Hoppa yfir valmynd

Frétt

24. maí 2018 Heilbrigðisráðuneytið

Leiðir til að sporna við mis- og ofnotkun geð- og verkjalyfja

Frá skilafundi starfshópsins með ráðherra - myndVelferðarráðuneytið

Starfshópur sem falið var að gera tillögur um aðgerðir til að stemma stigu við mis- og ofnotkun geð- og verkjalyfja skilaði heilbrigðisráðherra í dag skýrslu með tillögum sínum. Í samræmi við skipunarbréf var í störfum hópsins gætt að hagsmunum þeirra sjúklinga sem gagn hafa af viðkomandi lyfjum vegna meðferðar.

Í skýrslu starfshópsins er fjallað um misnotkun lyfseðilsskyldra lyfja sem víða er vaxandi vandamál, líkt og Eftirlitsmiðstöð Evrópusambandsins um misnotkun lyfja (EMCDDA) hefur m.a. fjallað um í nýlegri skýrslu. Fram kemur að þetta eigi helst við um svefnlyf, róandi og kvíðastillandi lyf, ópíóíð, sterk verkjalyf og lyf notuð sem viðhaldsmeðferð við ópíóíðafíkn og örvandi lyf gegn ADHD. Þetta eru þeir lyfjaflokkar þar sem Íslendingar skera sig úr varðandi mikla notkun, auk þunglyndislyfja. Í skýrslu EMCDDA kemur fram að stóran hluta mikillar misnotkunar framangreindra lyfja megi rekja til slæmra ávísunarvenja lækna.

Árið 2016 notuðu Íslendingar nærri 30% meira af tauga- og geðlyfjum en Svíar sem koma næstir Íslendingum í samanburði milli Norðurlandaþjóðanna. Mestur munur er á ávísunum örvandi lyfja við ADHD (athyglisbrestur með ofvirkni) sem eru nær tvöfalt meiri hér á landi miðað við hverja 1.000 íbúa en í Svíþjóð. Hér á landi hefur notkun ADHD-lyfja, sérstaklega metýlfenidatlyfja, aukist mikið undanfarin ár, meðan aukningin hefur verið minni annars staðar á Norðurlöndunum.

Niðurstaða könnunar sem Lyfjastofnun gerði í mars á þessu ári á lyfjaneyslu háskólanema bendir til þess að um 20% háskólanema noti örvandi lyf til að minnka svefnþörf og bæta námsárangur. Starfshópurinn segir í skýrslu sinni að þetta bendi til þess að auðvelt sé að verða sér úti um þessi lyf með eða án lyfseðils og að misnotkun lyfjanna sé algeng hjá ungu og heilbrigðu fólki.

Starfshópurinn segir í skýrslu sinni til ráðherra að ástæður mikillar lyfjanotkunar hér á landi séu margþættar. Skapast hafi væntingar og menning sem líti á lyf sem lausn margra vandamála og samhliða miklu magni af ávanabindandi lyfjum í umferð aukist hætta á of- og misnotkun. Tillögur hópsins miðast fyrst og fremst að því að takmarka magn ávanabindandi lyfja í umferð og styðja góðar ávísunarvenjur lækna en einnig að því að efla eftirlit. Jafnframt segir hópurinn mikilvægt að almenningur sé upplýstur um þá hættu sem stafar af þessum lyfjum ef þau eru ekki rétt notuð. Starfshópurinn leggur því áherslu á að viðfangsefnið verði ekki til lykta leitt í eitt skipti fyrir öll heldur sé um viðvarandi verkefni að ræða þar sem heilbrigðisyfirvöld og fagstéttir verði að vinna saman að því að koma tillögum hópsins í framkvæmd.

Tillögur í níu liðum

Tillögur starfshópsins til heilbrigðisráðherra eru í níu liðum og miða aðgerðir að því að sporna gegn misnotkun og ofnotkun umræddra lyfja, án þess að ganga gegn hagsmunum þeirra sjúklinga sem hafa gagn af þeim. Aðgerðirnar miða að því að;

  • takmarka aðgang að ávanabindandi lyfjum,
  • auka fræðslu bæði hjá fagstéttum og almenningi,
  • herða eftirlit með ávísanavenjum lækna,
  • gera kröfur um bætta greiningu á ADHD
  • bæta aðgang að öðrum úrræðum en lyfjum við meðferð á ADHD, svefnvanda, kvíðaröskunum og langvinnum verkjum.

Auk þessa mælir hópurinn með því að gerð verði krafa um teymisnálgun við greiningu, meðferð og eftirfylgni sjúkdóma sem krefjast meðferðar með ávanabindandi lyfjum. Einnig telur starfshópurinn mikilvægt að innleiðing geðheilbrigðisáætlunar, með tilkomu geðheilsuteyma sem starfa í nánu sambandi við heilsugæsluna, tefjist ekki og að meðferð við fíknsjúkdómum og afleiðingum þeirra verði efld. Þá mælir hópurinn með því að lyfjanefnd Landspítalans verði styrkt og stofnuð lyfjanefnd innan heilsugæslunnar sem hafi það hlutverk að stuðla að góðum ávísunarvenjum lækna.

Formaður starfshópsins var Birgir Jakobsson, fyrrverandi landlæknir og nú aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra. Aðrir fulltrúar voru; Aðalsteinn Jens Loftsson, lyfjafræðingur hjá Lyfju, Áslaug Einarsdóttir, settur skrifstofustjóri í velferðarráðuneytinu, Einar Magnússon, lyfjamálastjóri í velferðarráðuneytinu, Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, Sigurður Örn Hektorsson, yfirlæknir fíknigeðdeildar Landspítala (LSH), Valgerður Rúnarsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga SÁÁ, Þröstur Emilsson, framkvæmdastjóri ADHD-samtakanna og Þórgunnur Ársælsdóttir yfirlæknir, formaður Geðlæknafélags Íslands.

 

 

  • Leiðir til að sporna við mis- og ofnotkun geð- og verkjalyfja - mynd úr myndasafni númer 1
  • Leiðir til að sporna við mis- og ofnotkun geð- og verkjalyfja - mynd úr myndasafni númer 2
  • Leiðir til að sporna við mis- og ofnotkun geð- og verkjalyfja - mynd úr myndasafni númer 3
  • Leiðir til að sporna við mis- og ofnotkun geð- og verkjalyfja - mynd úr myndasafni númer 4
  • Leiðir til að sporna við mis- og ofnotkun geð- og verkjalyfja - mynd úr myndasafni númer 5
  • Leiðir til að sporna við mis- og ofnotkun geð- og verkjalyfja - mynd úr myndasafni númer 6
  • Leiðir til að sporna við mis- og ofnotkun geð- og verkjalyfja - mynd úr myndasafni númer 7
  • Leiðir til að sporna við mis- og ofnotkun geð- og verkjalyfja - mynd úr myndasafni númer 8

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum