Hoppa yfir valmynd

Frétt

9. maí 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Starfshópur um kjör aldraðra skipaður

Ásmundur Einar Daðason á fundi með Landssambandi eldri borgara - myndVelferðarráðuneytið

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, hefur skipað starfshóp sem fjalla á um kjör aldraðra til að fá betri yfirsýn yfir ólíkar aðstæður sem eldri borgarar búa við og gera tillögur um hvernig bæta megi kjör þeirra sem lökust hafa þau. Hópnum er ætlað að skila tillögum sínum fyrir 1. nóvember næstkomandi.

Skipun starfshópsins er í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem fram kemur að styrkja þurfi sérstaklega stöðu þeirra sem höllum fæti standa. Ásmundur Einar kynnti ákvörðun sína um skipun starfshóps í þessu skyni með minnisblaði sem hann lagði fyrir á fundi ríkisstjórnarinnar fyrir nokkru. Þar var bent á að þótt margir eldri borgarar búi við góð lífskjör sé hluti hópsins með afar takmörkuð eða engin réttindi úr lífeyrissjóðum og stundi ekki launaða vinnu. Þeir sem þannig eru settir þurfi nær eingöngu að reiða sig á ellilífeyri almannatrygginga og greiðslur honum tengdum sér til framfærslu.

Miklar breytingar voru gerðar á ellilífeyri almannatrygginga sem tóku gildi 1. janúar 2017 sem urðu mörgum eldri borgurum kjarabót. Engu að síður stendur hluti þeirra höllum fæti, hefur lágar tekjur sér til framfærslu, er á almennum leigumarkaði og jafnvel skuldsettur. Einnig býr sá hópur sem ekki hefur áunnið sér full réttindi til almannatrygginga vegna búsetu erlendis, til dæmis innflytjendur, oft á tíðum við kröpp kjör. Ásmundur Einar ræddi þessi mál á fundi með Landssambandi eldri borgara fyrir nokkru og um aðkomu landssambandsins að þessari vinnu þrír fulltrúar í starfshópnum eru tilnefndir af Landssambandi eldri borgara.

Í starfshópnum eiga sæti fyrir hönd ríkisstjórnarinnar fulltrúar frá forsætisráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti og velferðarráðuneyti og þrír fulltrúar frá Landssamtökum eldri borgara, en jafnframt getur starfshópurinn kallað til ráðgjafar þá aðila sem þörf er á hverju sinni.

Starfshópinn skipa:

  • Haukur Halldórsson, án tilnefningar, formaður
  • Arnar Þór Sævarsson, án tilnefningar
  • Bergþóra Benediktsdóttir, tilnefnd af forsætisráðuneytinu
  • Hilda Hrund Cortez, tilnefnd af fjármála- og efnahagsráðuneytinu
  • Þórunn Sveinbjörnsdóttir, tilnefnd af Landssambandi eldri borgara
  • Þorbjörn Guðmundsson, tilnefndur af Landssambandi eldri borgara
  • Guðrún Árnadóttir, tilnefnd af Landssambandi eldri borgara

Starfsmenn starfshópsins eru Ágúst Þór Sigurðsson og Guðmann Ólafsson, sérfræðingar í velferðarráðuneytinu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum