Hoppa yfir valmynd

Frétt

5. apríl 2018 Innviðaráðuneytið

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra ávarpaði aðalfund Isavia

Sigurður Ingi Jóhannsson flutti ávarp á aðalfundi Isavia í dag. - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, flutti í dag ávarp við upphaf aðalfundar Isavia sem haldinn var í Reykjavík. Fram kom meðal annars í máli hans að samkvæmt fjármálaáætlun næstu ára verður auknu fé varið til viðhalds flugvalla en á liðnum árum. Einnig sagði ráðherra að nú væri að hefjast mótun fyrstu flugstefnu á Íslandi sem muni taka á öllum þáttum í flugstarfsemi.

Á aðalfundi Isavia flutti Ingimundur Sigurpálsson stjórnarformaður skýrslu stjórnar og lögð var fram árs- og samfélagsskýrsla fyrirtækisins sem hefur að geyma yfirlit yfir starfsemina, ávarp stjórnarformanns, greinargerð um úrbætur árið 2017 og markmið ársins 2018 og ýmislegt fleira. Fram kemur í skýrslunni að farþegafjöldi sem fer um Keflavíkurflugvöll var á síðasta ári fjórum sinnum meiri en á stofnárinu 2010 og að flugumferð um íslenska flugstjórnarsvæðið hefur aukist um 81% á sama tíma en umferð um innanlandsflugvellina hefur aukist um 4,5%.

Sjá má nánar um aðalfundinn á vef Isavia.

Í ávarpi sínu sagði samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra einnig að Isavia væri líklega það fyrirtæki landsins sem veitti fleiri einstaklingum þjónustu en nokkurt annað fyrirtæki. Hún færi ekki aðeins fram á Keflavíkurflugvelli heldur væri einnig á sviði flugleiðsögu, bæði fyrir íslenska flugumferð og alþjóðlega flugumferð um íslenska flugstjórnarsvæðið. Hann sagði flugsamgöngur skipta Íslendinga miklu og væri millilandaflug íslenskra flugfélaga og vaxandi hlutdeild erlendra flugfélaga undirstaða ferðaþjónustunnar í landinu.

„Fjöldi ferðamanna til landsins ýtir undir að flugrekstur hefur færst í aukana sem sjá má á auknum umsvifum á Keflavíkurflugvelli. Það er einkar ánægjulegt og hefur jákvæðan efnahagslegan ávinning í för með sér. Fjöldi áfangastaða og tíðni flugferða hefur aldrei verið meiri og er Keflavíkurflugvöllur þungamiðjan sem eykur möguleika Íslendinga á beinu flugi til og frá landinu,“ sagði ráðherra ennfremur.

Aukið fé til viðhalds innanlandsflugvalla

Fram kom í máli ráðherra að erfitt væri að tryggja rekstrargrundvöll flugvallakerfisins í landinu, viðhald og nýframkvæmdir hefðu setið á hakanum og lendingarstöðum verið lokað. Sagði hann að þeirri þróun yrði að snúa við og sagði hann góðu fréttirnar þær að samkvæmt fjármálaáætlun yrði auknu fjármagni veitt til viðhalds flugvalla en verið hefði á liðnum árum.

Þá nefndi ráðherra að í stjórnarsáttmálanum væri skýrt kveðið á um að unnið verði í því að gera innanlandsflugið að hagkvæmari kosti fyrir íbúa landsbyggðanna. Innanlandsflug þurfi að vera mikilvægari hluti af almenningssamgöngum sem tengja þurfi betur við alla landshluta og verða hagkvæmari kostur fyrir íbúa landsbyggðanna. „Þar spilar rekstur innanlandsflugvalla stórt hlutverk. Starfshópur undir forystu Njáls Trausta Friðbertssonar alþingismanns er nú að ljúka störfum en hann hefur það meginhlutverk að finna leiðir til að ná fram hagkvæmari rekstri á innanlandsflugi og skilvirkari rekstri flugvalla sem leiði til lægri flugfargjalda. Samgönguráðuneytið vinnur nú úr þeim hugmyndum sem settar hafa verið fram og geta komið til greina sem innlegg að eigendastefnu Isavia,“ sagði ráðherra.

Þurfum að stefna að sameiginlegu markmiði

Um þetta sagði hann nánar: „Mikilvægt er að við töpum ekki sjónar á markmiðinu, hvert er stefnt. Með markvissu átaki og hvatakerfi tókst að fjölga farþegum utan sumartíma. Á sama hátt eigum við að sameinast um að setja markmið um að fjölga farþegum í innanlandsflugi.

Notendur, flugrekendur og flugvallarekendur verða að hafa sameiginlega hvata og hagsmuni af fluginu. Meðal hugmyndanna er að alþjóðaflugvellir landsins yrðu felldir undir umsjón Isavia og geti til lengri tíma orðið fjárhagslega sjálfbærir og notið góðs af fjárhagslegum styrk félagsins sem hefur þekkingu og trú á rekstrinum.

Slíkt samtal þarf að eiga sér stað með fulltrúum Isavia, hvernig hægt er að fjölga ferðamönnum sem notfæra sér innanlandsflugvelli landsins sem styðji við rekstrargrunn þeirra.

Hvatarnir þurfa að vera sameiginlegir og þurfa flugvallarekendur og flugrekendur að stefna að sameiginlegu markmiði.

Ef af verður mætti t.d. hugsa sér að ríkið og einkageirinn komi saman að þessari þróun með ýmsum hætti sem tengjast rekstri eða fjárfestingarframlögum.

Fyrir almenning þurfa flugfargjöld að lækka svo innanlandsflug verði raunhæfur valkostur. Ég hef talað fyrir því að fara svipaða leið og Skotar hafa farið til að greiða niður farmiðakaup íbúa á landsbyggðinni.

Vandamálið er hins vegar að samkeppni á flugleiðum innanlands er ekki nægjanleg og krefst meira aðhalds í verðmyndun á fargjöldum. Við verðum að finna leiðir að ásættanlegri lausn sem kæmi ekki aðeins íbúum svæðanna til góða heldur einnig atvinnulífinu, ekki hvað síst ferðaþjónustunni.

Áskorunin er að auka flugumferð til að efla samgöngur á milli landsbyggða og höfuðborgarsvæðisins og jafna aðgengi íbúa landsins að grunnþjónustu s.s. heilbrigðisþjónustu. Þar gegnir Reykjavíkurflugvöllur mikilvægu hlutverki sem einn af tengipunktum landsbyggðar við þessa þjónustu.“

Fram kom einnig í máli ráðherra að starfshópur myndi brátt skila niðurstöðum sínum um endurbætur á aðstöðu fyrir farþega og þjónustuaðila á Reykjavíkurflugvelli. Í starfshópnum sitja fulltrúar Reykjavíkurborgar, Isavia, fjármálaráðuneytisins og samgönguráðuneytisins sem hafa velt upp möguleikum um staðsetningu á nýrri flugstöð til að bæta aðstöðuna fyrir notendur.

Lokaorð ráðherra voru þessi: „Það er einkar ánægjulegt að sjá hve vel hefur verið staðið að áætlunum og fjármögnun á fyrirhugaðri uppbyggingu og endurnýjun á núverandi mannvirkjum til að auka afkastagetu Keflavíkurflugvallar og mæta aukinni aðsókn farþega. Mig langar að nýta tækifærið og óska Isavia og starfsmönnum þess til hamingju með góðan árangur undanfarin ár.“

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum