Hoppa yfir valmynd

Frétt

7. maí 2018 Utanríkisráðuneytið

Sjöunda Heimsmarkmiðið í hættu ef fram fer sem horfir

Þrátt fyrir töluverðan framgang undanfarin ár mun alþjóðasamfélagið ekki ná Heimsmarkmiði 7 um sjálfbæra orku fyrir árið 2030 ef fram fer sem horfir. Þetta kom fram á alþjóðlegri ráðstefnu um sjálfbæra orku í Lissabon í Portúgal þar sem skýrslan Tracking SDG7: The Energy Progress Report var kynnt.

Á ráðstefnunni komu saman yfir 800 einstaklingar úr atvinnulífinu, opinbera geiranum og borgarasamfélaginu og ræddu aðferðir til að auka aðgengi að rafmagni, heilnæmum orkugjöfum við eldamennsku, hlut endurnýjanlegra orkugjafa og orkunýtingu.

Aðgangur að heilnæmum orkugjöfum við eldamennsku hefur því miður ekki aukist nægilega hratt á heimsvísu og um 40% nota enn mengandi eldsneyti við eldamennsku. Um fjórar milljónir einstaklinga deyja á hverju ári af völdum loftsmengunar á heimilum, einkum börn og konur. Enn hefur um einn milljarður einstaklinga ekki aðgang að rafmagni, 600 miljónir þeirra í Afríku. Vivien Foster frá Alþjóðabankanum sagði að það réðist í Afríku hvort sigur ynnist í baráttunni gegn orkufátækt eða ekki. Góður fréttirnar væru þær að loks væri útbreiðsla rafmagns hraðari en fólksfjölgun í Afríku.

Fréttir frá Íslandi vekja athygli

Á ráðstefnunni var lögð mikil áhersla á kynjajafnrétti og var kynnt ný skýrsla um aðgang kvenna að sjálfbærri orku. Bendir skýrslan til þess að konur hafi færri tækifæri en karlmenn þegar kemur að aðgengi að orku og eru í meiri hættu að vera skildar eftir þegar sjálfbærar orkulausnir breiðast út um Afríku og víðar.

Bjarni Bjarnason framkvæmdastjóri Orkuveitu Reykjavíkur var einn af fjórum sem átti lokaorðin á ráðstefnunni. Þar sagði hann frá árangri OR á sviði kynjajafnréttis, þar á meðal að allur óútskýrður kynbundinn launamunur heyrði nú sögunni til hjá stofnuninni. Vakti þetta mikla og jákvæða athygli meðal ráðstefnugesta.

Á myndinni hér fyrir neðan má sjá Bjarna Bjarnason framkvæmdastjóri Orkuveitu Reykjavíkur ræða við Rachel Kyte framkvæmdastjóra SEforAll og Hajia Alima Mahama ráðherra sveitastjórnar- og þróunarmála í Gana.

Fréttir af ráðstefnunni
  • $alt
  • $alt

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

7. Sjálfbær orka

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum