Hoppa yfir valmynd

Frétt

10. apríl 2018 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Húsfyllir á málþingi um Árósasamninginn

Jonas Ebbesson, formaður eftirlitsnefndar Árósasamningsins, var aðalgestur málþingsins - mynd

Árósasamninginn og reynslan af honum þau sjö ár sem samningurinn hefur verið í gildi hér á landi var til umræðu á málþingi sem umhverfis- og auðlindaráðuneytið stóð fyrir á dögunum. Húsfyllir var á málþinginu en aðalgestur þess var formaður eftirlitsnefndar Árósasamningsins, Jonas Ebbesson.

Árósasamningurinn var fullgiltur á Íslandi 2011 en samningurinn leggur skyldur á aðildarríkin að tryggja almenningi aðgengi að upplýsingum um umhverfismál, að geta haft áhrif á ákvarðanatöku sem snertir umhverfið og geta borið ákvarðanir er snerta umhverfið undir óháða úrskurðaraðila.

Aðalgestur málþingsins var Jonas Ebbesson, formaður eftirlitsnefndar Árósasamningsins og prófessor við lagadeild Stokkhólmsháskóla. Hann fjallaði m.a. í erindi sínu almennt um þau mikilvægu réttindi sem Árósasamningnum er ætlað að tryggja. Þá sagði hann frá starfi eftirlitsnefndarinnar og hvernig starfi hennar er háttað og tók dæmi af því hvernig ríki hafa talist hafa brotið á samningnum að mati nefndarinnar.

 

 

Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, forstjóri Skipulagsstofnunar, fjallaði í sínu erindi m.a. um þátttökuréttindi almennings í málum er varða skipulag og mat á umhverfisáhrifum. Sverrir Jan Norðfjörð, framkvæmdarstjóri þróunar- og tæknisviðs Landsnets, fjallaði m.a. um mikilvægi upplýsingagjafar og samráðs við almenning í framkvæmdum er hafa áhrif á umhverfið. Nanna Magnadóttir, formaður og forstöðumaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, greindi m.a. frá starfi nefndarinnar og þróun mála fyrir nefndinni undanfarin ár. Helga Ögmundardóttir, stjórnarmaður í Landvernd, ræddi meðal annars mikilvægi réttinda almennings til að hafa áhrif í umhverfismálum og fjallaði um þau atriði sem Landvernd telur að betur mætti fara sem varða innleiðingu Árósasamningsins hérlendis. Loks velti Aðalheiður Jóhannsdóttir, prófessor og deildarforseti lagadeildar Háskóla Íslands, upp þeirri spurningu hvort innleiðingu Árósasamningsins væri einhvern tímann lokið og svaraði því til að svo væri ekki. Líflegar umræður sköpuðust í pallborðsumræðum í lok þingsins.

Auk fyrirlesara ávörpuðu Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og Sigríður Andersen, dómsmálaráðherra, málþingið, sem jafnframt var streymt í beinni útsendingu á Facebook.

Málþingsstjóri var Sigríður Auður Arnardóttir, ráðuneytisstjóri umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.

Glærukynningar og ræður frá málþinginu

  • Ávarp – Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra
  • The UNECE Aarhus Convention: A unique treaty for environmental rights with a unique Compliance Committee – Jonas Ebbesson, formaður eftirlitsnefndar Árósasamningsins GLÆRUR (pdf)
  • Að fóta sig í þátttökustiganum – Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, forstjóri Skipulagsstofnunar GLÆRUR
  • Orð eru til alls fyrst – Sverrir Jan Norðfjörð, framkvæmdarstjóri þróunar- og tæknisviðs Landsnets GLÆRUR (pdf)
  • Hver er reynslan af kæruleiðinni? – Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála GLÆRUR
  • Hlutverk umhverfisverndarsamtaka og hagsmunir almennings í lýðræðisríki – Helga Ögmundardóttir, lektor í mannfræði og stjórnarkona í Landvernd GLÆRUR
  • Er innleiðingu Árósasamningsins einhvern tíma lokið? – Aðalheiður Jóhannsdóttir, prófessor og deildarforseti lagadeildar Háskóla Íslands GLÆRUR
  • Ávarp – Sigríður Andersen, dómsmálaráðherra

 

Frá pallborðsumræðum í lok málþingsins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum