Hoppa yfir valmynd

Frétt

17. apríl 2018 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Ráðherra á alþjóðlegri ráðstefnu menntaleiðtoga

Kennarasamtökin uLead í Kanada standa árlega fyrir fjölmennri ráðstefnu forystufólks í menntamálum í Banff í Alberta-fylki. Þar gefst einstakt tækifæri til að hlýða á og taka þátt í umræðum með helstu fræðimönnum heims á sviði stefnumótunar í skólum. Að þessu sinni taka um 1200 manns þátt í ráðstefnunni, frá Kanada, Evrópulöndum, Ástralíu og Nýja-Sjálandi og frá Íslandi er þar hópur fagfólks og fræðimanna; grunnskólastjórar og fulltrúar frá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar, félagar frá Kennarasambandi Íslands og fulltrúar menntavísindasviðs Háskóla Íslands og mennta- og menningarmálaráðuneytis.

Mikilvægi kennara sem hreyfiafls framfara í menntamálum var til umræðu í pallborði sem Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra tók þátt í ásamt menntamálaráðherra Alberta-fylkis, David Eggen, og öðrum stjórnmálamönnum. Til umræðu voru námskrárþróun og hlutverk kennara í þeim málaflokki. Ráðherra gerði grein fyrir gerð aðalnámskrár leik-, grunn- og framhaldsskóla á Íslandi og fór sérstaklega yfir áherslu á grunnþætti menntunar sem þar er sett fram fyrir öll skólastig. Einnig ræddi hún mikilvægi þess að námskrár væru lifandi stefnuskjöl sem þyrfti að endurskoða reglulega í ljósi örra samfélagsbreytinga og tækniframfara. „Það er brýnt að gerð og framfylgni námskráa sé unnin í góðu samstarfi við skólasamfélagið og um leið sé eining um lykilþætti hennar í samfélaginu öllu,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra. Mikill samhljómur var í máli þátttakenda um að menntun væri öflugasta tækið til að stuðla að jöfnuði og styrkja stoðir lýðræðis og borgaravitundar og að kennarar og skólasamfélög væru mikilvægasta hreyfiaflið í framförum í menntamálum.

Að auki áttu menntamálaráðherrarnir tvíhliða fund. Til umræðu þar var meðal annars hvaða færni nemendur þurfa að búa yfir til að mæta þeim tækifærum sem felast í tæknibyltingum. Einnig var staða kennarans til umræðu og hvernig efla megi umgjörð skólastarfs í því samhengi. Að lokum voru málefni barna af erlendum uppruna rædd og hvaða leiðir séu fyrir hendi til að styrkja stöðu þeirra í skólakerfum beggja ríkja.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum