Hoppa yfir valmynd

Frétt

9. apríl 2018 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Virðisaukaskattur á bækur verður afnuminn 2019

Grein eftir Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra sem birtist fyrst í Morgunblaðinu mánudaginn 9. apríl.

Bókmenntir eru samofnar íslenskri sögu og menningu. Í samanburði við aðrar þjóðir Norður-Evrópu reis íslensk bókagerð hátt á miðöldum og afreksverk þeirra tíma eru enn ríkur þáttur í sjálfsvitund Íslendinga. Lestur bóka er snar þáttur í mótun málþroska barna og þær gegna lykilhlutverki í menntakerfinu. Ein af þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir sem þjóð er að svo virðist sem almennu læsi fari hrakandi. Sem mennta- og menningarmálaráðherra hef ég lagt ríka áherslu á að snúa vörn í sókn í þeim efnum en mikil vinna hefur þegar átt sér stað til þess að bregðast þessari þróun.

Einn af þeim þáttum sem horfa þarf til eru rekstrarskilyrði bókaútgefanda, enda óumdeilt að íslensk bókaútgáfa leggur mikið af mörkum til menningar og læsis í landinu.
Bókaútgefendur eru fjölbreyttur hópur og á ári hverju gefa um 500 mismunandi útgefendur út bækur hér á landi. Flestir gefa aðeins út eina bók, eða 70% þeirra, um 20% útgefenda gefa út 2−5 bækur árlega, en um 50 útgefendur gefa fleiri en 5 bækur út árlega. Langflest bókaforlögin eru því smá í sniðum og hafa ekki haft tækifæri til að byggja upp sterka eiginfjárstöðu. Að auki hefur bóksala dregist verulega saman undanfarin ár. Þegar slíkar aðstæður eru komnar upp á viðkvæmum vettvangi íslenskrar tungu ber stjórnvöldum að nýta stjórnvaldstæki sín, eins og skattkerfið, og bregðast við.

Það ætlar ríkisstjórnin að gera með því að afnema virðisaukaskatt á bækur frá og með ársbyrjun 2019, líkt og fram kemur í ríkisfjármálaáætlun 2019-2023. Með þeirri aðgerð fylgjum við í fótspor Noregs, Færeyja, Bretlands, Írlands og Úkraínu sem hafa afnumið virðisaukaskatt á bókum til að efla læsi og styðja við menningu sína og tungu. Í þessari aðgerð felast tækifæri fyrir íslenska bókaútgefendur til að sækja fram að nýju og taka vaxandi þátt í að auka áhuga á lestri þannig að Ísland verði áfram bókaþjóð í fremstu röð, þá ekki síst með aukinni útgáfu vandaðra barna- og unglingabóka sem höfða til upprennandi lestrarhesta framtíðarinnar. 

Læsi og lesskilningur eru lykilþættir þegar kemur að öflugum og skapandi mannauði sem drífur áfram samkeppnisfærni þjóða til framtíðar. Þar ætlum við Íslendingar að skipa okkur á fremsta bekk og vera í fararbroddi þegar kemur að góðum lífsgæðum og blómlegri menningu. Afnám virðisaukaskatts á bækur er mikilvægur áfangi á þeirri leið.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum