Hoppa yfir valmynd

Frétt

16. maí 2018 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fjármálastöðugleikaráð - fundargerð frá 20. mars 2018

Fundur haldinn í fjármála- og efnahagsráðuneyti.

Fundinn sátu: Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, formaður, Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, Jón Þór Sturluson, aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins, Guðrún Þorleifsdóttir, skrifstofustjóri á skrifstofu efnahagsmála og fjármálamarkaðar í fjármála- og efnahagsráðuneyti, Harpa Jónsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs Seðlabanka Íslands, Einar Jón Erlingsson, forstöðumaður þjóðhagsvarúðar hjá Fjármálaeftirlitinu og Tinna Finnbogadóttir, ritari fjármálastöðugleikaráðs.

Fundur hefst 15:10 20. mars 2018
1. Kynning formanns kerfisáhættunefndar á helstu þáttum greinargerðar hennar
a. Áhættan í fjármálakerfinu er að aukast, sem sést m.a. í því að útlánavöxtur er orðinn meiri en vöxtur landsframleiðslunnar. Viðnámsþróttur viðskiptabankanna er góður, þó hann hafi minnkað, m.a. vegna arðgreiðslna. Dregið hefur úr spennu á markaði með íbúðarhúsnæði en mikilvægt er að fylgjast vel með þeirri hættu sem stafað getur af hækkun verðs á atvinnuhúsnæði, en hún hefur verið töluverð síðastliðin misseri. Endurnýjun á viðskiptakerfum og öðrum innviðum bankanna sem og endurnýjun stórgreiðslukerfis og jöfnunarkerfis Seðlabankans felur í sér tímabundna rekstraráhættu sem eftirlitsstofnanir og eftirlitsskyldir aðilar hafa fylgst náið með.
2. Heimild til reglusetningar vegna eiginfjárauka
a. Fjármálaeftirlitið telur æskilegt að orðalagi í lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sem varðar álagningu eiginfjárauka verði breytt. Ákvæðið hefur verið túlkað þannig að ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins um álagningu eiginfjárauka hafa verið skilgreindar sem stjórnvaldsákvarðanir og fylgt því ferli sem um þær gildir. Fjármálastöðugleikaráð tekur undir að það færi betur á að Fjármálaeftirlitið fengi heimild til reglusetningar vegna eiginfjárauka. Þar með yrðu ákvarðanir um eiginfjárauka almenn stjórnvaldsfyrirmæli, en ekki stjórnvaldsákvörðun. Fjármála- og efnahagsráðuneytið mun hafa þetta til hliðsjónar við næstu endurskoðun laga nr. 161/2002 sem stendur til á haustþingi 2018.
3. Álagning eiginfjárauka
a. Eiginfjárauki á kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki
i. Samþykkt tillaga um að halda eiginfjáraukanum óbreyttum í 2%.
b. Eiginfjárauki vegna kerfisáhættu
i. Samþykkt tillaga um að halda eiginfjáraukanum óbreyttum í 3% en lengja aðlögunartíma annara fjármálafyrirtækja, sem hafa heimild til móttöku innlána, en kerfislega mikilvægra fjármálafyrirtækja að aukanum. Samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 1. mars 2016 þurftu slík fyrirtæki að vera með eiginfjárauka sem nam 3% frá 1. janúar 2019, en samþykkt var að lengja þann tíma til 1. janúar 2020.
Fundi slitið kl. 16:20 20. mars 2018 og framhaldið kl. 13:10 föstudaginn 13. apríl 2018.
4. Álagning eiginfjárauka frh.
a. Sveiflujöfnunarauki
i. Samþykkt tillaga um að senda tilmæli til Fjármálaeftirlitsins um að hækka sveiflujöfnunarauka um 0,5 prósentur í 1,75%. Hækkunin tekur gildi 12 mánuðum eftir ákvörðun Fjármálaeftirlitsins þar um.
b. Önnur mál
i. Drög að svarbréfi til Sambands íslenskra sparisjóða, vegna erindis þess frá 3. október 2017 um álagningu eiginfjárauka vegna kerfisáhættu, samþykkt.
ii. Fréttatilkynning samþykkt.

Fundi slitið 13:50 13. apríl 2018.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum