Hoppa yfir valmynd

Frétt

14. apríl 2018 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Menntun fyrir alla: næstu skref

Víðtækt samstarf hefur verið milli ríkis og sveitarfélaga og annarra hagsmunaaðila skólasamfélagsins um menntun fyrir alla. Sú menntastefna var lögfest hér á landi árið 2008 og er það markmið aðalnámskráa leik- , grunn- og framhaldsskóla að stuðla að þroska allra nemenda og virkri þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi með því að bjóða hverjum nemenda nám við hæfi. Í framhaldi af viðamikilli úttekt á framkvæmd stefnu um menntun fyrir alla (áður menntun án aðgreiningar) er komið að næstu skrefum er styðja munu við langtímaþróun menntastefnu á Íslandi.

Í stýrihópi sem fylgt hefur úttektinni eftir sitja fulltrúar mennta- og menningarmálaráðuneytis, velferðarráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Kennarasambands Íslands, Skólameistarafélags Íslands og Heimilis og skóla. Í ágúst 2017 samþykkti þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra tillögur stýrihópsins um aðgerðir til loka árs 2019 og hefur verið unnið að þeim.

Föstudaginn 13. apríl komu tveir fulltrúar til viðbótar að borðinu en Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, taldi mikilvægt að í hópinn bættust fulltrúar úr ráðuneyti samgöngu- og sveitarstjórnarmála vegna þeirra málefna sem heyra þar undir ásamt fulltrúa kennaramenntunar í landinu. Samstarfsyfirlýsingin var því endurnýjuð þar sem eftirtaldir aðilar eða fulltrúar þeirra: mennta- og menningarmálaráðherra, félags- og jafnréttismálaráðherra, heilbrigðisráðherra, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, formaður Kennarasambands Íslands, formaður Heimilis og skóla, formaður Skólameistarafélags Íslands og rektor Háskóla Íslands fyrir hönd kennaramenntunarstofnana, undirrituðu yfirlýsingu um áframhaldandi samstarf á þessu sviði.

„Meðal helstu styrkleika íslenska menntakerfisins samkvæmt úttekt Evrópumiðstöðvarinnar frá 2015 er að það hvílir á sterkum grunni laga og stefnumótunar er varða réttindi nemenda. Við vitum þó að mörg verkefni eru þó enn óunnin, en besti árangurinn mun nást með góðri samvinnu,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Aukinheldur opnaði mennta- og menningarmálaráðherra vefssíðuna menntunfyriralla.is, sem hýsa mun upplýsingar um málefnið og fleira gagnlegt.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum