna að endurskoðun laga um seðlabanka og stefni að framlagningu frumvarps um það efni á komandi hausti.

Að lokum vil ég þakka bankaráði Seðlabankans, seðlabankastjóra, aðstoðarseðlabankastjóra og öðrum starfsmönnum bankans fyrir vel unnin störf. Það hefur oft staðið styr um bankann og sitt sýnist hverjum um störf hans. Það sýnir fyrst og fremst hvað stjórnun peningastefnunnar er mikilvægt og vandasamt tæki. Erfitt er að draga aðra ályktun en að Seðlabankinn eigi sinn þátt í því hagvöxtur er hér með ágætum en þó ekki á yfirsnúningi, verðbólga er hófleg, erlend staða þjóðarbúsins afar góð og langvarandi afgangur hefur verið á viðskiptajöfnuði. Almennt er staða efnahagsmála afar góð þó hættur leynist víða.

Takk fyrir


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum